Biskupsráð Norðurlandanna í Paderborn

Birt 12.03.20 í Fréttir og tilkynningar

Biskupsráð Norðurlandanna í Paderborn

Heimsókn í æskulýðsmiðstöð Hardehausen og Corvey-klaustrið

Í tilefni af vorþingi Norræna biskuparáðsins hittust biskupar Norðurlandanna nýverið í borginni Paderborn í Þýskalandi. Þessa daga kynntu þeir sér einnig ýmsar kaþólskar stofnanir á svæðinu. Þeir heimsóttu meðal annars æskulýðsmiðstöðina í Hardehausen ásamt leiðbeinendum á starfsnámsbraut Bonifatiuswerk. Æskulýðsmiðstöð erkibiskupsdæmisins í Paderborn hefur verið til húsa í fyrrum byggingum Sistersíanaklaustursins frá árinu 1945.

Yfirmaður miðstöðvarinnar og æskulýðsprestur biskupsdæmisins, Stephan Schröder, var ánægður með heimsóknina: „Okkur er sýndur mikill heiður. Það er gaman að sýna biskupunum hvernig æskulýðsstarf og sálgæsla ungmenna er skipulögð í Paderborn-biskupsdæmi.“ Það er ekki alltaf hægt að sjá með beinum hætti hvaða ávöxt störf okkar bera en séra Schröder er sannfærður um að ungt fólk öðlist nýja sýn og verði reiðubúnara að taka á móti Guði.

Starfsnám Bonifatiuswerks er afar áþreifanlegt tækifæri, sagði aðalritari Bonifatiuswerks, Monsignor Georg Austen. „Í starfsnáminu kynnist unga fólkið kirkjunni frá alveg nýju sjónarhorni. Það kynnist fólki sem lifir trú sína á fjarlægum stöðum á áhrifamikinn og framandi hátt og það styrkir á sama tíma trú unga fólksins. Þessa dýrmætu reynslu færa þau með sér heim og deila henni í samfélagi sínu.“ 

Ferð til Corvey-klausturs, í fótspor hl. Ansgar

Eftir sameiginlega messu í kirkju æskulýðsmiðstöðvarinnar í Hardehausen hélt hópurinn áfram til Corvey-klaustursins, fyrrum Benediktínaklausturs, sem var fyrsta stóra klaustrið í Saxlandi, og fræddist um sögu hl. Ansgars, sem var yfirmaður klaustursskólans í Corvey. Monsignor Georg Austen tók það skýrt fram að það er gríðarlega mikilvægt að halda á lofti sögu okkar og dýrlinganna sem við lofum enn á okkar dögum. Hann þakkaði einnig norrænu biskupunum fyrir að heimsækja Paderborn. Þessi heimsókn er viðurkenning á mikilvægi framlags Bonifatiuswerks.

„Gagnkvæm samskipti – í formi reglulegra funda – með vinum okkar frá Bonifatiuswerk eru okkur afar verðmæt. Meðbræður mínir í Norræna biskuparáðinu (NBK) – og ég persónulega – erum þakklátir fyrir að í ár var okkur boðið af Bonifatiuswerk og erkibiskupsdæminu í Paderborn. Þessir fundir eru afar mikilvægir til að eiga gagnkvæmar samræður og til að læra af reynslu annarra,“ sagði kardínálinn Anders Arborelíus frá biskupsdæminu í Stokkhólmi.

Þakklátur fyrir stuðning

Aðstæður kaþólskra á Norðurlöndum eru gjörólíkar aðstæðum kaþólskra í erkibiskupsdæminu í Paderborn. Fjárhagstaðan er einkum erfið í Finnlandi, Danmörku og á Íslandi. Þrátt fyrir það eigi sér stað ánægjuleg fjölgun kaþólskra í kjölfar vaxandi fólksflutninga, en sú staðreynd skapar einnig vandamál. Víða vantar kirkjubyggingar og innviði. Það streyma til dæmis fjölmargir Kaldear, sem eru kristnir menn frá Írak, til Svíþjóðar. 30.000 Kaldear búa nú á Norðurlöndunum, þar af 25.000 í Svíþjóð. Anders Arborelíus kardínáli, þakkaði kaþólskum í Þýskalandi, Bonifatiuswerk og Diaspora-samtökum þýsku biskupanna fyrir samstarfið og traustan stuðning.

Sjá einnig á vef Bonifatiuswerk: 

http://www.bonifatiuswerk.de/de/news/2020/maerz/vertreter-der-nbk-besuchen-jugendhaus-hardehausen-und-kloster-corvey/