Tilskipun Postullegs viðurlagadómstóls (Apostolic Penitentiary) um veitingu sérstakra afláta til hinna trúuðu í núverandi heimsfaraldri, 20.03.2020

Birt 20.03.20 í Fréttir og tilkynningar

(English below)

Gjöf sérstakra afláta er veitt trúuðum sem þjást af COVID-19 sjúkdómnum, almennt þekktur sem kórónuveiran, sem og heilbrigðisstarfsmönnum, fjöl­skyldumeðlimum og öllum þeim, hverju starfi sem þeir gegna, sem annast þá, þar með talið með bæn.

 

Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni“ (Rm 12:12). Orð sem heilagur Páll skrifaði til Rómarkirkjunnar hljóma í gegnum alla sögu kirkjunnar og leiðbeina dómgreind hinna trúuðu í ljósi allra þjáninga, veikinda og ógæfu þeirra.

Á þessum tímum er öllu mannkyni ógnað af ósýnilegum og skaðlegum sjúkdómi, sem um nokkurt skeið hefur verið hluti af lífi okkar allra, og markast dag eftir dag af ótta, nýrri óvissu og umfram allt útbreiddri líkamlegri og siðferðilegri þjáningu. 

Kirkjan hefur, eftir fordæmi hins guðdómlega meistara hennar, ætíð haft umönnun sjúkra í brennidepli. Eins og Jóhannes Páll II bendir á er gildi þjáninga manna tvíþætt: „Það er yfirnáttúrulegt vegna þess að það á sér rætur í guðdómlegum leyndardómi endurlausnar heimsins og það á sömuleiðis djúpar rætur í manninum sjálfum, vegna þess að í honum uppgötvar maðurinn sjálfan sig, eigin mennsku, eigin reisn, eigið verkefni“ (Postullegt bréf Salvifici Doloris, 31). 

Frans páfi hefur einnig sýnt á þessum síðustu dögum föðurlega nánd sína og endur­nýjað boð sitt um að biðja stöðugt fyrir þeim sem eru veikir af kórónuveirunni. 

Svo að allir þeir sem þjást vegna COVID-19, einmitt í leyndardómi þessarar þjáningar, megi enduruppgötva „sömu endurlausnarþjáningu Krists“ (s.st., 30), þá veitir hinn Postullegi viðurlagadómstóll, – ex auctoritate Summi Pontificis, og treystir á orð Krists Drottins með hliðsjón af anda trúarinnar og að menn  mæti þeim faraldri sem nú geisar með því að lifa í anda persónulegs afturhvarfs, – gjöf afláts í samræmi við eftirfarandi atriði.  

Fullkomið aflát er veitt þeim trúuðu sem þjást af kórónuveirunni, sem sæta sóttkví samkvæmt skipan heilbrigðiseftirlitsins á sjúkrahúsum eða á eigin heimilum ef þeir, í anda fráhverfum synd, sameinast andlega í gegnum fjölmiðla og hlýða á heilaga messu, biðja heilaga rósakransbæn, íhuga guðrækilega krossferilinn eða sýna annars konar trúrækni, eða ef þeir að minnsta kosti fara með trúarjátninguna, Faðirvorið og guðrækilegt ákall til sællar Maríu meyjar, og fórna þessari prófraun í anda trúar á Guð og kærleika gagnvart bræðrum sínum og systrum, með vilja til að uppfylla hin venjulegu skilyrði (meðtaka skriftasakramenti, altarissakramenti og biðja fyrir bænarefnum hins heilaga föður), eins fljótt og auðið er. 

Heilbrigðisstarfsmenn, fjölskyldumeðlimir og allir þeir sem fylgja fordæmi miskunnsama Samverjans, og setja sjálfa sig í smithættu, annast þá sem sjúkir eru af kórónaveirunni samkvæmt orðum hins guðdómlega Lausnara: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“ (Jh 15:13), fær sömu fullkomin aflát með sömu skilyrðum. 

Hinn Postullegi viðurlagadómstóll veitir fúslega fullkomin aflát við sömu skilyrði í tilefni af núverandi heimsfaraldri, einnig þeim trúuðu sem heimsækja kirkjuna og tilbiðja altarissakramentið, eða lesa heilaga ritningu í að minnsta kosti hálfa klukkustund, eða fara með hinn heilaga rósakrans, eða íhuga guðrækilega krossferilinn, eða fara með miskunnarrósakransinn, og biðja til almáttugs Guðs að faraldrinum linni, og að hann veiti hjálp þeim sem þjást og eilíft hjálpræði þeim sem Drottinn hefur kallað til sín. 

Kirkjan biður fyrir þeim sem ekki geta tekið á móti sakramenti smurningar sjúkra og veganesti (Viaticum) og felur hvern og einn guðlegri miskunn í krafti samfélags heilagra og veitir hinum trúuðu fullkomið aflát við andlátsstund, að því tilskildu að þeir hafi rétt hugarfar og hafi farið með nokkrar bænir á lífsleiðinni (í þessu tilfelli fellur kirkjan frá hinum venjulegu skilyrðum sem krafist er). Til að öðlast þetta aflát er mælt með notkun róðukrossins (sbr. Enchiridion indulgentiarum, nr. 12). 

Megi hin sæla María mey, móðir Guðs og kirkjunnar, hressing sjúkra og hjálp kristinna, talsmaður okkar, hjálpa þjáðu mannkyni, bjarga okkur frá illsku þessa heimsfaraldurs og afla fyrir okkur alls þess sem okkur er nauðsyn á til að öðlast hjálpræði og helgun.  

Þessi tilskipun gildir þrátt fyrir önnur ákvæði um hið gagnstæða.

Gefið í Róm, frá stóli hins Postullega viðurlagadómstóls, 19. mars 2020.

---------

Church grants special indulgence to coronavirus patients and caregivers.

The Apostolic Penitentiary issues a Decree granting special plenary indulgences for those suffering from the coronavirus pandemic, if specific conditions are met.

Read more