Fermingin

„Ferming“ er dregið af orðinu „firmare“ sem á latínu merkir „að staðfesta.“ Í fermingunni felst ákvörðun um að staðfesta skírnarheitin og er sú ákvörðun tekin af fúsum og frjálsum vilja. Uppfrá því er viðkomandi fullgildur kaþólikki með öllum réttindum og skyldum sem því fylgir.

Annar veigamikill þáttur fermingarsakramentisins er kraftur Heilags Anda. Í Biblíunni segir: „Þeir fylltust allir Heilögum Anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og Andinn gaf þeim að mæla“ (P 2. 1-4). Í fermingunni tekur fermingarbarnið á móti Heilögum Anda. „Að upplifa Heilagan Anda“ þýðir, samkvæmt Biblíunni, að mæta Guði og leyfa honum að tala til sín, að átta sig á því að kraftur hans er að verki í lífi okkar og geti unnið í okkur og í gegnum okkur. Kraftur Heilags Anda veitir styrk og hvetur menn til þess að taka ábyrgð á sjálfum sér og samfélagi sínu. Þar með dýpkar fermingarsakramentið á sérstakan hátt merkingu þess að verða fullorðinn einstaklingur.

Fermingarfræðsla

Fyrir ferminguna sækir fermingarbarnið fræðslu í kristnum fræðum hjá presti. Í fermingarfræðslunni gefst unglingunum tækifæri til þess að spyrja spurninga og íhuga trúnna og lífið. Fræðsluna annast prestar, reglusystur og leikmenn. Biskupsdæmið hefur gefið út trúfræðslurit og vinnubækur á íslensku. Prestar eða systur skipuleggja sérstaka kvertíma víðsvegar um landið handa börnum sem aðeins tala eða skilja pólsku eða ensku. Börn sem búa fjarri þeim stöðum þar sem skipulögð trúfræðsla fer fram geta tekið þátt í bréfaskóla.

Nánari upplýsingar veita sóknarprestar.

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014