Hirðisbréf Péturs Bürcher biskups fyrir 2009

 

Kæru bræður og systur.

„Aldrei áður höfum við þvílíkt séð“ (Mrk 2, 12).

Þið vitið að frá 29. júní 2008 hafa í gervallri kaþólsku kirkjunni verið haldnir fjölmargir fyrirlestrar, ráðstefnur og litúrgískar hátíðir. Allt er það gert til að minnast fæðingar Páls postula fyrir 2000 árum en hann var mesti trúboði allra tíma. Benedikt páfi XVI stofnaði þetta hátíðarár Páls og því lýkur 29. júní á þessu ári. Því höfum við ákveðið, ásamt allri kirkjunni, að heiðra einnig minningu Páls postula hér í Reykjavíkurbiskupsdæmi á árinu og kynnast honum betur. Líf hans og starf mun þá einnig geta borðið meiri ávöxt hér á landi. Í guðspjalli dagsins standa þessi orð sem við höfum nú heyrt: „Aldrei áður höfum við þvílíkt séð“ (Mrk 2, 12), og þau gætum við einnig haft um Pál postula. Fyrst var Sál óvæginn ofsækjandi kristinna manna „Ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli með því að ég ofsótti söfnuð Guðs“ (1Kor 15, 9). En þá komu hin undraverðu sinnaskipti hans á leiðinni til Damaskus. Og hann hlaut köllun sem postuli heiðingjanna.

Hver er hann svo í raun, þessi Páll? Við heyrum alltaf eitthvað frá honum á næstum hverjum sunnudegi. Hvers vegna skyldi Benedikt páfi XVI hafa tileinkað honum þetta sérstaka ár? Þetta ár og hátíðir þess styðjast við þá hefðbundnu tilgátu að Páll hafi fæðst um árið átta eftir Krists burð. En það er aðeins tilgáta. Þó getum við sagt að Páll hafi verið um það bil jafnaldri Jesú. Hann fæddist í Tarsus, höfuðborg Kylikíu, og voru foreldrar hans Gyðingar og farísear. Í Postulasögunni er sagt að hann hafi verið rómverskur borgari frá fæðingu. Þess vegna ber hann auk gyðinglega nafnsins Sál einnig rómverska nafnið Páll.

Í bréfum sínum segist Páll hafa unnið fyrir sér sem seglagerðarmaður. Oftast gegndu börn sömu störfum og feður þeirra á þeim tímum. Þess vegna er talið að þetta hafi einnig verið starf föður Páls. Þetta var venjulegt starf alþýðumanns og með því sáu menn fyrir þörfum fjölskyldunnar en naumast nokkuð umfram það. Foreldrar Páls voru Gyðingar sem bjuggu fjarri föðurlandinu, þ.e. þau voru meðal fjölda annarra Gyðinga sem höfðu hrakist langt í burt frá landi sínu af ýmsum ástæðum en einkum þó vegna ofsókna. En þau höfðu þó haldið tryggð við hefðir sínar. Í frumbernsku hafði Páll, líkt og aðrir Gyðingadrengir, verið umskorinn. Hann var alinn upp í fylgispekt við lögmál Móse. En Tarsus var heimsborg. Um leið og Páll gekk út úr húsi foreldra sinna andaði hann að sér hinu hellenska andrúmslofti og hann kynntist fjölmörgum menningarsamfélögum. Hann talaði hebresku og arameísku heima við en grísku annars staðar. Hann ólst því upp með opnum huga, einkum fram að 12 til 13 ára aldri. Þá hélt hann til Jerúsalem og helgaði sig óskiptur námi í lögmáli Gyðinga, Tora, hjá Gamalíel rabbína hinum gamla sem var víðfrægur. Frá þeim tíma beindist áhugi hans allur að lögmáli Gyðinga og menningu Ísraels.

Til er lýsing á útliti Páls eða upplýsingar um Pál sem sífellt eru endurteknar. Sagt er að hann hafi verið smávaxinn, feitlaginn, kiðfættur og sambrýndur, en þó verið engli líkur. Þessi lýsing er hins vegar frá lokum annarrar aldar. Á hefðbundnum helgimyndum er hann sýndur skeggjaður og sköllóttur en það var í samræmi við þá mynd sem menn gerðu sér um heimspekinga á þriðju öld.

Í seinna bréfi sínu til Korintumanna segir Páll að sér sé tregt um mál. Því hafa sumir talið að hann hafi stamað. Í bréfi sínu til Galatamanna segir hann: „Augun hefðuð þér stungið úr yður og gefið mér!“ Því hafa ýmsir álitið að hann hafi verið sjóndapur. Ég tel að þessar yfirlýsingar verði að skoða á myndrænan hátt því við vitum að hann mætti miklum erfiðleikum í lífi sínu: vökum, föstum og kulda; hann varð skipreika þrisvar sinnum og lagði þúsundir kílómetra að baki fótgangandi. Hann var grýttur og Gyðingar börðu hann fimm sinnum og Rómverjar þrisvar. Oft var hann handtekinn og allt þetta sýnir okkur að skapgerð hans hefur verið sérstök. Hann var viljasterkur og átti auðvelt með að laga sig að aðstæðum. Það segir einnig margt um skaplyndi hans að hann ofsótti samfélag kristinna  manna áður en viðburðurinn mikli varð á leiðinni til Damaskus.

Hann vissi að kristnir menn drógu í efa sumt af því sem Gyðingar höfðu í heiðri og þess vegna ofsótti hann þá kröftuglega. Til að mynda mætti líkja honum við talíbana sinnar samtíðar ... Síðan kom Damaskus og breytingin mikla. Eftir það varð hann ákaflega staðfastur, svo mjög að sumum þótti nóg um en hann lagði samt alltaf áherslu á kærleiksríka framkomu. Hann líkti sér við föður en einnig móður. Sálgerð hans er flókin og margbreytileg með afbrigðum. Í bréfi sínu til Rómverja segir hann beinum orðum að menn eigi að taka á móti öllum og sættast við alla, og þeir eigi einnig að taka að sér þá sem hafi aðrar skoðanir. Þetta er svokallaður írenismi, andi gestrisni og gagnkvæmni sem er fyllilega í anda fagnaðarboðskaparins.

Verk heilags Páls postula er nú helst að finna í bréfum hans. Bréf Páls voru skrifuð og þróuðust yfirleitt sakir þess að nauðsynlegt þótti að fullkomna hina munnlegu boðun heilags Páls sem hann hafði að sjálfsögðu flutt í ýmsum kristnum söfnuðum. Í bréfunum er einnig svarað ýmsum spurningum og varpað ljósi á margvíslegar og nýjar aðstæður. Stíllinn er yfirleitt beinskeyttur. Í okkar Biblíu eru bréfin í þessari röð: Rómverjabréf, fyrra og síðara Korintubréf, Galatabréf, bréfið til Efesusmanna, Filippíbréf, Kólossubréf, fyrra og síðara Þessaloníkubréf, fyrra og síðara Tímóteusarbréf og Títusar- og Fílemonsbréf. Frá sögulegu sjónarmiði er röð bréfanna þó önnur.

Kæru bræður og systur, að lokum vildi ég endurtaka það sem segir í guðspjallinu: „Aldrei áður höfum við þvílíkt séð“ (Mrk 2, 12). Hér er samanburður sem gæti hjálpað okkur öllum á Íslandi á þessum tímum: við þörfnumst ekki aðeins efnahagslegra endurbóta. Líkt og Páll þörfnumst við einnig náðar Guðs til innra afturhvarfs. Páll var í erfiðri stöðu gagnvart voninni um eilíft líf. Í lok seinna bréfs síns til Korintumanna endurtekur hann bæn frá fyrsta kristna söfnuðinum í Palestínu: „Marana tha! – Kom þú, Drottinn Jesús!“ Okkur leyfist einnig að biðja svo, útskýrði Benedikt páfi XVI. Að vísu kann það að virðast nokkuð erfitt fyrir nútímamanninn að biðja fyrir endalokum heimsins. En okkur leyfist að biðja þannig vegna þess að við biðjum ekki fyrir endalokum heimsins heldur viljum við með þessu biðja fyrir endalokum hins óréttláta heims. Við viljum „að heimurinn breytist í grundvallaratriðum, að réttlæti og friður ríki, án ofbeldis, án hungurs“. Þetta allt geti aðeins gerst fyrir nærveru Krists. „Kom á þinn hátt og endurnýja heim nútímans“, bað hinn heilagi faðir. „Kom einnig í  hjarta okkar. Kom og endurnýja líf okkar! Kom í hjarta okkar svo að við getum sjálf orðið ljós Guðs, nærvera þín.“

Með þessum orðum, sem eiga einkar vel við um þessar mundir hér á landi, lýk ég máli mínu. Ég vona að við kynnumst heilögum Páli postula nokkru betur svo að okkur verði enn auðveldara að fylgja boðskap hans sem útskýrir fagnaðarerindi Jesú Krists. Þetta viljum við gera hér á landi hvert um sig og sameiginlega á þeim erfiðu og þó vonarríku tímum sem nú ríkja. Með hjartans kveðju.

Ykkar Pétur biskup.