Hirðisbréf Norðurlandabiskupa um trúfræðslu fullorðinna og upptöku í óskert samfélag kaþólsku kirkjunnar

„Og hvar á svo að ganga inn?“ – Ef einhver verður að spyrja svo hlýtur arkitektinn að hafa gert mistök. Dyrnar hljóta að vera öllum augljósar og aðlaðandi – nema menn vilji helst ekki fá óboðna gesti.

Hvað getum við í þessu samhengi sagt um dyrnar að húsi kirkjunnar – að samfélagi hinna trúuðu? Eru þessar dyr öllum augljósar? Eða verða menn einnig að spyrjast fyrir þegar kemur að þessu atriði? Áratugum og öldum saman var svarið auðvelt: Menn verða kristnir í skírninni og eru þá teknir upp í samfélag hinna trúuðu, kirkjuna.

„Trúin er persónulegur fundur með Jesú Kristi þegar viðkomandi verður lærisveinn hans. Þetta krefst stöðugrar viðleitni til umhugsunar í anda hans, til dóma í anda hans, til að lifa eins og hann...“ Heilagur Kyprían frá Karþagó var eitt sinn spurður: „Hvað myndir þú gera til þess að sannfæra einhvern um kristnina?“ Hann svaraði: „Ég læt hann búa hjá mér í eitt ár.“

Hvernig er háttað stöðu þeirra sem fullorðnir eru og sýna áhuga á kristinni og kaþólskri trú og æskja inngöngu í kirkjuna og vilja með öðrum orðum ganga inn í hús kirkjunnar? Sumir Norðurlandabúar spyrja sig oft þessarar spurningar. Sakir breytinga í kirkju og samfélagi eru ekki öll börn skírð í frumbernsku vegna þess til að mynda að foreldrar þeirra vilja láta þeim sjálfum eftir að taka ákvörðun um trú sína eða foreldrarnir sjálfir hafa gengið úr kirkjunni. Í löndum okkar er þar að auki vaxandi fjöldi þeirra sem skipta vilja um trú, með öðrum orðum fólk úr öðrum trúarsamfélögum og kirkjum sem vilja ganga í kaþólsku kirkjuna.

Handa þessu fólki, sem vill leita inngöngu í hús kirkjunnar á fullorðinsaldri, hefur annað Vatíkanþingið endurvakið leið, sem þó hefur verið fær næstum því frá upphafi, fullorðinsfræðsluna. Reyndar voru Helgisiðir fyrir inntöku fullorðinna í kristna trú frá 1972 fyrst og fremst hugsaðir fyrir hinar svokölluðu „ungu kirkjur“ í Afríku og Rómönsku Ameríku, svo að í Evrópu hefur „einstaklingskennsla“ hjá prestinum verið eini möguleikinn til undirbúnings skírninni, oft fram á þennan dag. Á það verður þó að benda að trúfræðsla fullorðinna, einkum hjá okkur á Norðurlöndum, býður upp á einstaka möguleika til boðunar fagnaðarerindisins – hvort heldur hjá leitandi einstaklingum eða söfnuðunum.

Trúfræðslan er ekki dyrnar að húsi kirkjunnar, heldur leið – leið sem ætti að ganga á nokkrum tíma – samkvæmt reynslunni að minnsta kosti á einu ári. Hvers vegna? Skilyrði þess að taka kristna trú er ævinlega að verða kristinn, með öðrum orðum: sú ákvörðun að setja sig og líf sitt undir stjórn Jesú Krists þarf að þroskast.

Því vera kann að menn fái áhuga á kristindómi og einkum og sér í lagi á kaþólsku kirkjunni eftir reynslu af og þátttöku í einhverri stórhátíð kirkjuársins. Þeim finnst helgisiðirnir og samfélagið heillandi. Aðrir hafa orðið fyrir reynslu af Guði og það verður þá kveikjan að frekari leit þeirra og þrá. Þetta eru góðar og gegnar ástæður en nægja þó ekki til þess að taka ákvörðun. Auk alls þessa verða menn að gera sér fulla grein fyrir eigin hugsjónum sínum og gildum, og hugmyndum sínum og óskum um lífið. Sambandið við og Jesú Krist verður að fá að vaxa og dafna og menn verða að standast prófið og öðlast dýpri skilning.

Fullorðinsfræðslan býður því upp á nokkur þrep á leiðinni til meðtöku kristinnar trúar og þau eru haldin hátíðleg samkvæmt hefðinni. Samleikur helgisiða og trúfræðslu leiðir til þess að viðkomandi sameinast kirkjunni á lifandi og varanlegan hátt. Til að mynda eru væntanlegir skírnarþegar spurðir þegar þeir eru teknir hátíðlega í hóp trúnema: „Hvers biður þú kirkjuna?“ Enginn getur svarað þessari spurningu nema hann hafi á undan þessari ákvörðun þroskast hið innra og gert sér grein fyrir aðstæðum. Eftir því sem á fræðsluna líður er trúneminn fræddur um kristna kenningu, hann tekur þátt í hátíðum kirkjuársins og skynjar atburði hversdagslífsins með hliðsjón af fagnaðarerindinu og túlkar þá og skilur í ljósi hans. Til þess þarf hann auðvitað hjálp. Því enginn getur orðið og verið kristinn maður einn og sér. Trúfræðsla fullorðinna er því leiðin inn í hús kirkjunnar og þá leið ganga menn í samfélagi við aðra. Þetta samfélag birtist í hópi trúnema (sem kirkja í smáum stíl). Þessu samfélagi tilheyra, auk væntanlegra skírnarþega eða þeirra sem skipta vilja um trú, einnig meðlimir safnaðarins, presturinn og skírnarvottarnir sem eru nánir fylgdarmenn umsækjandans. Einnig hér auðvelda þrep og hátíðahöld fullorðinstrúfræðslunnar mönnum að feta þessa leið. Til að mynda er skírnarumsækjanda í einni athöfninni afhent Faðirvorið sem hann getur síðan beðið ásamt söfnuðinum. Með þessum hætti sameinast skírnarumsækjandi safnaðarstarfinu skref fyrir skref og verður ljóst að sá sem vill vera kristinn maður verður einnig að axla ábyrgð í safnaðarlífinu og leggja fram krafta sína og hæfileika til að lífga og styrkja söfnuðinn.

Hátíðahöld á leiðinni til kristinnar trúar í skírn, fermingu og meðtöku altarissakramentisins eru hápunktur fullorðinsfræðslunnar.

Fullorðinsfræðslan er samt ekki aðeins góð leið fyrir skírnarumsækjandann, eða þann sem vill skipta um trú, til inngöngu í hús kirkjunnar heldur veitir hún viðeigandi söfnuði einnig mikil tækifæri. Hver sá sem eitt sinn hefur orðið vitni að því að skírnarumsækjandi hafi gengið fram fyrir söfnuðinn og æskt skírnar og inngöngu í samfélag kirkjunnar, spyr skyndilega sjálfan sig spurninga varðandi eigin skírn, eigin aðild að kirkjunni og eigin trú. Af þessu sjáum við að kirkjan hefur ekki aðeins boðunarhlutverk, hún er boðun og getur ekki afsalað sér boðunarstarfi sínu. Fullorðinstrúfræðslan gerir mönnum grein fyrir þessu boðunarhlutverki sem öllum kristnum mönnum er gefið: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar“ (Mt 28, 18-20). Af þessu verður ljóst: Ef menn koma til okkar og spyrja: „Hvar eru dyrnar hjá ykkur?“, þá nægir ekki að vísa þeim til prestsins eða einhvers annars sem aðstoðar við hirðisstarfið. Þörf er á fólki til viðbótar úr söfnuðinum sem býður hinn nýkomna hjartanlega velkominn og er reiðubúið til að deila sinni eigin trú með honum. Þeir munu þá sjálfir finna að þeir hafa styrkt sína eigin trú um leið og þeir endurnýja eigin skírn.

Framkvæmd fullorðinsfræðslunnar með öllum sínum hátíðahöldum og siðum stuðlar einnig að endurlífgun tákna og helgisiða sakramentanna. Okkar kaþólsku helgisiðir eru einkum ríkir að táknum og framkvæmd. Sjálfsagðar venjur bjóða þeirri hættu heim að tilgangur og skilningur á þessum helgu athöfnum raskist. Leiðsögn skírnarumsækjanda eða þess sem skiptir um trú getur orðið að fræðslu alls safnaðarins og þá geta góðir og gegnir kaþólskir menn einnig endurnýjað kynni sín af auðævum helgisiðanna og nærst af þeim.

Á Norðurlöndum er fullorðinsfræðsla veitt í örfáum söfnuðum. Gerum okkur í hugarlund að sífellt fleiri söfnuðir hér á Norðurlöndum stofnuðu til fullorðinstrúfræðslu og fleiri og fleiri skírnarumsækjendur gengju þessa leið, sem við höfum gert hér að umtalsefni, til kirkjunnar. Hvað gæti breyst við það í söfnuðum okkar? Þá myndu skapast nýir hópar og safnaðarfólk fengi tækifæri til að endurnýja samband sitt við eigin trú og hinir nýskírðu myndu, knúnir af Heilögum anda, taka virkan þátt í safnaðarstarfinu, til að mynda sem trúfræðendur, lesarar o.s.frv. Samábyrgðin færi vaxandi, safnaðarfólk bæri raunverulega ábyrgð á leiðsögn hinna leitandi og verðandi skírnarþega. Meðvitundin um boðunarhlutverk safnaðarins og kirkjunnar allrar myndi aukast og samhengið milli trúar og lífs kæmi betur í ljós. Söfnuðirnir öðluðust meiri útgeislun – og löðuðu þar með til sín nýja umsækjendur. Á þennan hátt gæti upptaka fullorðinstrúfræðslunnar stuðlað að endurnýjun alls safnaðarins.

Við biskupar viljum því hvetja alla trúaða, presta og safnaðarráð til að taka upp viðræður og íhuga hvort og að hve miklu leyti sé unnt að koma á fullorðinstrúfræðslu í fleiri söfnuðum. Við viljum hvetja til og stuðla að því – ef til vill skref fyrir skref – að innleidd verði mismunandi þrep og siðir trúfræðslu fullorðinna til undirbúnings skírn eða upptöku í fullt samfélag kaþólsku kirkjunnar.

Á komandi föstutíð óskum við ykkur Guðs blessunar.

+Anders Arborelius OCD Stokkhólmsbiskup

+Czeslaw Kozon Kaupmannahafnarbiskup

+Bernt Eidsvig Can.Reg. Oslóarbiskup, Stjórnandi í Þrándheimi

+Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup

+Teemu Sippo SCJ  Helsinkibiskup

Biskup og preláti Berislav Grgic Umdæmið Tromsø

+Gerhard Schwenzer SS.CC. (Oslóarbiskup emeritus)