Prédikun Péturs Bürcher biskups á jólum 2013

 

Kæru bræður og systur,

Ég óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla!

María mey fæddi okkur barn: Það heitir Jesús. Hann er frelsari okkar.

Hann er Sonur Guðs.

Fyrir nokkrum dögum lét Frans páfi okkar frá sér fara þessu orð birtunnar. Mig langar til að halda þeim ekki aðeins fyrir mig heldur vil ég færa þau ykkur öll að gjöf um þessi jól:

María „er ávöxtur hins guðdómlega kærleika sem bjargar heiminum.

Og Guðsmóðir hefur aldrei haldið sig fjarri þessum kærleika: Allt líf hennar, allt eðli hennar, er játning undir hinn guðdómlega vilja. Það var alls ekki auðvelt fyrir hana! Þegar engillinn ávarpaði hana með orðunum „þú sem nýtur náðar“, (Lúk 1, 28) varð hún „hrædd“, því að í auðmýkt sinni taldi hún sig einskisverða og fánýta frammi fyrir Guði. Engillinn hughreysti hana: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala og þú skalt láta hann heita Jesú“ (Lúk 1, 30). Þessi yfirlýsing gerði hana aðeins enn ráðvilltari, því að hún var ekki einu sinni gift Jósef, en engillinn bætti við: „Heilagur Andi mun koma yfir þig ... Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs“ (Lúk 1, 35): María hlustaði á, gaf jáyrði sitt innra með sér, og svaraði síðan: „Ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum“ (Lúk 1, 38).

Leyndardómur þessarar ungu konu frá Nasaret, sem hafði Guð í hjarta sínu, er ekki nýr fyrir okkur. Það er ekki eins og hann væri ætlaður henni einni. Nei, við erum tengd hvert öðru. Í rauninni beinir Guð kærleikssjónum sínum að sérhverjum karli og sérhverri konu! Hann lítur með kærleika til okkar allra. Páll postuli skrifar: „Áður en grunnur heimsins var lagður útvaldi [Guð] oss ... heilög og lýtalaus“ (Ef 1, 4). Þess vegna erum við einnig útvalin af Guði til þess að stunda heilagt líferni, laus við synd. Þetta kærleiksáform sitt endurnýjar Guð í sérhvert sinn sem við nálgumst hann, einkum í sakramentunum“, segir Frans páfi okkar.

Á þessari jólahátíð viljum við öll með Maríu, og einkum og sér lagi með hinum fátæku og kúguðu, líta til Jesú. Þetta litla barn í jötunni er himneskur frelsari okkar. Lítum til hans, einkum þegar myrkrið umlykur okkur í lífinu. Lítum til hans, einkum þegar við verðum fyrir ásökunum. Við erum sæl því að Jesús lítur einnig til okkar og gefur okkur óendanlegan kærleika sinn í fullri gnægð. „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“ (Jóh 3, 16). Komið ásamt Maríu og Jósef, við skulum tilbiðja hann!

Gleðileg jól.

Amen.