Nýr biskup skipaður í Þrándheimi í Noregi

Birt 01.10.19 í Fréttir og tilkynningar

Nýr biskup skipaður í  Þrándheimi í Noregi

„Mikil ábyrgð – en líka forréttindi“ segir Dr. Erik Varden OCSO

ábóti, skipaður biskup í Þrándheimi

Frans páfi hefur skipað 45 ára Norðmann biskup í Þrándheimi í Mið-Noregi, en embættið hafði verið laust í 10 ár

Bernt Ivar Eidsvig Oslóarbiskup, sem stýrði umdæminu sem postullegur stjórnandi meðan biskupsstóllinn var laus, sagði í fyrstu yfirlýsingu sinni: „Við erum mjög ánægð með að Mið-Noregur hefur nú fengið annan yfirhirði. Séra Erik Varden er með trausta guðfræðimenntun og mun sannarlega vera innblástur fyrir trúaða og presta í umdæminu.“ Hann var sérstaklega ánægður með það að tvö Trappistaklaustur hafa verið stofnuð í Umdæminu – fyrir Sistersíensa-nunnur á eyjunni Tautra og Trappista í Munkeby – sem með séra Erik Varden „eignast ekki aðeins biskup, heldur bróður“.

Dr. Erik Varden ábóti fæddist árið 1974 í Noregi, stundaði nám og lauk doktorsprófi í Cambridge og París og að loknu námi árið 2002 gekk hann í Abbey of Mount Saint Bernard í Leicestershire, Englandi. Eftir að hann vann heit sín árið 2007 lauk hann licentiats-námi í patristískri guðfræði við Pontifical Oriental Institute frá 2009 til 2011, var skipaður yfirmaður árið 2013 í klaustri sínu og kjörinn ábóti þess í apríl 2015.

Í fyrstu yfirlýsingu sinni lýsir hinn nýskipaði biskup verkefni sínu á eftirfarandi hátt: „Í heimi og á tímum sem einkennist í auknum mæli af afskiptaleysi og tortryggni, vonleysi og sundrungu, er það verkefni okkar að gera annan málstað að okkar: Að benda á ljósið, sem ekkert myrkur fær sigrað, að næra velvild og sátt, að vinna að samfélagi friðar sem byggir á trausti, að bera því vitni að dauðinn hefur misst brodd sinn, að lífið sé þroskandi og fagurt og göfgi þess friðhelg. Í þessu felst mikil ábyrgð en einnig forréttindi – uppspretta umbreytandi gleði.“

Prelatúran Þrándheimur (á latínu Praelatura Territorialis Trudensis) er kaþólskt kirkjuumdæmi með aðsetur í Þrándheimi. Alls skiptast 15.000 kaþólskir þar í fimm sóknir. Hlutfall þeirra í heildar­íbúafjölda er 2,2%.

Eftir afsögn Georgs Müller biskups árið 2009 var biskupsstóllinn laus og biskupsdæminu stýrði síðan sem postullegur stjórnandi Bernt Ivar Eidsvig Oslóarbiskup. Árið 2016 var hin nýreista Dómkirkja Ólafs helga vígð í miðborg Þrándheims.

Sjá nánar á vef Kaþólsku kirkjunnar í Noregi