Páskamessa 2014

„Þegar konurnar heyrðu orð engilsins, fóru þær í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin“ (Mt 28:8).

Mattheus lýsir í guðspjalli sínu ótta kvennanna nálægt gröfinni. En hann bætir því við að þær séu glaðar og umfram allt að þær hlaupi til að koma skila¬boðunum til postulanna.

Eins og Frans páfi segir gjarna, þá er hér um þrenns konar veruleika að ræða:

Í fyrsta lagi er óttinn, en bíðum við, þetta merkir ekki ótta! Þetta er frekar afstaða sem leiðir til að virðingar og tilbeiðslu. Hér er um að ræða mikilfengleik og fegurð hins upprisna Jesú sem ber að dá og tilbiðja. Það er fegurð upprisunnar!

Í öðru lagi er þetta merki um gleði! Hvers vegna? Konurnar eru mjög hamingjusamar. Jesús lifir! Hann er hinn lifandi, sá sem fyrstur reis upp! Upprisa Jesú sýnir okkur eigin upprisu okkar: Sigurinn yfir dauðanum. Ekki endar allt með dauðanum. Hið sanna líf í Guði hefst! Það er fegurð gleðinnar!

Að lokum skal nefna að konurnar hlaupa. Ef menn hlaupa þá er ástæða fyrir því: það er áríðandi ! Þær vilja strax deila þessari miklu gleði með postulunum, góðu fréttirnar af hinum upprisna og lifandi Jesú skal boða strax. Þetta er einnig merking hinnar endurnýjuðu boðunar trúarinnar, sem kirkjan vill styrkja í heiminum í dag. En með hverjum á hún að gera þetta? Ekki aðeins með öðrum, heldur einnig með okkur öllum, sem berum vitni um trú okkar á Jesú, sem dó og reis upp fyrir okkur öll. Það er fegurð hins endurnýjaða trúboðs!

Fegurð upprisunnar! Fegurð gleðinnar! Fegurð hins endurnýjaða trúboðs! Þrenns konar fegurð sem ekki er lengur hægt að skilja að! Já, „Hversu fagurt er fótatak þeirra sem boða fagnaðarerindið um hið góða“ (sjá Rm 10:15b).

Kæru bræður og systur, munum við líka, eins og páfarnir tveir, Jóhannes tuttugasti og þriðji og Jóhannes Páll annar, sem teknir verða í tölu dýrlinga, verða boðberar fagnaðarerindisins um hið góða til bræðra okkar og systra? Hverjar eru þessar góðu fregnir? Jesús er risinn upp frá dauðum fyrir okkur öll! „Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upp risinn!“ Amen. Hallelúja! 

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014