Hirðisbréf Péturs Bürcher biskups fyrir 2011

 

Kæru bræður og systur,

Mér finnst styttan af Kristi í dómkirkjunni okkar í Reykjavík sífellt fegurri. Hún er ægifögur! Hvað segir hún okkur?

Píus páfi XI gaf til kirkjunnar nokkra fágæta muni og er tvo þeirra að sjá í kirkjunni. Yfir háaltarinu er stytta af Kristi, þar sem hann stendur á jarðarkringlunni. Þetta er frummyndin og er hún skorin út í sedrusvið. Ekki eru fleiri eintök til í heiminum, því listamaðurinn, Gampanya frá Barcelona, bannaði að eftirmynd yrði gerð af henni.

Þessi gjöf páfa er okkur öllum til heiðurs. Í Reykjavík er nyrsta dómkirkja í kaþólsku biskupsdæmi í heiminum. Páfi er því greinilega áhugasamur um það sem gerist innan allra landamæri heimsins, allt til ystu norðurslóða. Því á honum mæðir „áhyggjan fyrir öllum söfnuðinum“ (sjá 2Kor 11, 28). Án sambandsins við páfa er í sannleika sagt ekki til nein kaþólsk kirkja. Það sýna kannski einnig tveir litir styttu okkar af Kristi konungi, hvítur og gulur, sem eru einnig litir Vatíkansins. Við bætist svo silfurliturinn. Þegar við minnumst áliðnaðarins í landinu þá gæti þessi litur styttunnar af Kristi konungi ef til vill vísað til þess að hún er íslensk. Því sérhver gleði og áhyggja þjóðarinnar er einnig kirkjunnar. Þetta segir annað Vatíkanþingið: „Gleði og von, sorg og angist manna á okkar tímum, einkum fátækra og kúgaðra í öllum aðstæðum er einnig gleði og von, sorg og angist lærisveina Krists. Og ekkert mannlegt er í raun til sem ekki endurómar í hjörtum þeirra“ (Gaudium et Spes 1).

Kristur stendur þar og ríkir yfir hnettinum. Þess vegna er í vinstri hendi hans veldissproti konungs alheimsins. Hægri hönd Krists er alveg útrétt og blessar allan heiminn. Er það ekki dásamlegt? Þessi blessun er handa öllum þeim sem hafa góðan vilja. „Dýrð sé Guði í upphæðum, syngja englarnir, og friður með þeim mönnum sem hafa góðan vilja!“ Friðurinn nú á tímum er mjög mikilvægur, hvort heldur í heimahúsum eða í heiminum öllum. Við minnumst á þessum dögum allra fórnarlamba ofbeldis, einkum í Miðausturlöndum, en einnig öðrum löndum þar sem margir hafa verið drepnir. Slíkt er hræðilegt og má aldrei gerast, allra síst í kirkju! Allir verða að virða hönd Guðs. Kristur vill vera konungur okkar allra, hverrar trúar sem við kunnum að vera.

Það sem einnig hefur áhrif á mig þegar ég virði fyrir mér hina ægifögru styttu Krists konungs er kórónan. Þetta er ekki venjuleg kóróna eins og hjá flestum konungum. Hér ber Kristur kórónu sem líkist þyrnikórónu. Í guðspjöllunum (Matteus 27, 29, Markús 15, 17 og Jóhannes 19, 2) er greint frá því að rómversku hermennirnir settu þyrnikórónu á Jesú frá Nasaret. Hermennirnir fengu honum reyrsprota sem veldissprota og klæddu hann í purpurarauða kápu og fengu honum þannig til háðungar „konungleg“ tákn meðan þeir misþyrmdu honum og spottuðu hann. Allt þetta leið Jesús fyrir okkur synduga menn af mesta kærleika. Því hann er konungur sem gefur okkur kærleika sinn og jafnvel lífið allt. Þyrnikóróna Krists er hins vegar fögur af því að hún vísar til dýrðar Drottins. Við játum það ásamt allri kirkjunni í trúarjátningunni að hann mun koma aftur í dýrð. „Sá Kristur, sem dó og reis upp fyrir alla, gefur manninum ljós og kraft fyrir anda sinn, svo að hann geti fylgt sinni æðstu köllun; mönnum er ekki gefið neitt annað nafn undir himninum sem gæti frelsað þá“ (Gaudium et Spes 10).

Styttan okkar er ekki óhreyfanleg. Hún er full af hreyfingu. Frá því að helgisiðirnir voru endurnýjaðir er hátíð Krists konungs haldin í lok kirkjuársins. Með því er lögð áhersla á að markmiðið er hinn upphafni Drottinn sem pílagrímarnir, þjóð hans, er á leiðinni til. Er ég, erum við á leið til hans? Hinn árlegi föstutími er alvarlegt boð til okkar um að snúa okkur til Krists. Í orðum ræningjanna tveggja, sem voru krossfestir með Kristi, speglast í raun myndirnar tvær af konungdæminu: Meðan annar þeirra hæðir hann sem konung eða Messías sem getur ekki bjargað sjálfum sér, sér hinn í vanmætti hins krossfesta hið sanna konungsvald og felur sig miskunn hans á vald.

Kæru bræður og systur, virðumst við kristið fólk í heiminum ekki enn veikburða, og lítt sannfærandi? Og hið illa sýnist alltaf hafa yfirhöndina. Við þörfnumst trúarsjónar ræningjans sem krossfestur var til þess að sjá í hinum krossfesta það konungdæmi Krists sem á að þroskast í daglegu lífi okkar og verða að raunverulegum kærleika.

Við trúum á hæddan konung, konung með þyrnikórónu, konung á krossi, svo fáránlegt sem það kann að virðast mörgum mönnum. Við tignum hann vegna þess að í vanmætti hans á krossinum birtist annar máttur: máttur kærleika Krists, hins óendanlega kærleika  sem er ægifagur líkt og styttan í dómkirkjunni okkar hér á norðurslóðum. Konungur okkar og Drottinn bíður okkar allra. Við skulum ekki óttast það að koma til hans, full kærleika til hans og jafnframt meðsystkina okkar.  Amen.