Hirðisbréf Norræna biskuparáðsins

Frá ágreiningi til samfélags

Árið 2017 er ártíð atburða sem höfðu mikilvægar afleiðingar fyrir kristna trú fyrst og fremst í Evrópu. Árið 1517 setti Marteinn Luther af stað atburðarás, sem í sögunni kallast siðaskipti og hefur einkum haft mikil áhrif á mótun kirkjulegra hefða og sjálfsímynd evangeliskra systkina okkar í trúnni.

Þar sem siðaskiptin eiga sér kaþólskan bakgrunn er við hæfi að við, sem erum kaþólsk, hugleiðum þetta efni.

Þetta kemur þegar fram í ritinu „Vom Konflikt zur Gemeinschaft“(Frá ágreiningi til samfélags), sem er niðurstaða viðræðna hinnar Lútersk-Rómversk-kaþólsku nefndar fyrir einingu kirkjunnar. Í þessu riti er stefnt að sameiginlegri minningu sem leggur áherslu á íhugun frekar en sigurgleði. 

Þrátt fyrir skiljanlegar ástæður höfðu siðaskiptin nefnilega klofningu kristinna manna í för með sér, sem enn veldur þeim djúpri þjáningu. Í hinum norrænu löndum varð þessi klofningur þess valdandi að kaþólska kirkjan gat ekki fyrr en eftir margar aldir hafið störf þar að nýju. Þess vegna er ekki hægt að minnast fimmhundruðustu ártíðarinnar með hátíðahöldum í eiginlegri merkingu.  Það ætti miklu fremur að minna á hana með iðrun í huga.

Sáttaferill milli kaþólsku kirkjunnar og kirkna siðskiptanna hófst þegar fyrir mörgum áratugum.

Í upphafi 16. aldar þurfti kaþólska kirkjan vissulega á umbótum að halda. Það var ekki aðeins Marteinn Luther heldur fleiri á þeim tíma sem gerðu sér grein fyrir því og létu það í ljós. En í stað þess að fást við að útskýra nauðsynlegar spurningar um kenninguna ollu kristnir menn mismunandi kirkjudeilda hvorir öðrum ómældri þjáningu.

Í lok Bænaviku um einingu kristinna manna í ár bað Frans páfi um „Miskunnsemi og fyrirgefningu fyrir þá breytni kaþólskra gagnvart öðru kristnu fólki, sem samræmdist ekki fagnaðarerindinu.“

Í Svíþjóð brugðust nokkrir evangeliskir kennimenn við þessu með því að biðja okkur kaþólska um fyrirgefningu. Nú er hin mikilvæga spurning hvernig við getum haldið áfram í sameiningu til þess að nálgast hvorir aðra í trú, von og kærleika.

Við, kaþólsku biskuparnir á Norðurlöndum, viljum ganga á þessum vegi sátta ásamt lúterskum bræðrum okkar og systrum og gera allt til þess að efla einingu.

 

Ecclesia semper reformanda[1]

Kirkjan verður sífellt að leyfa Kristi að umbreyta sér og endurnýja sig.

Við erum að vísu heilög þjóð en þjóð syndara á pílagrímsför til eilífðar. Umbreyting, iðrun og trúarþroski eru mikilvægar vörður á leiðinni.

Með Öðru Vatíkanþinginu opnaði kaþólska kirkjan sig fyrir mörgu, sem er einnig mikilvægt fyrir evangelískt kristið fólk, t.d. hlutverk Heilagrar Ritningar og mikilvægi hins almenna prestsdóms hinna skírðu.  Þar með er ýmis ágreiningur því sem næst horfinn. Það sem enn skilur að snertir m.a. sakramentisgildi kirkjunnar svo og skilning á sakramentunum og embættum.

Kaþólskir trúa því að kirkjan sé grundvallarsakramenti þar sem Orðið sem gerðist maður verði nærverandi í sakramentunum til þess að sameinast okkur í kærleika og breyta okkur í sig sjálfan. Við sjáum jafnframt að margt staðfast evangelískt trúað fólk er sífellt opnara fyrir þessu viðhorfi. Ein óleyst spurning, sem er báðum hliðum erfið, er sameiginleg altarisganga. Þrá eftir henni er mjög skiljanleg en eining um borð Drottins verður að endurspegla einingu í trúnni.

Margir evangelískir eiga erfitt með að skilja embætti páfa. Persónuleiki Frans páfa hefur þó gert það skiljanlegra. Hinn heilagi páfi Jóhannes Páll II. hafði þegar hvatt alla kristna menn, sem ekki eru kaþólskir, til að hugleiða aðrar leiðir til að sinna embætti Péturs (Ut unum sint nr. 95).

Frá fornu fari var einnig deilt um hlutverk Maríu og hinna heilögu. En margt kristið fólk, sem ekki er kaþólskt, viðurkennir að nýju þýðingu Maríu sem móðir Guðs og fyrirmynd í trúnni. Þrátt fyrir gagnkvæma nálgun í því sem snertir trúarkenningar virðast á okkar dögum koma fram aukin ágreiningsmál í siðfræði og siðferði.

Þó svo að þetta torveldi samræður á vissan hátt, má samt ekki gefast upp.

 

Skilgreining kristinnar trúar

Á öllum tímum hafa kristnir menn sett fram kennisetningar til þess að skilgreina kenningu trúarinnar glögglega, aðgreina sig frá röngum skilningi eða miðla henni á skiljanlegan hátt.  Oft urðu slíkar skilgreiningar deiluefni, sem sköpuðu skörp skil milli kristinna manna.  Þannig ollu meginkenningar siðskiptamanna aldalöngum aðskilnaði.  Samt sem áður er það líka vænlegt til árangurs fyrir kaþólska að skoða þær á uppbyggilegan hátt.

 

Sola fide 

Trú er algerlega nauðsynleg til réttlætingar.  Við sameinumst evangelískum bræðrum okkar og systrum um grundvallarleyndardóma trúarinnar, t.d. um Heilaga Þrenningu, Jesúm Krist, frelsun og réttlætingu. Við gleðjumst yfir þessarri einingu í trúnni, sem er grundvölluð í skírninni og túlkuð í sameiginlegri yfirlýsingu um réttlætinguna. Þess vegna er það einnig hlutverk okkar að bera þessum trúarsannindum sameiginlegt vitni í okkar veraldlega sinnaða samfélagi.

Á Norðurlöndum, þar sem að vísu mikill meirihluti fólks er skírður en fáir iðka trú sína, er mikilvægt að boða fagnaðarerindið sameiginlega og einum rómi.

 

Sola Scriptura

Það er einungis í gegnum Heilaga Ritningu sem við getum tekið á móti fullri opinberun um þá frelsun sem okkur er boðin í Kristi.  Kirkjan tók á móti þessari opinberun og heldur henni áfram.

Það var kennivald kirkjunnar sem staðfesti hina lifandi trúarhefð í Heilagri Ritningu.

Fyrir okkur kaþólska heyra kirkja, kennivald, trúarhefð og ritning saman.

Í kirkjunni og með kirkjunni er Ritningin opnuð okkur. Á þann hátt verður trúin sífellt betur lifandi fyrir okkur.

Að undanförnu hefur þeim evangelísku kristnu fjölgað, sem eru sammála okkur og trúa að Ritning og trúarhefð kirkjunnar séu tengd sterkum böndum.

 

Sola gratia

 „Allt er náð“ sagði hinn heilagi kirkjufræðari Theresa frá Lisieux, sem má líta á sem kaþólskt svar við Marteini Luther.

Án náðar getum við ekki gert neitt gott.  Án náðar öðlumst við aldrei eilíft líf.  Aðeins fyrir náð Guðs getum við verið réttlætt og orðið heilög.  Náðin getur raunverulega gerbreytt okkur en við verðum að svara náðinni og vinna með henni.

Í Maríu Guðsmóður, sem er full náðar og flekklaus, sjáum við hversu miklu Guð fær áorkað í einni manneskju.  Fyrir marga evangelíska trúaða er það ennþá erfitt að viðurkenna þennan sannleika. En við sjáum einnig að margir þeirra sýna áhuga á svipuðum spurningum um vöxt í bæninni og heilagleika.

 

Simul iustus et peccator

Öll erum við í senn réttlát og syndarar.  Við sem erum kaþólsk trúum því að við séum vissulega syndarar; fyrir náð Guðs getum við þó fengið fyrirgefningu allra synda í sáttasakramentinu.

Við sem erum kristin og skírð erum kölluð til heilagleika.  Kirkjan er skóli heilagleikans.  Hinir heilögu, sem við getum beðið um fyrirbæn, eru lýsandi dæmi og fyrirmyndir um þennan heilagleika.  Eitt dæmi er kona frá okkar löndum, heilög Elisabeth Hesselblad, sem nýlega var lýst heilög. Hún er okkur öllum hvatning að halda meðvitað áfram á vegi heilagleikans.

Við sjáum að margir evangelískir kristnir sýna áhuga á heilögum eins og t.d. heilögum Frans frá Assisi og heilagri Móður Teresu frá Kalkútta. Í okkar veraldlega heimi þurfum við á slíkum trúarvitnum að halda, þau eru lifandi og trúverðug vitni um trú okkar.

 

Martyrium

Við vitum að einnig á okkar tímum eru fjölmargir kristnir ofsóttir vegna trúar sinnar og margir bera vitni með blóði sínu.  Píslarvættið sameinar kristna úr ýmsum kirkjudeildum.

Við minnumst allra kristinna í Mið-Austurlöndum, sem ofsóttir eru en halda samt tryggð við Krist og kirkju sína. Fordæmi þeirra styrkir líka okkur í trúnni.  Margir kristnir frá þessum löndum hafa komið til okkar á Norðurlöndum.

Þess vegna er mikilvægt að við, kristið fólk í löndum okkar, varðveitum, verndum og dýpkum það sem við eigum sameiginlegt í trúnni.  Þá getum við líka meir og meir borið sameiginlegt vitni um hinn upprisna Drottin.

 

Framtíðarsýn

Hinni  sameiginlegu yfirlýsingu  „Frá ágreiningi til samfélags“ lýkur með fimm mikilvægum, samkirkjulegum atriðum, sem hvetja okkur kaþólska og lúterana til að taka frekari skref á sameiginlegri  leið til einingar.

Það er:

1.  Að ganga út frá sýn á einingu en ekki aðskilnaði og styrkja hið sameiginlega

2.  Að láta trúarvitnisburð hvors annars hafa gagnkvæm áhrif til breytinga.

3.  Að skuldbinda sig til að leita að sýnilegri einingu.

4.  Að enduruppgötva sameiginlega kraft í fagnaðarerindi Jesú Krists fyrir okkar tíma.

5.  Að bera náð Guðs sameiginlegt vitni í boðun og þjónustu fyrir heiminn.

Þó að þessi fimm atriði fjalli um mikilvæga og ekki alltaf einfalda hluti er boðskapur þeirra augljós, þó aðeins ef við helgum okkur Kristi fyllilega og uppgötvum aftur sameiginlega kraft fagnaðarerindisins (sb. 4. atriði).

Við gleðjumst og þökkum Guði fyrir að hinn heilagi Faðir, Frans páfi, kemur til Lundar í tilefni af minningu um siðaskiptin, til þess að styrkja okkur í trúnni.

 

Við hvetjum alla kaþólska til að fylgja undirbúningi undir páfaheimsóknina með bænum sínum og svo margir sem mögulegt er að koma til samkirkjulega fundarins í Malmö Arena svo og að taka þátt í messunni í Swedbank Stadion.  Með því sýnum við sem kaþólskir gleði okkar yfir að vera með Frans páfa og einnig virðingu fyrir sjálfsmynd evangelískra trúsystkina okkar, sem mótast hefur af siðaskiptunum.  Þrátt fyrir þann mismun sem enn er fyrir hendi erum við, í trausti á náð Guðs, þess fullvissir að hægt sé að finna leiðir til sameiginlegrar einingar.

 

Á hátíð hl. Teresu frá Avila, 15. október 2016

 

  +Czeslaw Kozon                        +Anders Arborelius OCD .

  Biskup í Kaupmannahöfn               Biskup í Stokkhólmi

 

+Bernt Eidsvig Can.Reg

Biskup í Osló

Stjórnandi í Þrándheimi

 

  +David Tencer OFMCap                                   +Teemu Sippo SCJ

    Biskup í  Reykjavík                                Biskup í Helsinki

 

Biskupspreláti  Berislav Grgic                   +Gerhard Schwenzer SS.CC.

Umdæmið Tromsö                                         fyrrum biskup í Osló

 [1] Kirkjan sem endurnýjar sig í sífellu.

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014