Hirðisbréf Péturs Bürcher biskups fyrir 2012

Kæru bræður og systur,

Þann 6. janúar 2012, á stórhátíð birtingar Drottins, sendi Stjórnardeild trúarkenninga í Róm gervallri kirkjunni athyglisverða orðsendingu með ráðleggingum um hirðisstarfið á Ári trúarinnar. Þetta snertir einnig okkur hér á landi.

„Í postullegu skrifi sínu Porta fidei frá 11. október 2011 kunngerði hinn heilagi faðir Benedikt XVI Ár trúarinnar, sem hefjast skyldi 11. október 2012, á hálfrar aldar afmæli opnunar annars samkirkjulega Vatíkanþingsins, og standa til 24. nóvember 2013, stórhátíðar Krists konungs. Á þessu ári býðst öllum trúuðum gott tækifæri til að skilja enn betur að grundvöllur kristinnar trúar felst í því að „ganga til móts við atburð, persónu sem veitir lífi okkar nýjan sjóndeildarhring og beinir því þar með á ákveðna braut.“ Á grunni þessa fundar með hinum upprisna Jesú Kristi getum við enduruppgötvað trúna í allri sinni fyllingu og útgeislun. „Einnig á okkar tímum er trúin gjöf sem ber að enduruppgötva, rækta og boða,“ svo að „Drottinn gefi sérhverju okkur að lifa fegurð og gleði hins kristna manns.“

Upphaf Árs trúarinnar fellur saman við gleðilega endurminningu tveggja merkisatburða sem hafa einkennt ásýnd kirkjunnar á okkar tímum: hálfrar aldar afmæli opnunar annars Vatíkanþingsins, sem hinn sæli Jóhannes XXIII kallaði saman (11. október 1962) og tuttugu ára afmæli útgáfu Trúfræðslurits kaþólsku kirkjunnar, sem hinn sæli Jóhannes Páll II gaf kirkjunni (11. október 1992). Á næsta fundi biskupasýnódunnar í október 2012 verður fjallað um efnið: Ný boðun fagnaðarerindis kristinnar trúar.

Ár trúarinnar mun stuðla að nýju afturhvarfi til Drottins Jesú og til enduruppgötvunar á trúnni, svo að allir meðlimir kirkjunnar verði glöð og trúverðug vitni hins upprisna Drottins í heimi nútímans og geti vísað hinum fjölmörgu á „dyr trúarinnar“ sem hennar leita. Þessar „dyr“ beina sjónum manna til Jesú Krists, sem er með okkur „alla daga allt til enda veraldar“ (Mt 28, 20). Hann sýnir okkur hvernig við lærum þá „list að lifa lífinu“ í „nánari tengslum“ við hann. „Með kærleika sínum dregur Jesús Kristur allar kynslóðir manna til sín: Hann kallar kirkjuna saman á öllum tímum og treystir henni fyrir boðun fagnaðarerindisins með sífellt nýju umboði. Þess vegna er endurboðun fagnaðarerindisins af sannfæringu hjá kirkjunni nauðsynleg til að menn uppgötvi gleði trúarinnar og uppgötvi á ný þann eldmóð sem fylgir boðun trúarinnar.“

„Ég veit á hvern ég trúi“ (2 Tím 1, 12); þessi orð heilags Páls postula hjálpa okkur við að skilja: „Trúin er persónuleg fylgispekt mannsins við Guð og jafnframt, óaðskiljanlega, frjálst samþykki við öllum hinum opinberaða sannleika Guðs.“

Á Ári trúarinnar „býðst enn fremur gott tækifæri til að styrkja framkvæmd trúarinnar í helgisiðunum, einkum evkaristíunni.“ Í sjálfri evkaristíunni, leyndardómi trúarinnar og uppsprettu endurboðunar fagnaðarerindisins, er trú kirkjunnar boðuð, tignuð og styrkt. Öllum trúuðum er boðið að taka þátt í evkaristíunni á meðvitaðan, öflugan og frjósaman hátt svo að þeir geti verið raunverulegir boðberar Drottins.

Trúin er hvorttveggja í senn, persónuleg og sameiginleg athöfn: Hún er gjöf Guðs sem við lifum í hinu stóra samfélagi kirkjunnar og koma verður á framfæri við heiminn. Sérhvert frumkvæði á Ári trúarinnar mun stuðla að gleðilegri enduruppgötvun og endurnýjuðum vitnisburði trúarinnar. Þær ráðleggingar sem hér eru gefnar hafa það að markmiði að styrkja framlag allra meðlima kirkjunnar, svo að þetta ár bjóði stórkostlegt tækifæri til að deila því með öðrum sem er dýrmætast hverjum kristnum manni: Jesú Kristi, endurlausnara mannsins, konungi alheimsins, „höfundar og fullkomnara trúarinnar“ (Hebr 12, 2).

Kæru bræður og systur. Megi þessar ráðleggingar hjálpa okkur til styrkari og gleðilegri trúar á Jesú Krist! Já, Drottinn, ég trúi en styrk þú trú mína! Amen.

+ Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup