Hirðisbréf Davíðs biskups fyrir sunnudaginn, 29. nóvember 2015

 

Kæru bræður og systur,

með Kaþólsku kirkjunni um allan heim hefjum við með fögnuði Heilagt ár miskunnseminnar, sem Frans páfi lýsti yfir í bréfi sínu MISERICORDIÆ VULTUS frá 11. apríl 2015. Ár miskunnseminnar hefst í Róm með opnun Heilagra dyra á hátíð hins flekklausa getnaðar heilagrar Maríu meyjar þann 8. desember n.k. en sunnudaginn á eftir, þriðja sunnudag í aðventu, munu biskuparnir víða um heim hefja formlega Heilagt ár miskunnseminnar í biskupsdæmum sínum. Heilagt ár miskunnseminnar stendur yfir til 20. nóvember 2016.

Ár miskunnseminnar er fyrst og fremst boð kirkjunnar til allra manna um að opna sál sína fyrir miskunnsemi Guðs og einnig til að verða miskunnsamir… eins og Faðir okkar er miskunnsamur… (Lk 6,36).

Aðaldyrnar að guðshúsum okkar hér á landi, sóknarkirkjum og öðrum völdum helgistöðum, veita okkur aðgang að náð og miskunnsemi Drottins og virðast segja við okkur: „Hér er vissulega Guðs hús og hér er hlið himinsins!“ (1M 28,17).

Í krafti þess postullega embættis, sem mér var falið sem biskupi ykkar, hef ég ákveðið að fullkomið aflát Árs miskunnseminnar megi vinna á eftirtöldum stöðum:

1. Basilíka og Dómkirkja Krists konungs í Landakoti, Reykjavík (Túngötu 13).

2. St. Maríukirkja Stella Maris í Breiðholti, Reykjavík (Raufarseli 4).

3. St. Jósefskirkja á Jófríðarstöðum, Hafnarfirði.

4. Kirkja hl. Jóhannesar Páls II í Ásbrú, Reykjanesbær (Keilisbraut 775).

5. St. Péturskirkja á Akureyri (Hrafnagilsstræti 2).

6. St. Þorlákskirkja í Reyðarfirði (Kollaleiru).

7. Kapella Karmelsklausturs í Hafnarfirði (Ölduslóð 37).

8. St. Maríukapella hinnar ævarandi hjálpar í Stykkishólmi (Austurgötu 7).

9. St. Jóhannesarkapella á Ísafirði (Mjallargötu 9).

10. Corpus Christi-kapella á Egilsstöðum (Lagarási 18).

11. Kirkja hl. Fjölskyldu og hl. Jóhannesar Maríu Vianney á Höfn í Hornafirði (Hafnargötu 40).

12. Einnig verður hægt að vinna aflát hins Heilaga árs við Maríulind á Hellnum (Snæfellsnesi).

 

Til að vinna aflát þarf að:

1. fara á einn af ofangreindum stöðum,

2. vekja hugarfar og löngun til að vinna aflát (t.d. með ákalli: Heilagi Guð, heilagi Sterki, heilagi Ódauðlegi, miskunna þú oss og gjörvöllum heimi),

3. vera í náð Guðs (skriftir),

4. meðtaka altarissakramentið þennan dag,

5. játa trúna (t.d. með trúarjátningu) og fara með Faðir vor, Maríubæn og Lofgerðarbænina í bænarefnum hins heilaga föður, Frans páfa.

Mjög skemmtilegt væri ef við gætum á einu ári komist að öllum miskunnarstöðum hér á landi. Bæklingurinn, sem heitir Vegabréf miskunnarinnar og er fáanlegur hjá prestum ykkar, getur verið bæði hvatning og huggun á pílagrímsleið okkar. Auk þess að náð Guðs veitist þeim, sem í einlægni og trú leitast við að öðlast miskunnsemi hans, fá allir, sem hafa heimsótt alla staðina, smáviðurkenningu á biskupsstofu.

Móðir allrar miskunnar, bið þú fyrir oss!

Í gleði og von um, að hið Heilaga ár miskunnseminnar færi biskupsdæmi okkar nýtt líf og nýjan kraft, gef ég ykkur postullega blessun mína.

… Og biðjið fyrir mér! Ég þarfnast þess mjög.

                                                                                          + Davíð, biskup ykkar

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014