Hirðisbréf Davíðs Tencer biskups 27.11.2016

Bræður og systur,

Orð dagsins er „Caritas“. Orðið beinir huga okkar aðallega að söfnun og öðru ekki. En málið er ekki svona einfalt. Hvað merkir orðið Caritas? Íslenska þýðingin er ást, elska eða kærleikur. En hvers konar ást, elsku eða kærleika er þar um að ræða? Er það ástin milli karls og konu, nei, alls ekki. Það köllum við Eros, sem er sú ást sem hefur einkum að markmiði líkamlegt samband við aðra persónu. Á einhvern hátt felst einnig í því löngum til að eiga hana. Kannski gæti Caritas átt við um móðurástina sem getur verið svo sterk að móðurinni er sama um sjálfa sig og er reiðubúin að fórna lífi sínu fyrir barnið. Þessi ást sést hjá sýrlensku konunni sem komst ekki sjálf með í bát flóttamanna heldur borgaði manni nokkrum 5000 evrur fyrir barnið og bað hann að láta það í hendur einhvers sem gæti tekið að sér barnið og alið það upp, því að heima hjá henni var það í stöðugri lífshættu. Slíka ást, sem lýsa má með orðunum: „Ég elska þig meira en mitt eigið líf,“ köllum við Amor. Þannig elskaði Jesús okkur, svo mjög að hann dó á krossinum til að við gætum lifað að eilífu.

En hvað er þá Caritas? Hvers konar ást er það? Caritas er elska sem deilir með öðrum. Orðið sjálft er af gríska stofninum charis, sem merkir ástargjöf. Þess konar ást merkir að við deilum því sem við eigum með öðrum. Caritas er að bjóða öðrum t.d. til máltíðar sem við höfum búið handa okkur, eða þegar við gefum öðrum helminginn af nestinu okkar eða hjálpum einhverjum með því að gefa af okkar eigin peningum o.s.frv.

Þið vitið að í biskupsdæmi okkar starfar stofnun sem ber heitið Caritas Ísland. Margir muna eftir tónleikum sem haldnir hafa verið á hennar vegum á aðventutímanum eða söfnunum í þágu þeirra sem minna mega sín og þurfa á fjárhags¬stuðningi að halda. Í dag vil ég þakka öllum þeim kærlega sem setið hafa í stjórn Caritas-Íslands á undanförnum árum og jafnframt tilkynna það hér að nýr stjórnarformaður hefur tekið við í samtökunum, Mike Frigge.

Í dag byrjar nýtt kirkjuár og í dag er líka söfnun fyrir Caritas og allt þetta ætti að hjálpa okkur að hugsa svolítið um það að við ættum að taka nýja „Caritas-stefnu“. Við ættum að minnast þess að Caritas er ekki fyrst og fremst stofnun heldur á hugtakið við okkur sjálf: Við þurfum að breyta hugsunarhætti okkar og huga að því hvers vegna og hvernig við getum hjálpað, því að peningar hjálpa ekki alltaf, heldur verður hugsun okkar að breytast. Og það merkir að innst í hjarta okkar og huga ætti að kvikna sterk löngun sem birtist í þessu: Hvernig get ég hjálpað þér, hvað væri best að ég gerði fyrir þig?

Bræður og systur, ég vil biðja ykkur ekki aðeins að safna fé eða biðja fyrir Mike Frigge og samstarfsfólki hans í Caritas Ísland, heldur einnig að hugsa æ meir um það hvernig við sjálf getum starfað á sem bestan hátt fyrir það fólk hér á landi sem býr við neyð og kröpp kjör. Megi María Guðsmóðir, sem var fyrsta og besta ambátt Guðs, hjálpa okkur að fylgja kærleika og Caritas Krists sonar hennar.

Guð blessi ykkur öll.

+Davíð biskup

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014