Hirðisbréf Péturs Bürcher Reykjavíkurbiskups fyrir 2008

 

Kæru bræður og systur.

Í dag veitist mér sú ánægja að senda öllu kaþólsku fólki á Íslandi mitt fyrsta hirðisbréf. Ég þakka af öllu hjarta prestunum sem lesa það nú fyrir ykkur á þessum sunnudegi fyrir lönguföstu árið 2008.

Margir hafa spurt mig hver hafi verið fyrstu áhrif mín af Íslandi. Og ég hef svarað þannig: Allt hefur verið nýtt fyrir mér, tungumálið, sérkennilegt og síbreytilegt veðurfarið, fegurð náttúrunnar, langar næturnar á þessum árstíma og sérstaklega hjartahlýja fólks með ólíkan bakgrunn og loks kaþólska samfélagið sem er sannarlega bráðlifandi og sívaxandi, því hér voru 156 skírnir og aðeins 16 dauðsföll árið 2007. Það gleður mig að ég er nú orðinn biskupinn ykkar og er hingað kominn til að þjóna ykkur. Ég vona að ég geti, líkt og Jóhannes biskup Gijsen, sem ég vil þakka enn og aftur, sagt það um árin mín á Íslandi að þau hafi verið hin fegurstu í lífi mínu. Mig langar til að þakka ykkur trúfastar bænir ykkar fyrir biskupi ykkar.

Í dag færir guðspjallið okkur einn sinn fegursta kafla, nefnilega sæluboðin: "Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum!" En hvað kynni að geta orðið okkur fagnaðarefni í dag?

Í sérhverri andrá, þrátt fyrir annmarka okkar, reynum við að fara að vilja Guðs. Guð bjó okkur til. Hann skapaði okkur í Jesú Kristi svo að gerðir okkar mættu verða góðar í raun og samræmast því hlutverki sem Guð hefur fyrirbúið okkur og við eigum að fylgja. Við reynum sífellt að bæta okkur svo að okkur miði ekki aftur á bak. Þetta var ásetningur Jóhannesar páfa XXIII í lífi sínu: að sinna þeim störfum sem hann þurfti að vinna á líðandi stundu líkt og hann hefði fæðst einmitt fyrir þetta andartak.

Kæru bræður og systur, vera kann að þið sækið greiðlega fram í lífi ykkar eins og aðrir í umhverfi ykkar. Kannski vinnið þið ykkur inn mikla peninga. Öll þurfum við á peningum að halda en þeir færa ef til vill ekki innri frið og hamingju. En samt sækist sérhvert ykkar eftir sannri hamingju. Reynið að finna hana! En leitið ekki langt yfir skammt! Og ferðist ekki alla leið á heimsenda í leit ykkar. Því ef þið leitið hamingjunnar einhvers staðar langt í burtu, þá gengur hún ykkur sífellt úr greipum.

Og hvar er þá hina sönnu hamingju að finna? Hvar er hún? Hamingjan er auðvitað aðeins fullkomin í Paradís. En á þessari stundu bendir Jesús á sjálfan sig í guðspjalli dagsins: "Sælir eru friðflytjendur .... sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu..." Þetta eru orð hins sama Jesú er sagði í Nasaret: "Andi Drottins er yfir mér." Og þessi andi er sannarlega styrkur, ljós, gleði og friður. Leitið hans því ekki annars staðar: Hann er hið innra með ykkur, í hjarta ykkar.

En þrátt fyrir þetta, enda þótt við látum Guð leiða okkur jafnaðarlega í kærleiksanda sínum, liggur freistarinn í leyni og reynir að afvegaleiða okkur. Því skulum við vera vakandi og reiðubúin  -  og ef nauðsyn krefur  -  taka sinnaskiptum!

Af sjálfsdáðum getum við ekki öðlast sanna hamingju; við þörfnumst Heilags anda og einnig hjálpar annarra manna. Opnum augu okkar og hjörtu fyrir þeim mörgu í umhverfi okkar sem láta leiðast af Guðs anda. Þeir þjóna öðrum og geisla frá sér friði og gleði í trú sinni á Guð. Þeir hafa uppgötvað að Guð er fjársjóðurinn í lífi þeirra og að það er hann sem færir þeim hið raunverulega ríkidæmi. Heilagur Jóhannes Chrysostomus, kallaður gullmunnur á íslensku til forna, sagði er hann ræddi um Pál postula: "Hann var ríkur í kærleika Krists sem var mestur allra hluta í hans augum. Meðan hann átti hann taldi hann sig njóta mestrar blessunar allra manna." Þetta er einnig sú braut sem okkur er ætlað að feta á föstunni sem hefst í þessari viku. Því skulum við fjölmenna til kirkju á öskudag til að hefja saman för okkar þessa leið.

Á síðasta ári bauð Benedikt páfi XVI okkur að ganga þessa leið: "Megi fastan vera sérhverjum kristnum manni endurnýjun reynslu hans af kærleika Guðs sem okkur er gefinn í Kristi, en það er kærleikur sem við verðum í staðinn að "endurgefa" náunga okkar, einkum þeim sem þjáist mest og þarfnast hans. Aðeins á þennan hátt munum við geta tekið fullan þátt í gleði páskanna. Megi María, móðir hins sæla kærleika, leiðbeina okkur á þessu föstuferðalagi okkar, ferðalagi sannra sinnaskipta til kærleika Krists." Á þessu ári býður páfi okkur að láta þennan náðartíma föstunnar einkennast af ölmusugjöfum.

Ég óska þess, kæru bræður og systur, að Heilagur andi taki sér æ stöðugri bólfestu í ykkur. Megið þið uppgötva hann hið innra með ykkur, megið þið uppgötva hann í öðrum! Ég er þess fullviss að við getum smátt og smátt tekið framförum í þessu og hjörtu okkar orðið sífellt reiðubúnari til að elska. "Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu... og náunga þinn eins og sjálfan þig!" Þetta er okkar kristna nafnskírteini, eða ef þið viljið það heldur, kennitala raunverulegrar hamingju. "Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum!"

+ Pétur, biskupinn ykkar.

 

 Mt 5, 12

 Mt 5, 6

 Lk 4, 18

 Hómilía nr. 2 um Pál postula

 Benedikt páfi XVI, Föstuboðskapur 2007, Vatíkaninu, 21. nóvember 2006

 Sjá Benedikt páfi XVI, Föstuboðskapur 2008, Vatíkaninu, 30. október 2007

 Mk 12, 30 - 31 (sbr. 5M 6, 4 - 5; 3M 19, 18)

 Mt 5, 12