Hirðisbréf Péturs Bürcher biskups fyrir 2013

 

Nú er Ári trúarinnar 2012-2013, með öllum þess viðburðum lokið!

Skömmu áður en Benedikt XVI., páfi lét af störfum, sagði hann:

„Megi þessir dagar þannig verða að trúarhátíð og hjálpa til þess að uppgötva aftur trú Kirkjunnar í fegurð sinni og ferskleika; tileinka sér hana sífellt nánar á nýjan leik, svo og boða hana inn í nýja tíma.“

Meðan á þessu ári stóð var ýmislegt gert, bæði í heimskirkjunni og hér í biskupsdæminu, en hér er ekki staður til að telja það allt upp. Í upphafi spurðum við okkur sjálf: „Hvaða þýðingu hefur þetta ár fyrir hvert og eitt okkar persónulega, hvað viljum við gera í lífi okkar og hverju breyta á þessu ári?“

Mitt persónulega svar var: „Ég þarf að verða betri kristinn maður til þess að ég verði betri biskup.“ Hjá mér snérist þetta, eins og hjá ykkur öllum, fyrst og fremst um að snúa mér af einlægni til hins lifanda Guðs. Vegna þess að trú mín, og ykkar, á Son hans Jesúm Krist, á að endurnýjast og styrkjast í krafti Heilags Anda, til þess að boða hann og bera út um heim.

Fyrir fimmtíu árum, þann 11. október 1962, setti Jóhannes páfi XXIII. Annað Vatikanþingið. Ár trúarinnar hófst á þeim hátíðisdegi, þann 11. október 2012. Fimmtugasta hátíðarárið var velkomið tilefni og jafnframt hvatning til þess að kynna sér að nýju hina innihaldsríku texta og ákvarðanir þingsins. Mörgu var hrint í framkvæmd, enn meira bíður þess að verða dýpkað eða þarfnast ef til vill breytinga.

Fyrir okkur verður þetta ár sérstaklega ár tveggja páfa: Tveggja páfa, sem styrkja okkur í trúnni með fordæmi sínu! Líf okkar sjálfra, hvort sem er persónulegt, kirkjulegt eða félagslegt, mótast af mörgum atburðum. En hvað stendur eftir og hvernig heldur það áfram? Leiðbeinandi svar má vera að finna í þekktum draumi heilags Don Bosco, þar sem sagði frá mikilli sjóorustu. Í draumi þessum er tákn Kirkjunnar stórt skip, sem fjandsamlegur floti ræðst á og skaðar margsinnis, en bjargast þó hvað eftir annað. Stýrimanni hins stóra skips tekst loks að tryggja skipið örugglega við akkeri milli tveggja súlna, sem risu upp í miðju hafinu.

Á fyrri súlunni var stór hostía, þar sem á var letrað: „Heill hinum trúuðu“; á hinni, sem var nokkru minni, var mynd konu og þar stóð: „Hjálp hinna kristnu“.

Súlurnar tvær tákna heilagt altarissakramenti svo og meyjuna og móður Guðs Maríu, sem getin var án erfðasyndar. Ásamt páfanum eru þetta þrjár meginstoðir í lífi kaþólsks manns, sem fylgir Kristi, frelsaranum og Kristi konungi okkar.

Það mikilvægasta er, sem sagt, eins og segir í Trúfræðslubók Kaþólsku kirkjunnar: „Altarissakramentið er uppsprettulind og meginatriði alls hins kristna lífs“(LG 11). „Hin sakramentin tengjast altarissakramentinu og beinast að því; hið sama á við um þjónustu kirkjunnar og postullega starfsemi. Heilagt altarissakramenti inniheldur frelsandi verðmæti Kirkjunnar að fullu leyti, Krist sjálfan, páskalamb vort.“(PO 5) 1324. „Hugsunarháttur vor er samsamaður altarissakramentinu og altarissakramentið staðfestir aftur á móti hugsunarhátt vorn“(Ireneus, hæer. 4,18.5)

Kæru bræður og systur, að loknu þessu Ári trúarinnar höldum við hugrökk áfram í vongleði og kærleika. Við skulum, sérstaklega í heilagri Messu, tengjast í bæn, og biðja með Frans, páfa:

„Drottinn, ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“ María, okkar himneska móðir, mun daglega fylgja okkur á veginum.