Hirðisbréf Péturs Bürcher biskups fyrir sunnudaginn 23. febrúar 2014

„Verið því fullkomin,“ segir Jesús, „eins og faðir yðar himneskur er fullkominn!“ (Mt 5,48)

Kæru bræður og systur,

Þessi orð Jesú eiga erindi við alla en alveg sérstaklega við reglusystur og reglubræður. Þann 31. janúar 2014 kynnti Joao Braz de Aviz, kardínáli og prefekt Stjórnardeildar klausturreglna og samtaka um postullegt líf, árið 2015 sem „Ár reglusamfélaga“. Frans páfi kallaði eftir því þann 29. nóvember á síðasta ári. „Fyrst ber að nefna,“ sagði kardínálinn „að undirbúningurinn fyrir þetta ár, sem er tileinkað reglusamfélögum, hefur verið unninn í samhengi við 50 ára afmæli annars Vatíkanþingsins ... Þar sem við lítum á þessi 50 ár sem liðin eru frá þinginu sem tímabil náðar fyrir reglusamfélög, markað af návist Andans sem lætur okkur jafnvel upplifa veikleika okkar og ótryggð sem einn þátt í Guðs náð og kærleika, viljum við að þetta ár verði tilefni til þess að minnast hins nýliðna tímaskeiðs með þakklæti“.

Nýlega bauð ég öllum reglubræðrum og -systrum okkar á Íslandi til árlegs fundar. Við báðumst fyrir, mötuðumst, ræddumst við og héldum messu saman. Þessi fundur var einnig þakklætisvottur til þeirra tæplega 40 reglubræðra og -systra sem biðja og starfa nú í Kaþólsku kirkjunni á Íslandi. Það eru átta regluprestar og eftirtaldar reglusystur:

Íhugunarregla Karmelsystra, OCD, í Hafnarfirði.

Karmelsystur af hinu guðdómlega hjarta Jesú, DCJ, á Akureyri og Egilsstöðum.

Kærleiksboðberarnir, Teresusystur, í Reykjavík.

Mexíkósku systurnar frá Guadalajara í Landakoti.

Þernur Drottins og Maríu meyjar frá Matará, IVE, í Hafnarfirði og Stykkishólmi.

Flestar þeirra eru ungar! Þær eru tákn vonar fyrir kirkju okkar! Þær eru Guðs gjöf! Þess vegna erum við Guði afar þakklát.

Þakklæti okkar til Guðs nær einnig til fortíðarinnar. Hin ýmsu reglusamfélög hafa starfað á Íslandi í ríflega hundrað ár og hafa verið áhrifamikið afl í kirkjulífinu. Frá árinu 1903 var kaþólska trúboðið á Íslandi leitt af Montfortreglunni. Á 20. öld störfuðu Jósefssystur, Fransiskussystur, Karmelsystur og Sisters of Mercy á Íslandi. Þær unnu og báðust fyrir. Þær byggðu og stýrðu skólum. Þær reistu einnig sjúkrahús og spítala, þar á meðal þá fyrstu hér á landi. Jafnframt stóðu reglusamfélögin fyrir byggingu stærstu kirkjunnar á Íslandi handa kaþólskum, sem þá voru einungis 55 talsins. Það er í dag Dómkirkja Krists konungs sem er yfirfull alla sunnudaga! Auk þess hefur Kaþólska kirkjan á Íslandi nú yfir 17 kirkjum og kapellum að ráða. Þrátt fyrir það þarf hún að byggja eða kaupa ennþá fleiri! Fjöldi kaþólskra á Íslandi hefur nefnilega tvöfaldast á síðustu tíu árum! Hve mikið og dásamlegt verk hafa ekki prestar okkar og reglufólk unnið ásamt virkum leikmönnum til dýrðar Guði og í þjónustu við meðbræður sína! Vissulega hafa einnig verið gerð mistök og syndir drýgðar, en umfram allt hefur mikið gott og uppbyggilegt starf verið unnið! Guði sé lof!

Í þjónustu við yfir 11.000 kaþólska á Íslandi eru nú átta prestar og fjörutíu reglusystur og reglubræður. Flest þeirra eru ung og þau eru einnig mjög virk í trúfræðslu og í þjónustu við ungt fólk og stuðla að nýrri uppsveiflu í Kaþólsku kirkjunni á Íslandi.

Kæru bræður og systur, ennfremur hef ég í hyggju að koma á fót klaustri fyrir karlmenn, helst af Benedikts- eða Ágústínusarreglu sem réðu reyndar á miðöldum yfir nokkrum klaustrum á Íslandi. Stórt land með húsakosti og upphitaðri kirkju er þegar fundið á Úlfljótsvatni. Nú þarf að finna klaustursamfélag! Ég hef þegar lagt mig mikið fram við að finna munka og vona að draumur minn verði brátt að veruleika, draumur sem einnig margir aðrir, jafnt hérlendis sem erlendis, deila orðið með mér! Við viljum á þessu Ári reglusamfélaga sérstaklega biðja fyrir því og það með tilstyrk heilags Jóhannesar Páls páfa II sem brátt verður tekinn í tölu heilagra. Krossinn sem minnir á hirðisheimsókn hans til Íslands og til Norðurlandanna stendur einmitt þegar á þessu landi! Á þessu ári verða tuttugu og fimm ár liðin frá heimsókninni!

Við þökkum Guði fyrir alla okkar rausnarlegu presta og reglufólk sem og starfandi leikmenn í hinni ungu og vaxandi Kaþólsku kirkju á Íslandi! Því skulum við biðja sérstaklega á þessu ári um margar nýjar kallanir hjá Guðs lýð!

„Verið því fullkomin,“ segir Jesús, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn!“ Amen.

Ykkar Pétur biskup

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014