Sóknir og kirkjur

Kaþólska kirkjan á Íslandi er eitt biskupsdæmi, sem er skipt niður í sjö sóknir:

Kristssókn Sóknarkirkjan er Dómkirkja Krists konungs í Landakoti. Sóknarprestur er séra Piotr Zieliński. Sóknin var stofnuð sem trúboðstöð árið 1860 og fór með umsjón trúboðsins um allt land. Í Stykkishólmi er „Kapella Maríu meyjar, hinnar ævarandi hjálpar.“ Auk þess er reglulegt safnaðarstarf í öðrum sveitarfélögum sóknarinnar.

Biskupssetur er í Landakoti, Reykjavík og biskupskirkjan er Dómkirkja Krists Konungs í Landakoti. Þessi kirkja er einnig ‘Basilíka’ eða höfuðkirkja, sú eina á Norðurlöndum.

St. Jósefssókn Sóknarkirkjan er St. Jósefskirkja á Jófríðarstöðum. Sóknarprestur er séra Adrián Horacio Cabaña IVE. Sóknin var stofnuð árið 1926. Þrjár Maríusystur aðstoða prestana við safnaðarstörf, einkum við barnakennslu. Þær búa á Jófríðarstöðum í eigin húsnæði og er kapella á heimili þeirra. Í sókninni er einnig klaustur á Jófríðarstaðahæðinni. Þar búa 12 pólskar karmelnunnur, sem helga sig bænalífi.

St. Maríusókn Sóknarkirkjan er Maríukirkja í Breiðholti. Sóknarprestur er séra Denis O’Leary. Sóknin var stofnuð árið 1985. Reglulegar messur eru á Selfossi og í öðrum sveitarfélögum og eru kirkjur Þjóðkirkjunnar eða aðrir samkomusalir fengnar að láni til þess. St.

Péturssókn Sóknarkirkjan er St. Péturskirkja á Akureyri. Sóknarprestur er séra Hjalti Þorkelsson. Péturssókn var stofnuð 1953 og var þá svokölluð hálf-sókn til ársins 2000 þegar hún varð fullgild sókn. Auk daglegra messa á Akureyri í sóknarkirkjunni og í kapellu karmelssystra er messað víða um Norðurland. Á Akureyri búa fjórar karmelsystur, sem aðstoða við safnaðarstörf og annast barnagæslu. Á heimili þeirra er kapella og einnig á nýreistu heimili systranna á Dalvík.

St. Þorlákssókn Sóknarkirkjan er St. Þorlákskirkja á Kollaleiru. Sóknarprestur er séra Pétur Kovácik OFMCap. Sóknin var stofnuð árið 2007. Á Kollaleiru er hettumunkaklaustur. Þar búa hettumunkar frá Slóvakíu. Kapella er einnig á Egilsstöðum. Hún var blessuð árið 2009 og nefnist „Corpus Christi” kapella. Kaþólsk kapella í Höfn í Hornafirði var vígð árið 2013 og helguð heilagri fjölskyldu og hl. Jóhannes-María Vianney. Messur eru haldnar reglulega víða um Austurlandi

Sókn heilags Jóhannesar Páls II Sóknarkirkja er kirkja heilags Jóhannesar Páls II á Ásbrú í Reykjanesbæ. Sóknarprestur er Séra Grzegorz Adamiak. Sóknin var stofnuð árið 2014. Sóknin er undir vernd heilags Jóhannesar Páls páfa II sem var tekinn í tölu dýrlinga þann 27. apríl 2014 en hann sté fæti á sínum tíma í Keflavík, sem tilheyrir sókninni, og kyssti íslenska jörð þegar hann heimsótti landið árið 1989.

Sókn hl. Jóhannesar postula Sóknarkirkja er St. Jóhannesarkirkja á Ísafirði. Sóknarprestur er Séra Adam Antonowicz. Sóknin var stofnuð árið 2016 en fyrsta kaþólska kapellan á Ísafirði var tekin í notkun árið 1989. Sóknin er undir vernd hl. Jóhannesar postula og guðspjallamanns.