Prédikun Péturs Bürcher biskups á 3. sunnudag í aðventu 2009

Hátíð Nuestra Señora de Guadalupe

Maríu móður Evrópu í Dómkirkju Krists konungs í Reykjavík 12. desember 2009

 

Kæru bræður og systur,

Í dag er 12. desember 2009. Það er þriðji sunnudagur í aðventu og við minnumst einnig Nuestra Señora de Guadalupe og Maríu móður Evrópu. Ég vil bjóða ykkur öllum í ferðalag. Sú ferð er ægifögur og full náðar: reyndar pílagrímsför. Við förum frá Reykjavík til Nasaret, Rómar, Trent, Mexíkó, Guadalajara, Jerúsalem og síðan sérstaklega um Freiburg til baka til Evrópu frá vestri (Gíbraltar) til austurs (Berezniki) og síðan frá suðri (Gnadenweiler) til baka til Reykjavíkur í norðri. Hvílík ferð og hún er ókeypis... Þið þurfið bara að hlusta.

„Jáyrði“ Maríu frá Nasaret er upphafið á endurlausninni frá syndum. Þar er um að ræða hinn óflekkaða getnað Maríu sem vísar öllum kristnum mönnum leiðina til hjálpræðis. Benedikt páfi XVI benti á það í þessari viku í ávarpi sínu við Angelus-bænina í Róm.

Hátíðin styðst við langa hefð innan kirkjunnar. Þegar á miðöldum og síðan á kirkjuþinginu í Trent var Móðir Jesú ævinlega undanþegin syndinni sem hver maður fæðist til. Hvernig hefði hún annars geta tekið þátt í endurlausnarverkinu? Þessi frelsun undan syndinni á hins vegar ekki upptök sín hjá Maríu sjálfri heldur gaf Guð henni hana fyrirfram í Jesú, svo að hún gæti orðið Guðsmóðir.

„Í hinu fátæklega húsi í Nasaret búa „hinir heilögu sem eftir lifa“ af Ísrael,“ segir páfi, „sem Guð vill vekja þjóð sína upp af að nýju, líkt og nýtt tré sem teygir greinar sínar yfir allan heiminn og býður gjörvöllu mannkyni hinn góða ávöxt endurlausnarinnar. Öndvert við Adam og Evu hlýðir María vilja Guðs og öll verund hennar segir „já“ og felur sig hinni guðdómlegu áætlun í vald. Hún er hin nýja Eva, hins sanna móðir alls sem lifir, allra sem öðlast nýtt líf fyrir trúna á Jesú Krist.“

Í dag er 12. desember 2009. Þann 12. desember 1531, í Mexíkó, var Juan Diego, sem nýlega hafði tekið kaþólska trú og verið skírður, á leiðinni til Tlatelolco til þess að sækja prest því sjúkur frændi hans vildi skrifta. Hann fór aðra leið inn í borgina því hann vildi ekki að „frúin“ tefði sig. En hún mætti honum samt og Juan Diego sagði henni hvað komið hefði fyrir frænda sinn. Hún sagði honum að hafa engar áhyggjur af frænda sínum, honum myndi batna.

Juan Diego varð rórra við þessi orð og hann uppfyllti ósk Maríu meyjar og fór upp á hæðina til þess að sækja nýjar rósir – að ósk biskupsins. María raðaði rósunum eigin hendi í kápu hans. Síðan hélt Diego aftur til biskupsins. Hann kraup á kné frammi fyrir biskupi, sagði honum frá orðum Maríu og breiddi úr kápu sinni svo rósirnar féllu á gólfið. Skyndilega birtist á kápu hans mynd hinnar eilífu meyjar og Guðsmóður. Biskupinn og allir viðstaddir sáu þessa fögru og dásamlegu mynd sem til er enn í dag. Árið 2002 var Juan Diego tekinn í tölu heilagra.

„Líkt og lærisveinarnir söfnuðust saman hjá Maríu eftir himnaför Drottins (P 1, 12–14)“, skrifaði mér nýlega erkibiskupinn í Freiburg og forseti þýsku biskuparáðstefnunnar, „þannig er þjóðum Evrópu einnig boðið að safnast saman hjá Maríu og láta hana leiða sig sér við hönd og undir verndarvæng hennar pílagrímsleið trúarinnar til takmarksins fyrirheitna. „María móðir Evrópu“ færir okkur einmitt nú þetta boð sitt frá helgistöðum sínum í Gíbraltar, Gnadenweiler og Berezniki. Þessir helgidómar eru heimkynni þeirra manna sem til hennar koma og veita þeim jafnframt þrótt og kraft í fylgd sinni við Krist. Þeir brúa vestrið (Gíbraltar) og austrið (Berezniki) og einnig brátt – ef Guð lofar – suðrið (Gnadenweiler) við norðrið (Ísland). Þar með mynda þeir krossmark yfir Evrópu – tákn endurlausnar og hins nýja lífs, tákn vonar og sameiningar út yfir dauðann.  Helgidómar Guðsmóður – „Maríu, móður Evrópu“ – eru meira en aðeins staðir bænar og íhugunar. Þeir eru fyrirheit Evrópu, Vesturlanda, og benda til þeirra krafta sem þau eru sprottin úr og lifa í. María vill leiða saman þjóðir Evrópu og sameina þær. Helgidómar hennar eru staðir blessunar og vonar fyrir heimsálfu okkar. Megi íbúar Evrópu undir vernd Maríu vaxa stöðugt í trú, von og kærleika og tengjast sífellt nánar undir leiðsögn hennar.“

Í dag er 12. desember 2009. Og enn erum við í Reykjavík. Mín kæru, pílagrímsferð okkar lýkur hér og nú með náðarríkri fregn. Erkiábóti St. Marteinsklaustursins í Beuron, Theodor Hogg OSB, skrifaði mér á hátíð heilags Marteins: „Séra Notker, munkur í klaustri okkar, sem hefur frá árinu 1986 annast sálusorgun í Beuron og nágrannabyggðunum Bärenthal og Hausen im Tal, lét fyrir nokkrum árum reisa kapellu sem ber nafnið „María, móðir Evrópu“, á landsvæði sóknarinnar í Bärenthal, þar sem heitir „Gnadenweiler“. Meðbróðir okkar hafði áhyggjur af því að kristin trú er í mikilli hættu í Evrópu. Hann vill berjast gegn þessu með því að byggja upp net bænastaða. Þannig vill hann í anda „nýrrar boðunar“ styrkja okkar heimshluta. Séra Notker hefur í þessu skyni haft samband við Gíbraltarbiskup og kaþólskan prest í Rússlandi. „Ég óska honum og samferðarmönnum hans góðrar ferðar og vona að verkefni þeirra komist til framkvæmda. Megi bænastaðurinn „María, móðir Evrópu“ verða til á Íslandi og verða þar staður blessunar sem styrki viðhald og frjósama endurnýjun kristinnar trúar og lífs í löndum okkar.“ Séra Notker kom til Reykjavíkur ásamt borgarstjóranum í Beuron og vinsamlegri sendinefnd frá Schwaben í Þýskalandi. Ég tók þeim og áformum þeirra fenginsamlega og af þakklæti. „Þetta ferfalda bænasamfélag,“ skrifaði séra Notker, „var stofnað laugardaginn 21. nóvember 2009 með „Fiat“-orði biskupsins, en það er sáðkorn fyrir byggingu helgidóms „Maríu, móður Evrópu“ sem nú er staðfestur á íslenskri grund. Á veturna spírar hveitið.“

Kæru bræður og systur, tími bænarinnar er kominn. „Hin nýja boðun“ á nú einnig að hefjast á Íslandi. Ykkur er öllum hjartanlega boðið að taka þátt með bænum og athöfnum! Biskupskapellan í Reykjavík er frá og með deginum í dag, 12. desember 2009, tileinkuð „Maríu móður Evrópu“.

Fiat!

„Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu með þeim mönnum sem hafa góðan vilja!“

Amen.