Hirðisskrif biskupa Norðurlandanna

Fjölskylduráðstefna í Jönköping 14.-16. maí 2010

 

Fjölskyldan á sér sinn sérstaka sess í boðskap kirkjunnar. Annarsvegar gegnir kirkjan því hlutverki að styðja við og vernda fjölskylduna og hinsvegar lítur hún á fjölskylduna sem mikilvægan farveg til útbreiðslu trúarinnar og uppbyggingar félagslífs í kirkjunni. Þó að hlutverk og samsetning fjölskyldunnar hafi breyst í gegnum tíðina, er upphaf hennar og kjarni ávallt sameining karls og konu, eins og hjónabandið ber vitni um. Samruni karls og konu í ást er eftirmynd samruna hins þríeina Guðs. Hann lét þau, í allri sinni erfðafræðilegu fjölbreytni, mynda samruna og bauð þeim að vera frjósöm og margfaldast. (sbr. Gen. 1,28)

Þetta hlutverk uppfylla hjón þegar þau í gagnkvæmri ást geta af sér nýtt líf og gerast þannig samverkamenn Guðs í sköpuninni.

Sú öra breyting sem orðið hefur á lífsstíl og sjálfsímynd mannsins, ásamt frjálsu aðgengi að getnaðarvörnum, hefur breytt afstöðu til hjónabands og fjölskyldu. Oft er ekki litið á kynlíf manna né það iðkað sem vitnisburður um gagnkvæma ást og einlægni milli hjóna. Einnig eru bornar brigður á ásköpun kynlífs sem tilvísun til getnaðar nýs lífs eða því alfarið afneitað.

Þetta vandamál eygði Páll Páfi VI þegar fyrir meir en 40 árum og tók það til umfjöllunar í páfabréfi sínu „Humanæ Vitæ“ 25. júlí 1968. Skrif hans og afstaða kallaði á miklar umræður við útgáfu þess, og hefur í tímanna rás leitt til mismunandi skilnings á kynhegðun manna, kristinni siðfræði og kennivaldi kirkjunnar.

Umræður þær sem páfabréfið vakti – sér í lagi hvað snertir virðingu fyrir mannlegu lífi, persónuvernd einstaklingsins og ekki síst einskorðun ástarlífs innan hjónabands –  eru enn þann dag í dag ofarlega á baugi. Einstaklingshyggja mörkuð af hugmyndafræðilegri frjálshyggju er ein hreyfing sem leitt hefur til ákafrar gagnrýni á páfabréfið. En þrátt fyrir almennan framgang frjálshyggju í kynferðismálum, hefur hún ekki stuðlað að aukinni hamingju manna né sterkari samböndum í hjónabandi.

Á hinn bóginn hefur ný þekking á kynlífi manna gert mögulegt að hagnýta náttúrulega aðferð við skipulag fjölskyldu, eins og mælt er með í páfabréfinu, nefnilega að gefa gaum að eðlilegum tíðahring konunnar. Á þennan hátt taka bæði hjónin fulla ábyrgð á þeirri kynhegðun sem þeim er falin.

Biskupar Norðurlanda endurnýja stuðning sinn við boðskap „Humanæ Vitæ“ og stuðla einnig að frekari útbreiðslu þess, í samræmi við ummæli Benedikts XVI páfa í ávarpi sem haldið var í tilefni af 40. afmæli útgáfu páfabréfsins. En þar segir: „Kennivald kirkjunnar getur ekki látið hjá líða að taka til íhugunar með sífellt nýjum og dýpri skilningi grunnatriði hjónabandslögmálsins og getnaðarmátt mannsins. Það sem satt var í gær hefur einnig reynst satt í dag.“

Kenning kirkjunnar, eins og hún birtist í boðskap „Humanæ Vitæ“, hugnast mörgum ekki og kann oft að virðast, undir persónulegum kringumstæðum, erfið í framkvæmd. En innsti kjarni hennar og grundvallarboðskapur er þó og verður ávallt sannleikurinn um ábyrga ást í hjónabandi. Til þess að skilja hann í allri sinni dýpt þurfa sérstaklega bæði unga fólkið og hjón hvatningu og stuðning hjá ábyrgum sálusorgurum. Þeirra hlutverk er annarsvegar að leiða viðkomandi í allan sannleikann og hins vegar að aðstoða af ósérhlífni samhjálp það fólk sem tekur þessari  áskorun.

Kynferðisleg misnotkun sú, sem eins og kunnugt er, hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum af völdum presta og samverkamanna innan kirkjunnar – einnig í okkar biskupsdæmi – hefur vakið mikinn óhug í kirkjunni. Í þeim tilvikum hafa umboðsmenn kirkjunnar vegið illa að ungu saklausu fólki. Þessi afbrot vega þeim mun þyngra, þar sem þau hafa einnig stórskaðað og skert  trúnaðartraust og verndarþörf manna sem lögðu hald sitt og traust á sálusorgara og þar með kirkjuna.

Samúð okkar beinist því fyrst og fremst að þeim sem vegna árásar á líkama og sál, urðu fyrir stórskaða og við biðjum í nafni kirkjunnar um fyrirgefningu. Okkur er ljóst að hinir trúuðu, prestar og sálusorgarar líða fyrir þessi sár, sem leidd hafa verið í ljós, og deila með okkur skömminni og skelfingunni. Margir spyrja nú með réttu, hvernig kirkjan geti varið sína siðfræðilegu stöðu varðandi kynhegðun í ljósi þeirra aðstæðna sem nú blasa við. En enn sem fyrr er það hlutverk kirkjunnar a boða sannleikann – einmitt nú, þegar hún sjálf hefur formyrkvast vegna synda innan eigin raða.

Páfabréfið „Humanæ Vitæ“ styður málstað virðingar fyrir sérhverju mannslífi og fyrir virðuleika og sóma sérhvers einstaklings.

Líf kviknar við getnað og frá þeim tímapunkti til eðlilegra loka við dauða mannsins er okkur skylt að vernda það líf fyrir misnotkun, valdbeitingu og niðurlægingu. Til þess að vekja samvisku allra til meðvitundar um það höldum við ávallt hátíðlegan á ári hverju  „Dag lífsins“ í öllum biskupsdæmum Norðurlandanna.

Slíkur „Dagur lífsins“ hefur þegar verið innleiddur í Svíþjóð og einmitt á þriðja sunnudegi í aðventu. Það er hugheil ósk okkar að þessi sunnudagur – sem markast innan undirbúningsdaga fyrir fæðingu Krists – verði haldinn hátíðlegur í öllum okkar biskupsdæmum sem dagur þakklætis fyrir lífið sjálft. Þess ber einnig að minnast að þakklætið fyrir gjöf lífsins er einnig og ávallt samtvinnað áskorun um að verja þetta líf og þá virðingu sem því ber að sýna á hvaða stigi lífsins sem er, og að meta um leið að verðleikum og vernda í einlægni líf lítilmagnans og hinna varnarlausu í orði og verki.

Með páfabréfi sínu „Humanæ Vitæ“, steig Páll VI páfi fram til varnar ást og virðingu lífsins og nýverið hefur Benedikt XVI páfi einnig áminnt og lagt áherslu á mikilvægi boðskapar þess og framkvæmd. Við, biskupar Norðurlanda, tökum undir þessi orð páfa og mælumst til þess að allir trúaðir lesi þennan boðskap með opnum huga og fordómalaust.

Megi blessun Guðs vera með ykkur öllum!

Biskupar ykkar á Norðurlöndum

+Anders Arborelius OCD Stokkhólmsbiskup

+Czeslaw Kozon Kaupmannahafnarbiskup

+Bernt Eidsvig Can.Reg. Oslóarbiskup, Stjórnandi í Þrándheimi

+Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup

+Teemu Sippo SCJ  Helsinkibiskup

Biskup og preláti Berislav Grgic Umdæmið Tromsø

+Gerhard Schwenzer SS.CC. (Oslóarbiskup emeritus)