Skírnin

Skírnin er sameiginlegt sakramenti allra kristinna manna. Kirkjan veitir það í umboði Drottins: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni Föður, Sonar og Heilags anda“ (Mt 28:11).

Skírnin stofnar persónulegt samband við Jesú Krist. Hún táknar einnig upptöku í samfélag trúaðra, kirkjuna. Hún leiðir til fyrirgefningar synda og er tákn um að einstaklingurinn hafi hafið nýtt líf sem bróðir eða systir Jesú, sonur eða dóttir Guðs.

Skírnin skyldar einstaklinginn sem skírist, foreldra hans og guðforeldra til þess að breyta eftir Kristi í lífi sínu.

Foreldrar sem fyrirmyndir í trúnni

Það er afar mikilvægt að foreldrar skírnarbarnsins íhugi hvað felst í því að vera kristin. Barn getur aðeins lært það sem fyrir því er haft. Ákvörðun um að færa barn til skírnar krefst þess að foreldri fylgi barninu á leið þess til trúar, í samfélagi kirkjunnar, þegar það tekur á móti fyrsta altarissakramentinu og síðar í fermingunni og hvarvetna þar sem spurningar barnsins vakna um Guð og samleið hans með okkur mönnunum. Þá eru foreldrar ætíð skyldugir til þess að taka afstöðu og bregðast við á grundvelli trúar sinnar.

Guðforeldrar barnsins

Barn sem er fært til skírnar hefur eina guðmóður og einn guðföður. Hlutverk guðforeldra er að vera foreldrum til aðstoðar í kristilegu uppeldi barnsins. Hlutverk guðforeldra er fyrst og fremst af andlegum toga. Orðin guðmóðir og guðfaðir merkir „andleg móðir“ og „andlegur faðir“. Guðforeldrar verða að vera reiðubúin til þess að fylgja barninu í lífinu og vera til vitnis um trú sína í orðum og í verki.

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014