Hirðisbréf Davíðs Tencer biskups 29. janúar 2017

Kæru bræður og systur,

Nú nálgast hátíð kyndilmessu. Við sjáum fyrir okkur ungu hjónin, Maríu og Jósef, ganga inn í musterið til að færa Drottni Jesúbarnið eins og lögmál Gyðinga segir fyrir um. Og vegna þess að Símeon gamli og Anna og allir viðstaddir sáu að þetta var ekki bara venjulegt barn heldur frelsari heimsins sem Guð hafi gefið fyrirheit um, er það venja okkar að blessa kerti á þessum degi til að staðfesta það. Já, hann er þetta ljós heimsins.

Einmitt þetta tákn, kertið, sem ber ljósið til allra, brennur samtímis. Þetta tákn var innblástur fyrir hl. Jóhannes Pál páfa II, sem sagði að þetta skyldi vera dagur allra þeirra sem helga líf sitt Guði. Og þessi dagur er alveg einstakur.

Fyrir skömmu var ég á ferð í Varsjá í Póllandi, og nálægt kapúsína­klaustrinu þar sem ég bjó, er Pilsudski-torgið. Þar má meðal annars sjá gröf ókunna hermannsins en þar brenna alltaf fjórir logar, dag og nótt, árið um kring. Og alltaf standa þar vörð tveir hermenn í fullum herklæðum. Með þessu sýnir þjóðin virðingu sína, ekki bara þessum eina hermanni, heldur öllum þeim sem fórnað hafa lífi sínu fyrir heimaland sitt og þjóð. Þetta finnst mér alveg rétt, því að þeir guldu fyrir það með lífi sínu.

En bíðum við, fyrst þessu er svo háttað á Pilsudski-torginu, þá er ég viss um að sami logi ætti að brenna í kirkjugarðinum sem er að baki Dómkirkjunni okkar. Þessi logi ætti að brenna hjá gröfum allra þeirra þriggja biskupa sem þar hvíla, allra presta Montfortreglunnar eða presta biskupsdæmisins okkar sem störfuðu og dóu hér á landi! Og sömu hermenn ættu líka að standa við gröf hverrar einustu Jósefssystur! Vegna þess að öll helguðu þau líf sitt þjónustunni við þjóð og kirkju á Íslandi.

En það er ekki nóg, sami logi ætti að brenna í kirkjugarðinum á Munkaþverá, við gröf Hákonar Loftssonar. Og gleymum ekki Karmelklaustrinu í Hafnarfirði, en þar eru jarðsettar nunnur bæði frá Hollandi og Póllandi, sem afsöluðu sér lífinu með fjölskyldu sinni og helguðu líf sitt þess í stað kirkjunni hér á landi. Þar ættu að vera bæði hermenn og logi! En höldum við að þau sjálf biðji um þetta? Nei, alls ekki. Gerum heldur eitthvað enn betra og skynsamlegra í staðinn.

Í fyrsta lagi: Biðjum fyrir þeim sem fórnuðu lífi sínu í þjónustu við Guð og okkur.

Í öðru lagi: Á kyndil­messu skulum við af fremsta megni reyna að sækja messu og láta blessa þau kerti sem við ætlum að nota heima hjá okkur.

Og í þriðja lagi: Hugsum um það, að nú er komið að okkur að halda því verki áfram sem þau byrjuðu, að gera eitthvað fyrir kirkju og þjóð. Og ef okkur er það mögulegt, skulum við ekki óttast að helga líf okkar Guði og kirkjunni í landinu sem prestar, munkar eða nunnur. Unga fólk, heyrið þið það?!

Drottinn þiggi fórn okkar af höndum okkar nafni sínu til lofs og dýrðar, en oss til gagns og heilagri kirkju sinni allri, og megi blessun Guðs, Föður, Sonar og Heilags Anda, koma yfir okkur öll.

Amen.

Bróðir Davíð, biskup

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014