Hirðisbréf Davíðs Tencer biskups við upphaf nýs skólaárs 2016

Ég vil byrja á því að þakka fyrir allt það sem vel hefur verið gert í sumar á sviði barna- og unglingastarfs og annarrar fræðslu, því að þó að börnin hafi verið í sumarleyfi, var ekki alltaf sömu að segja um presta, nunnur og leikmenn. Mörg þeirra tóku þátt í þessu starfi, til að mynda með undirbúningi pílagríms¬ferðarinnar til Maríulindar, en þar voru þátttakendur um 140 talsins. Enn aðrir greiddu fyrir för ungmenna héðan (um 30 þátttakendur alls) á Heimsæskulýðsdaginn í Póllandi í sumar, og einnig ber að þakka þeim sem fylgdu pílagrímum hringinn í kringum landið til að heimsækja allar kirkjurnar og kapellurnar á þessu Ári miskunnseminnar.

Nú hefst nýtt skólaár og þar með einnig trúfræðsla vetrarins. Tilgangur okkar er að sjálfsögðu að kenna börnunum um Guð og kirkju hans, svo sem boðorðin tíu og ýmsar bænir. En, það er þó ekki nóg! Við viljum gera enn meira en veita þeim nauðsynlega fræðslu. Okkur langar að mynda mjög sterkt samband milli unglinganna, Guðs og kirkjunnar. Þetta samband byggir að sjálfsögðu á fræðslu og kenningu en það þarf einnig að snerta hjartað djúpt. Það er svo mikilvægt!!! Hvers vegna?

Það er vegna þess, að maðurinn er stundum eins og krían sem við þekkjum svo vel á Íslandi. En ekki vita allir að krían er á Suðurskautslandinu á veturna og fer lengstu ferð allra dýra í heiminum. Sérfræðingar fylgdust með einni kríu sem flaug 91 þúsund kílómetra á einu ári. Svo ótrúlegt sem það er, þá fór hún frá Íslandi til Hollands, þaðan suður alla Evrópu og Afríku, þá yfir til Ástralíu og Tasmaníu. Síðan flaug hún til Suðurskautslandsins og fór þar næstum hringinn í kringum heimsálfuna. Og svo fór hún sömu leið til baka til Íslands, allt á innan við einu ári, til þess að verpa hér og koma upp ungum sínum!

Sumir eru eins og rjúpan, alast upp í kirkjunni og fara aldrei frá henni. Lífið er stundum flóknara hjá öðrum, sem hafa alist upp í trú en fjarlægjast svo kirkjuna, en vegna sambandsins við hana í barnæskunni snúa þeir aftur til baka, eins og krían. Vegna alls þessa þurfum við öll, prestar, nunnur, foreldrar, kennarar og þeir sem starfa með börnum og unglingum, að hugsa vel um það að við viljum ekki bara koma kenningunni áleiðis heldur skapa og styrkja tengsl hjartans við kirkjuna og Guð. Ég óttast ekki um framtíð kirkjunnar ef börnin okkar eru annað hvort eins og rjúpan sem aldrei yfirgefur landið, eða eins og krían sem fer heiminn á enda og snýr til baka til landsins okkar, kirkju og trúar, af því að tengslin þar á milli eru svo sterk. Blessun Guðs fylgi öllum sem styrkja þessi tengsl á komandi skólaári, 2016-2017.

+ Davíð biskup

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014