Prédikun Péturs Bürcher biskups á jólum 2010

 „Guð af Guði, ljós af ljósi, sannur Guð af sönnum Guði“

 

Kæru bræður og systur,

Hverju fögnum við kristnir menn á jólum? Guð er maður meðal okkar manna. Spurningin ætti því heldur að hljóða svo: Hverjum fögnum við á þessari jólahátíð í dag? Barninu. Guð varð maður og samt verður maðurinn áfram Guð! Kristnir menn reyna að tjá þennan leyndardóm í „jólajötunni“ og þeir fagna honum í heilagri messu. Við höfum búið okkur undir þetta á gervallri aðventunni.

Á síðustu vikum var frumsýnd afar athyglisverð kvikmynd í fleiri en fimmtíu löndum. Hún heitir „Des hommes et des dieux“. Í þessari nýju kvikmynd Xavier Beauvais, sem heitir „Menn og guðir“, er því lýst er vopnuð hreyfing íslamista myrti munka í Tibéhirine í Alsír. Áður en myndin hefst birtist texti úr Sálmunum, 82, 8: „Ég sagði: Þér eruð guðir, allir saman synir Hins hæsta.“ Já, Guð gerir okkur að kærum börnum sínum.

Táknið fyrir þessa nærveru Guðs er barnið Kristur. Nýfædda barnið er glaðvakandi og opið fyrir þeim sem horfir á það. Það teygir armana á móti okkur og býður okkur til sín ... Foreldrar þess, María og Jósef, eru mjög ung. Þau sýna okkur að ungt fólk getur líka valdið verkefnum sínum í lífinu! Þau hafa allt sem er þeim „lífsnauðsynlegt“, mat, vatn, föt og eitthvert skjól og hlýju – og samfélag annarra. En þráin eftir einhverju „meira“ veldur því að þau vilja ljós, tilgang og hjálpræði.

Svipað á við um hirðana: „Þetta „meira“ hjá hirðunum er rödd Guðs fyrir munn englanna á himnum í Betlehem. Og gleðiboðskapur þeirra er þessi: „Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn...“

Sá sem heyrir í engli leggur það til hliðar sem hann er að fást við þá stundina: hann hlýðir á boðskapinn.

Hirðirinn sem stendur þar hættir að sinna kindunum en hlustar af athygli.

Gamla konan hættir að borða matinn og elda hann: hún fær ...

Gamli maðurinn hættir að hafa áhyggjur af erfiðleikum lífsins: hann hvílir þreyttar hendur.

Ungi hirðirinn hættir um stund að kveða sitt ljúfa lag því nú heyrir hann annan söng.

Sá sem leitar mun finna... Sá sem hlustar á þetta barn, sem er Kristur, hann mun finna... Þessi áheyrn er trú okkar. En barnið er ekki einsamalt. Það hvílir í örmum móður sinnar. Þannig er því farið með kirkjuna: Kristur og kirkjan eru óaðskiljanleg. Trúin á Krist er óaðskiljanleg frá trúnni á kirkju hans. Kristur og kirkjan eru eitt. Þetta kemur afar vel fram í bók Benedikts páfa sextánda, „Jesús frá Nasaret“. Það er einkar gleðilegt að þessi bók skuli nú einnig hafa verið þýdd á íslensku!

Með mönnunum þremur sem komnir eru um langan veg er vísað til fólks á öðrum aldri og af annarri þjóðfélagsstöðu. Þetta eru vitringarnir, stjörnuspekingarnir, konungarnir þrír samkvæmt hefðinni. Einnig þeir munu finna.

Talan þrír vísar til þeirra þriggja heimshluta sem þá voru þekktir: Evrópu, Afríku og Asíu. Fulltrúar þeirra voru boðnir og þeir komu til að tjá lotningu sína.

Þessi þrítala gjafanna sýnir hvert þetta litla og yfirlætislausa barn í rauninni var:

Gull: Gjöfin handa konungi Guðsríkis, Drottni dýrðarinnar. Jesús er konungur!

Myrra: Handa Mannssyninum sem verður að deyja og mun síðan rísa upp, lækninn sem getur bætt sérhvert mein líkama og sálar. Jesús er maður.

Reykelsi: Handa Guði, handa prestinum, sem tengir saman himin og jörð. Jesús er Guð.

Við skulum að lokum líta enn og aftur til barnsins: tréð í jötunni er sams konar og í krossinum. Guð er orðinn maður til þess að lækna okkur og opna fyrir okkur hlið himnaríkis fyrir dauða sinn og upprisu. Við mennirnir erum öll synir og dætur Guðs. Í jólastjörnunni skín ljós Guðs, hjálpræðisvilji hans.

Við kristnir menn játum að úr ljósi Guðs á himnum komi Guð sem maður í heiminn til okkar til þess að bjóða okkur öllum að koma heim með sér og fyrir hann. Þannig er jólastjarnan einnig páskasól upprisunnar.

Og eins og við viðurkennum í trúarjátningu okkar þá er hann fæddur af Föðurnum fyrir allar aldir: Guð af Guði, ljós af ljósi, sannur Guð af sönnum Guði. Og við erum orðin börn hans fyrir mildi hans.

Þess vegna, kæru bræður og systur, segi ég gleðileg jól!

Amen.