Prédikun Péturs Bürcher Reykjavíkurbiskups á jólum, 24. og 25. desember 2014

Kæru bræður og systur,

Gleðileg jól!

Jólin eru ljósið á meðal okkar. Hverjum fögnum við á þessari jólahátíð dagsins í dag? Barni. Barni, sem Guð gerðist maður í, og varð jafnframt Guð okkar sem maður! Þessi leyndardómur Guðs, sem varð maður, er ljósið okkar.

Jólin eru ljós trúar okkar. Áður hafði spámaðurinn Jesaja skrifað: „Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós“ (Jes 9, 2).

Táknið um nærveru Guðs er Jesúbarnið. Nýfædda barnið er glaðvakandi og opið fyrir öllum þeim sem horfa á það. Í jötunni teygir það út arma sína á móti okkur, býður okkur að ganga inn ... Foreldrar þess, María og Jósef, eru þar. Barnið lýsir upp og vermir hjörtu þeirra. María er mjög ung. Hún vill segja okkur að unga fólkið getur ráðið sjálft verkefnum sínum í lífinu! Allt það sem er „lífsnauðsynlegt“ er við höndina: Næring, vatn, föt, einhver vernd og hlýja – samfélag. Þeir sem það hafa eiga að hjálpa hinum sem hafa það ekki. Þannig geta þau lýst öðrum. Þráin eftir „meiru“ lætur alla – unga sem aldna – vonast eftir ljósi, tilgangi, hjálpræði.

Við skulum skoða sviðið með hirðunum: Þetta „meira“ í augum hirðanna er rödd Guðs fyrir munn englanna á himninum yfir Betlehem. Og gleðiboðskapur hans hljómar: „Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn...“

Kæru bræður og systur, við skulum ekki vera hrædd við að koma til jötunnar, til ljóssins. Því eins og rithöfundur nokkur (Sigfried Grän) sagði: „Ekki aðeins ljósið, hið heilbrigða, hið fagra og sterka, hið siðferðilega fullkomna tilheyrir veruleika mannsins, heldur einnig hið myrka, fátæktin, sjúkdómarnir, trúarneyðin, óttinn, örvæntingin. Við skulum geðjast yfir því að Guð varð maður í einu og öllu, að hann tók á sig ljós og skugga tilveru okkar.“ Jólin eru ljós Drottins handa öllum!

Jólin 2014 eru haldin á ári lífs sem helgað er Guði og komandi sýnódu um fjölskylduna árið 2015. Það er samkvæmt ákvörðun Frans páfa okkar. Hvað merkir það fyrir okkur hér á Íslandi? Okkur hefur til að mynda hlotnast sú náð að fyrir þrettán þúsund kaþólskra, en sú tala fer hækkandi á hverju ári, er þrjátíu og ein klausturkona. Þær eru ljós handa okkur öllum. Því miður er þó engin þeirra af íslensku bergi brotin. Við skulum biðja fyrir þeim, og að nýtt fólk hljóti köllun á Íslandi.

Regluprestar þjóna sem sóknarprestar í þremur af sex prestaköllum okkar. Þar þurfum við einnig á nýjum mönnum að halda sem hljóta köllun, því að á meðal átján presta okkar er um þessar mundir aðeins einn Íslendingur, Séra Hjalti. Og nú hafa vaknað miklar vonir: Í janúar 2015 væntum við heimsóknar þriggja Benediktsmunka frá Frakklandi sem kunna að hafa áhuga á Úlfljótsvatni, þó að þeir hafi enn ekki tekið neina ákvörðun um það. Þeir gætu orðið okkur öllum ljós. Allt þetta skulum við leggja í jólajötuna, sem og allar okkar áhyggjur og óskir. Jesúbarnið teygir fram hendurnar og opnar okkur öllum faðminn. Við öll, reglufólk, prestar, biskup og leikmenn, einkum fjölskyldur okkar, eigum að vera ljós vonar og friðar handa öðrum. Þannig byggjum við upp kirkju sem skín á ný í ljósi Krists, eins og segir í „Lumen Gentium“, skjali annars Vatíkansþingsins frá því fyrir nákvæmlega fimmtíu árum.

Kæru bræður og systur, í jólastjörnunni, í jötunni lýsir Guðs ljós, hjálpræðisvilji hans handa okkur öllum. Barn er oss fætt, ljós af ljósi, sannur Guð af sönnum Guði.

Því segi ég: Gleðileg jól!

Amen.

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014