Píslarvættisdauði Pólýkarpusar

Frá kirkju Guðs sem dvelur 2 í Smýrnu, til kirkju Guðs sem dvelur í Fílómelíum 3 og til allra safnaða hinnar heilögu kaþólsku kirkju hvar sem þeir dvelja. Náð, friður og kærleiki sé með ykkur frá Guði Föður og Drottni okkar Jesú Kristi.

 

1. Bræður, í þessu bréfi flytjum við ykkur fregnir af píslarvottunum og þá einkum af hinum sæla Pólýkarpusi en það má segja að með vitnisburði sínum hafi hann bundið enda á ofsóknirnar og sett innsigli sitt á þær. Því það var engu líkara en að allt það sem á undan fór hafi gerst til að Drottinn gæti opinberað okkur enn á ný píslarvættisdóm sem er sambærilegur við það sem við lesum um í guðspjallinu. 4 Á sama hátt og Drottinn, beið Pólýkarpus þolinmóður þeirrar stundar er hann var svikinn - í þeirri merkingu að einnig við sem leitum fyrirmyndar hjá honum skyldum setja hag náungans í fyrirrúm. Það er réttilega tákn þess sanna og trygga kærleika þegar hugur manns er ekki einungis bundinn við að bjarga sjálfum sér heldur og félögum sínum sömuleiðis.

 

2. En ekki má gleyma því að píslarvættisdauði allra annarra sem Guð hafði viljað að gerðist (við verðum að gæta þess að eigna honum yfirstjórn allra hluta) var göfugur og blessunarríkur atburður. Það komst enginn hjá því að fyllast aðdáun yfir staðfastri þrautseigju þeirra og þeim kærleika sem þeir báru til meistara síns. Sumir þeirra voru svo gjörsamlega tættir af völdum húðstrýkingar að það sást í mikilvæg líffæri alveg að innstu æðum og slagæðum. Samt sem áður mættu þeir þjáningum sínum af slíkri reisn að jafnvel viðstaddir tárfelldu fyrir hönd þeirra. Aðrir sýndu slíka hetjudáð að hvorki heyrðist hósti né stuna frá þeim. Það virtist okkur öllum skýr sönnun þess að á þeirri stundu örvæntingar voru þessar píslarvættishetjur Krists ekki til staðar í líkama sínum - eða jafnvel sem enn betra er, að Drottinn stæði þeim við hlið og talaði til þeirra. Því var það að með allar hugsanir sínar mettaðar af náð Krists reyndist þeim léttbærara að þola grimmúð þessa heims og fyrir verð einnar stundar keyptu þeir sér eilíft líf. Fyrir þá höfðu kvalareldar pyndingar þeirra kærkomin svalandi áhrif því þeir misstu ekki sjónar af útgönguleið sinni frá hinum óslökkvandi logum eilífðar og þegar þeir horfðu upp voru þeir fylltir innri sýn um alla þá góðu hluti sem í vændum voru handa þeim sem sýndu þolgæði; hlutir sem "auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns" (1Kor 2.9) en voru opinberaðir þessum mönnum af Drottni - menn sem þegar hér var komið sögu, voru ekki lengur menn heldur voru þeir þá þegar englar.

 

Það sama átti við um þá sem var varpað fyrir villidýr. Þær píslir sem þeir urðu að þola voru hræðilegar því þeir voru látnir liggja á beddum þöktum fleinum og urðu þar að þola pyndingar af ýmsum gerðum í þeirri von að langvarandi þjáningar þeirra gerðu óvininum kleift að þvinga þá til afneitunar. Í raun var enginn endir á því ráðabruggi sem djöfullinn beindi gegn þeim.

 

3. Þökk sé Guði að allar tilraunir hans runnu út í sandinn. Germaníkus, hin sanna ímynd göfugleikans, gaf þeim styrk með stöðugu þollyndi sínu þegar þrótt þeirra tók að þverra. Hann gekk fram gegn óargadýrunum af sannri hetjudáð og þegar landshöfðinginn reyndi að tala um fyrir honum og hvatti hann til að sjá aumur á ungum aldri sínum, notaði hann jafnvel aflsmuni sína til að draga skepnurnar að sér í þrá sinni eftir skjótri brottför úr heimi óréttlátra og löglausra manna. Allur lýðurinn varð þrumulostinn yfir þeirri hetjudáð sem þessi samstillti kristni hópur sýndi í guðsótta sínum og elsku og hóf lýðurinn þá að hrópa: "Burtu með trúvillingana! (5) Farið og leitið Pólýkarpusar!" Hins vegar ber að geta manns nokkurs, Kvintus að nafni, Frýgíumanns, (6) sem nýkominn var frá Frýgíu, en kjarkurinn brást honum þegar hann sá villidýrin. Það var hann sem hafði brýnt sjálfan sig og nokkra aðra til að gefa sig fram af sjálfsdáðun; og eftir miklar fortölur fékk landshöfðinginn hann til að taka eiðinn og færa reykelsisfórn. (Og hér er komin ástæða þess, bræður, hvers vegna við lítum ekki með velþóknun á það þegar menn gefa sig fram hugsunarlaust. Ekkert er okkur kennt þessu líkt í guðspjallinu.7 )

 

5. En hinn dásamlegi Pólýkarpus sýndi ekki nokkur merki hræðslu þegar hann fyrst heyrði af þessum atburðum og ásetti hann sér að vera áfram í borginni. Meirihluta okkar tókst hins vegar að telja honum hughvarf og fá hann til að fara. Hann fór því með leynd til lítils sveitaseturs nærri borginni. Tíma sínum þar eyddi hann með nokkrum vinum og gerði hann ekkert annað dag og nótt en að biðja fyrir öllum mönnum og kirkjum hvarvetna í heiminum eins og var siður hans að gera. Að venju var hann við bæn þrem dögum fyrir handtöku sína og sá hann þá í sýn eldtungur gera ösku úr svæfli sínum. Við það snéri hann sér að félögum sínum og sagði: "Ég hlýt að verða brenndur lifandi."

 

6. Þar sem ekkert benti til þess að leit að honum hefði verið hætt, flutti hann sig á annan bæ. Leitarmennirnir komu strax í kjölfar brottfarar hans og þegar þeir fundu hann ekki handtóku þeir tvo vinnusveina þar og játaði annar þeirra undir pyndingum. (Því að þrátt fyrir allt var ekki hjá því komist að honum yrði veitt eftirtekt. Þær kringumstæður, að svikararnir væru heimamenn hans og að lögreglustjórinn - sem svo vildi til að bar jafnvel nafnið Heródes - var staðráðinn í að færa hann til hringleikahússins, var vitnisburður þess að hann varð að mæta örlögum sínum og gerast hluttakandi með Kristi og að þeir sem sviku hann yrðu sömuleiðis dæmdir til hljóta refsingu Júdasar.)

 

7. Réttarverðir og löggæslumenn á hestbaki lögðu af stað um kvöldmatarleytið á föstudeginum og höfðu þeir vinnusveinana með sér. Mennirnir voru með alvæpni eins og þar færi stigamaður sem þeir leituðu. 8 Þeir réðust til atlögu við Pólýkarpus seint að nóttu meðan hann svaf þar í þakherbergi. 9 Jafnvel þá hafði hann tækifæri til að flýja til annars staðar en hann neitaði og sagði: "Verði Guðs vilji." Svo skjótt sem hann heyrði þá koma fór hann niður og tók þá tali. Aldur hans og rólyndi kom þeim í opna skjöldu og þeir létu í ljós undrun sína yfir því hvers vegna handtaka þessa aldraða manns væri svo áríðandi. Þrátt fyrir að áliðið væri nætur lét hann samstundis bera þeim allan þann mat og drykk sem þeir óskuðu. Hann spurði þá síðan hvort honum leyfðist að biðjast fyrir óáreittur eina stund. Þegar þeir gáfu honum samþykki sitt, stóð hann upp og hóf að biðja; náð Guðs fyllti hann allan svo að fullar tvær stundir liðu áður en hann lauk bæninni. Allir þeir sem heyrðu hann fylltust lotningu og margir iðruðust þess að hafa farið þennan leiðangur gegn manni svo öldruðum og tignarlegum.

 

8. Að lokum, eftir að hafa minnst allra þeirra sem hann hafði komist í kynni við - smárra sem stóra, þekktra og óþekkta - sem og allrar kaþólsku kirkjunnar um víða veröld, lauk hann bæn sinni. Þá var kominn tími til að leggja af stað svo þeir settu hann á bak asna 10 og fóru með hann til borgarinnar. Þann dag var stóri sabbatsdagur 11 og Heródes lögreglustjóri kom ásamt föður sínum, Níketasi, til móts við hann. Þeir leiddu hann í vagn sinn, settust hvor sínum megin við hann og fóru að reyna að telja honum hughvarf: "Vertu til friðs," sögðu þeir, "hvað er svo slæmt við það að segja "Sesar er Drottinn" 12 og færa reykelsisfórn og svo framvegis þegar það mun bjarga lífi þínu?" Í fyrstu svaraði hann þeim ekki, en þegar þeir létu hann ekki í friði sagði hann: "Ekki mun ég fara að ráðum ykkar." Þegar þeir sáu að þeir gátu ekki talað um fyrir honum, tóku þeir að hóta honum og þeir ýttu svo þjösnalega við honum þegar hann fór úr vagninum að hann hruflaði sköflunginn á sér. Hann lét ekki á neinu bera og gekk rösklega burtu greiðum skrefum í átt til fjölleikahússins. Þar fyrir innan voru slík háreysti í mannfjöldanum að ekki heyrðist mannsins mál.

 

9. Þegar Pólýkarpus gekk inn á völlinn heyrðist rödd af himni segja: "Láttu ekki bugast, Pólýkarpus, vertu sem maður." Enginn sá þann sem mælti þetta en þeir félagar okkar sem voru þarna heyrðu þetta. Að lokum var hann færður til yfirheyrslu og þegar það fréttist að það væri Pólýkarpus sem hefði náðst, braust út ærandi hávaði. Hann var færður fyrir landshöfðingjann sem spurði hvort hann væri maðurinn. Þegar Pólýkarpus sagði að svo væri, reyndi landshöfðinginn að fá hann til að játa yfirsjónir sínar. "Minnstu ára þinna," sagði hann og bætti við þessari venjulegu áminningu: "Sverðu eiðstafinn "við heilladís Sesars" 13 - viðurkenndu að þú hefur rangt fyrir þér og segðu: "Niður með trúvillingana!"." Leit þá Pólýkarpus í kringum sig á æstan lýð heiðingjanna í fjölleikahúsinu og varð hann þungur á brún. Hann bandaði þá hendi sinni í átt til lýðsins og sagði bitrum tóni meðan hann leit til himins: "Niður með trúvillingana!" Landshöfðinginn hélt hins vegar áfram að beita hann þrýstingi. "Taktu eið og þú skalt vera frjáls ferða þinna," sagði hann. "Formæltu Kristi þínum." Pólýkarpus svaraði: "Áttatíu og sex ár hef ég þjónað honum 14 og ekkert rangt hefur hann gert mér. Hvernig á ég að getað lastmælt konungi mínum og frelsara?"

 

10. Enn hélt landshöfðinginn áfram tilraunum sínum 15 og sagði á ný: "Sverðu við heilladís Sesars." Hann svaraði: "Ef þú heldur enn í þá von að ég muni sverja við heilladís Sesars og lætur eins og þú vitir ekki hver ég er, skal ég segja þér hreint út nú að ég er kristinn; og ef þú vilt vita hvað það merkir að vera kristinn skaltu einungis nefna daginn til að heyra vitnisburð minn." Þessu svaraði landshöfðinginn: "Reyndu röksemdafærslu þína á lýðnum þarna." En Pólýkarpus sagði: "Ég hélt að það væri þú sem værir þess virði að ræða það við vegna þess að okkur hefur verið kennt að sýna réttum valdhöfum virðingu, yfirvaldi að skipan Guðs, svo lengi sem það leiðir okkur ekki af réttri leið. Að verja mig fyrir þessu fólki yrði einungis sóun á tíma mínum".

 

11. Landshöfðinginn sagði þá: "Hér hef ég villt óargadýr. Nema þú skiptir um skoðun mun ég láta kasta þér fyrir þau." "Fyrst því er þannig farið," sagði Pólýkarpus, "láttu þau þá koma vegna þess að okkur er fyrirmunað að gefa okkur að slæmri hugsun í stað góðrar. Það yrði hinsvegar mjög lofsvert að breyta rétt í stað ranglega." Þá sagði hinn: "Ef þú sérð ekki að þér, mun ég láta þig verða eldinum að bráð fyrst þú lætur hin villtu óargadýr þér í léttu rúmi liggja." Pólýkarpus svaraði á móti: "Eldur sá er þú hótar mér getur ekki brunnið mjög lengi; eftir nokkra stund kulnar hann. En það sem þú gerir þér ekki grein fyrir er að logar framtíðardómsins og eilífrar kvalar bíða hinna óguðlegu. Hví heldur þú áfram að sólunda tíma þínum? Gerðu hvaðeina það sem hugur þinn segir til um."

 

12. Og allan þann tíma meðan hann sagði þetta og margt annað þar að auki var hann fylltur hugrekki og gleði og öll ásýnd hans ljómaði af náð. Það var ekki einungis að hann væri langt frá því að vera gagntekinn vonleysi vegna þeirra hótana sem hafðar voru í frammi, heldur var það landshöfðinginn sjálfur sem nú var gjörsamlega ráðvilltur. Það næsta sem hann gerði var að senda kallara sinn út á hringlaga sviðið og lýsa þar þrisvar yfir: "Pólýkarpus hefur viðurkennt að vera kristinn!" Þegar allur lýðurinn heyrði orð kallarans urðu íbúar Smýrnu, jafnt heiðnir sem Gyðingar, æfir af bræði og hófu að hrópa hástöfum: "Hér höfum við kennimanninn frá Asíu! Föðurímynd kristinna manna! Guðaspillinn sem kennir heilum hópum að hvorki skuli guðunum færðar fórnir né þeir tilbeðnir!" Hér og þar innan um hróp af þessu tagi heyrðust háværar kröfur um að Filippus umsjónarmaður 16 sleppti ljónunum á Pólýkarpus. Hann sagði mannfjöldanum hins vegar að reglurnar bönnuðu honum það vegna þess að hann hefði þegar lýst því yfir að óargadýraatinu væri lokið. 17 Við þær fregnir ákvað fjöldinn að hrópa einum rómi að hann skyldi brenna Pólýkarpus lifandi. (En með því myndi rætast sýn hans um svæfilinn, þegar hann við bænahald sá hann loga og mælti við trygga vini sína þessi orð sem áttu eftir að rætast: "Ég hlýt að verða brenndur lifandi.")

 

13. Nú fóru hlutirnir að ganga fljótt fyrir sig. Á augabragði hafði múgurinn safnað saman knippum af brenni og spæni frá verkstæðunum og böðunum; Gyðingarnir, eins og þeirra er venja, létu ekki sitt eftir liggja við að aðstoða. Þegar haugurinn var tilbúinn, tók hann af sér yfirhöfnina, leysti um lendar sér og reyndi jafnvel að losa skóþveng sinn. Það var hann hins vegar ekki vanur að gera því sumir hinna trúuðu voru vanir að slást um að gera það í ákafa sínum að fá snert nakið hold hans - slíka almenna virðingu hafði hann öðlast fyrir heilagleika lífs síns og það jafnvel áður en hann leið píslardauða sinn. Járnin sem fest voru við bálköstinn voru sett um hann miðjan en þegar þeir gerðu sig líklega til að negla hann einnig fastan sagði hann: "Látið mig vera; hann sem gefur mér styrk til að afbera logana mun gefa mér styrk til að líkaminn hniprist ekki saman á staurnum þótt hann sé ekki negldur."

 

14. Þannig hættu þeir við að negla hann og bundu hann þess í stað. Þannig bundinn, með hendur fyrir aftan bak, var hann líkur reisulegum hrúti sem tíndur er úr stórri hjörð til fórnar; myndarlegri brennifórn tilbúna Guði. Þá hóf hann upp augu sín til himins og sagði: "Ó, Drottinn Guð almáttugur, Faðir þíns blessaða og elskaða Sonar Jesú Krists en fyrir hann hefur oss verið gefin þekking á þér. Þú ert Guð engla og valds, Guð allrar sköpunarinnar og allra réttlátra sem lifa við auglit þitt. Ég vegsama þig fyrir að veita mér þennan dag og þessa stund til einingar með píslarvottunum; til að eiga hlutdeild í bikar þíns smurða og fá risið upp aftur bæði í líkama og sál til lífs um eilífð í ódauðleika Heilags Anda. Megi mér auðnast að fá að vera í nærveru þinni á þessum degi í þeirra hópi; þér gjöful fórn og náðug eins og þú hafðir ákvarðað og sagt til um og hefur nú gjört, því þú ert Guð sannleika og í þér eru engin ósannindi. Fyrir það og allt þar að auki, lofa ég þig, blessa ég þig, vegsama ég þig, fyrir eilífan æðsta prest vorn á himnum, elskaðan Son þinn Jesúm Krist, fyrir hann og með honum sé þér dýrðin og Heilögum Anda nú og um aldir alda. Amen." 18

 

15. Þegar amen heyrðist sagt og bæninni lauk báru menn eld þar að og mikið eldhaf breiddist út. Og þá sáum við, sem vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að vera viðstaddir, dásamlega sjón; okkur var þyrmt til að vera ykkur til frásagnar. Eldurinn tók á sig hola lögun líkt og vindi þanin segl á skipi sem umlukti píslarvottinn. Og þarna var hann í miðju eldsins ekki sem brennandi hold heldur sem brauðhleifur 19 í bakaraofni eða sem gull eða silfur sem mótað er í bræðsluofni. Og dásamlega angan barst að vitum okkar, lík reykelsisilmi eða annars konar dýrindis ilmkvoðu.

 

16. Þegar þeir gerðu sér loks grein fyrir því að líkama hans yrði ekki eytt með eldi skipuðu ódæðismennirnir einum af böðlunum að ganga að honum og reka hann á hol með vopni sínu. Sem hann gerði það flaug út dúfa 20 ásamt slíku iðandi blóðstreymi að það slökkti eldana; og það fyllti alla áhorfendur lotningu að sjá mikilleika þess sem skilur Guðs útvöldu frá hinum trúlausu. Svo sannarlega var hinn undursamlegi Pólýkarpus meðal þeirra fyrrnefndu; biskup kaþólsku kirkjunnar í Smýrnu og kennari okkar daga sem sameinaði í persónu sinni postulann og spámanninn. Því svo sannarlega hafa orðið eða verða efndir á hverju því orð sem nokkru sinni hefur mælt verið af vörum hans.

 

17. En göfugleiki píslarvættisdauða hans og óflekkað mannorð hans frá byrjun fór ekki framhjá hinum afbrýðisama og öfundsjúka Satan, sem ávallt berst gegn þeim sem skipa sér í sveit hinna réttlátu. Hann sá nú Pólýkarpus fyrir sér krýndan kórónu ódauðleika og taka með sér verðlaun sem enginn gæti vefengt. Hann greip því til þess ráðs að reyna að koma í veg fyrir að við fengjum líkamsleifar hans en margir okkar voru áfjáðir í að fá hluta af hinum helgu dómum. Hann kom því í höfuðið á Níketasi (föður Heródesar og bróður Alces) að beiðast þess við landshöfðingjann að hann léti ekki líkamann af hendi: "Því annars gæti svo farið," sagði hann, "að þeir myndu snúa baki við hinum krossfesta og taka upp á því að tilbiðja þennan náunga í hans stað." Þetta var sagt undir miklum þrýstingi Gyðinga, sem höfðu haft nánar gætur á okkur þegar við gerðum okkur líklega til að draga líkamann úr eldglóðunum. Grunnhyggja þeirra er mikil því aldrei gæti það orðið að við yfirgæfum Krist sem leið píslir til frelsunar þeim sem frelsaðir verða um allan heim - hinn syndlausi dó fyrir hina syndugu - eða að tilbiðja nokkurn annan. Það er honum, Syni Guðs, sem við sýnum æðstu lotningu; en píslarvottunum, sem lærisveinum og eftirbreytendum Krists, gefum við elsku okkar fyrir óviðjafnanlega trúrækni þeirra við konung sinn og kennara. Megi það verða Guðs vilji að við fáum einnig hlutdeild í samfélagi þeirra og lærisveinahópi.

 

18. Þegar hundraðsstjórinn sá hins vegar að það voru Gyðingarnir sem voru að efna til úlfúðar lét hann sækja líkamann í allra augsýn, eins og er venja hjá þeim, og brenna hann síðan. Þannig að eftir allt saman tókst okkur að safna saman beinum hans - sem eru dýrmætari okkur en skart og betra en skíra gull - og við lögðum þau til grafar á viðeigandi stað. 21 Þar munum við safnast saman til fagnaðar eins og aðstæður gefa tilefni til; og ef Drottinn leyfir munum við fagna fæðingardegi 22 hans til píslarvættis. Hann mun hvortveggja verða minningarhátíð fyrir alla þá sem áður hafa fagnað sigri og æfing og undirbúningur fyrir hvern þann sem vænta má kórónu sinnar.

 

19. Þannig hljóðar frásögnin af Pólýkarpusi hinum sæla. Að meðtöldum þeim sem komu frá Fíladelfíu var hann tólfti í röð þeirra sem hlutu píslarvættisdauða í Smýrnu; en hann er sá eini sem valinn hefur verið úr hópnum til almennrar minningar og sem tilefni umræðu alls staðar, jafnvel meðal heiðingja. Ekki var hann einungis frægur kennimaður heldur var hann og píslarvottur sem var engum öðrum líkur. Hann er sá sem allir vilja líkja eftir í píslarvætti svo mjög sem það var í samræmi við guðspjall Krists. Staðfesta hans reyndist yfirsterkari óréttlæti landshöfðingjans og það varð honum til ódauðlegrar krýningar. Núna þar sem hann er í fyllingu fagnaðarins með postulunum og öllum fjöldanum á himnum syngur hann almáttugum Guði Föður dýrð og lofar hástöfum Drottin okkar Jesúm Krist - sem er frelsari sálna okkar, meistari líkama okkar og hirðir kaþólsku kirkjunnar um heim allan.

 

20. Við vitum að þið báðuð um ítarlegri frásögn af atburðunum en hér kemur fram. En við létum bróður okkar, Markíon, skrifa þetta stutta yfirlit fyrir ykkar til að styðjast við. Þegar þið hafið lokið við að lesa það, sendið þá bréfið áfram til bræðra ykkar sem fjarri búa, til að þeir megi einnig vegsama Drottin sem kallar sína útvöldu dýrlinga frá hinum stóra hópi fylgjenda sinna.

 

Og megi öll dýrð, vegsemd, máttur og tign vera hans um aldir alda sem gefur okkur af gnægð náð sína til að við fáum gengið inn í hans himneska ríki, fyrir hans einkason Jesúm Krist. Kveðjur flytjum við öllum Guðs börnum. Félagar okkar hér biðja að heilsa - og það, ásamt fjölskyldu sinni, gerir sá sem þetta hefur skráð,

 

Evarestus

Eftirskrift

21. Það var annar dagur fyrsta tímabils xantikkusmánaðar, sjö dögum fyrir marsmánuð að okkar sæli Pólýkarpus dó píslarvættisdauða sínum, tveimur stundum eftir miðnætti á hinum stóra sabbatsdegi. Embættismaðurinn sem bar ábyrgð á handtöku hans var Heródes; æðsti prestur var Filippus frá Tralles og landshöfðinginn var Statíus Kvardratus - en konungurinn sem sat við völd var Jesús Kristur, 23 sem ríkir um aldir alda. Honum ber öll dýrð, vegsemd, tign og hásæti að eilífu frá kynslóð til kynslóðar. Amen.

 

Og nú, bræður, bið ég að heilsa. Hagið lífi ykkar í samræmi við guðspjall Jesú Krists (sem ásamt Guði Föður og Heilögum Anda er dýrðin) til frelsunar hans heilögu útvöldu; gerið jafnvel sem Pólýkarpus hinn blessaði í píslarvætti sínu. Megi það verða gæfa okkar að standa í fótsporum hans í konungsríki Jesú Krists.

 

Athugasemdir endurritara

(i) Ofangreind frásögn hefur verið afrituð af Gajusi eftir gögnum samtímamanns, Ireneusar, sem var lærisveinn Pólýkarpusar. Ég, Sókrates, hef nú gert þetta afrit hér í Korintu eftir handriti Gajusar. Náð sé með ykkur öllum.

 

(ii) Ég, Píóníus, hef gert nýtt handrit eftir þessum eldri skrifum. Ég fann þau eftir að hinn sæli Pólýkarpus hafði opinberað mér geymslustað þeirra í sýn, sem ég mun útskýra seinna. Tíminn hafði unnið á þeim svo einungis slitrur voru eftir. En ég tíndi þau saman af kostgæfni í þeirri von að Drottinn Jesús Kristur myndi á sama hátt tína mig til sinna útvöldu í ríki sínu á himnum. Honum sé dýrð um aldir alda í einingu Föður og Heilags Anda. Amen.

 

......................................

 

(1) Það hefur löngum verið talið að atburðurinn hafi átt sér stað 23. febrúar árið 155, en þó hefur 22. febrúar 156 einnig verið nefndur. Heilagur Pólýkarpus var skipaður biskup í Smýrnu af Jóhannesi postula. Sjá Tertúllíanus, "De Praescriptione haereticorum," 32.2; Íreneus, "Adv. Haer.", 3.3,4.

 

(2) Hér er sögumaður að vitna til þess að kirkja Guðs hefur tímabundna viðdvöl í Smýrnu (sem og annars staðar) þ.e.a.s. hún er fjarri heimahögunum sem eru á himni (sbr. Hebreabréfið 11.13 "gestir og útlendingar á jörðinni").

 

(3) Bær í Frýgíu við aðalleiðina til Kappadókíu. Ekki hefur nafn bæjarins fundist í öðrum heimildum frá þessum tíma.

 

(4) Þ.e. píslir Krists. Allt í gegnum frásögnina reynir sagnahöfundur eftir fremsta megni að sýna fram á hliðstæðu milli þjáninga Pólýkarpusar og meistara hans.

 

(5) Kristnir menn voru gjarnan kallaðir trúvillingar eða trúleysingjar af heiðnum mönnum á þessum tímum.

 

(6) Hugleysi var talið Frýgíumönnum í blóð borið.

 

(7) Uppgjöf Kvintusar var ekki talið honum til tekna því hún var ekki í samræmi við boð guðspallsins: "Þegar þeir ofsækja yður í einni borg, þá flýið í aðra" (Mt 10.23).

 

(8) Hér sjáum við samlíkingu við píslir Krists: "Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig?" (Mt 26.55).

 

(9) Þetta er táknrænt fyrir þá sök að Jesús dvaldi kvöldið fyrir krossfestingu sína í loftstofu með postulunum tólf við síðustu kvöldmáltíðina (sbr. Mk 14.15; Lk 22.12).

 

(10) Minnir á reið Jesú inn í Jerúsalem á pálmasunnudag.

 

(11) Að öllum líkindum bar annan helgidag upp á sabbatsdaginn svipað og á sér stað þegar kirkjulega stórhátíð ber í dag upp á sunnudag.

 

(12) Af samviskuástæðum hefði það verið kristnum manni um megn að gefa dauðlegum manni nafnbótina "drottinn". Reykelsisfórn "og svo framvegis" var hefðbundin helgiathöfn við að tigna keisarann sem drottin.

 

(13) Júlíus Sesar kom þeim sið á að sverja heilladísinni eið, en hann taldi sig njóta einstakrar náðar hennar. Varð hann seinna að opinberum eiðstaf. Þar sem hann var til heiðurs heiðinni gyðju gátu kristnir menn af augljósum ástæðum ekki svarið hann.

 

(14) Þetta er skýr ábending um að hann hafi verið skírður sem ungbarn og með elstu skriflegu vitnisburðum um að ungbörn hafi verið skírð í frumkristni.

 

(15) Sögumaður kallar hér fram í hugann tregðu Pílatusar af fyrirdæma Jesúm.

 

(16) Yfirmaður helgiathafna sem og leikanna og hátíðarhalda. Hann er einnig nefndur æðsti prestur í nr. 21.

 

(17) Óargadýraatið var einungis einn hluti dagskrár leikanna.

 

(18) Þessi bæn Pólýkarpusar er eflaust byggð á bæn sem hann hefur sagt hvern sunnudag við altarisþjónustuna. Pólýkarpus á hlutdeild í bikar píslarvættisdauða hins smurða (þ.e. Messíasar eða Krists) þ.e.a.s. hann bergir ekki einungis af bikar blóðs hans heldur færir hann sjálfan sig fram til fórnar sem í senn er fórn Krists.

 

(19) Táknræn tilvísun til brauðsins í fórnfæringu altarisþjónustunnar. Þetta á sér hliðstæðu í bréfi heilags Ignatíusar frá Antíokkíu til Rómverja

 

(4) sem hann skrifaði skömmu fyrir píslarvættisdauða sinn árið 107 en þar segir hann: "Ég er hveitikorn Guðs, sem fínmalað verður í tönnum ljónanna til að úr mér verði hið skírasta brauð Krists." Brauðið er táknmynd fórnarinnar.

 

(20) Tákn þess að sálin yfirgefur líkamann. Eusebíus sagnfræðingur og biskup í Sesareu (260-340) sem rekur píslarvætti Pólýkarpusar í kirkjusögu sinni getur ekki um þetta atriði og af því hafa sumir fræðimenn dregið þá ályktun að þetta sé seinni tíma viðbót við textann.

 

(21) Af öryggisástæðum er staðurinn ekki gefinn upp. Þetta er jafnframt skýr vitnisburður þess að frá fyrstu tímum kristni voru jarðneskar leifar píslarvotta eða dýrlinga taldar mikilvægar þeim sem eftir urðu.

 

(22) Héðan mun sú venja komin að nefna dauða píslarvotta fæðingardag (til nýs lífs) og honum fagnað á viðeigandi hátt.

 

(23) Hér er nafni hins heiðna keisara sleppt af ásettu ráði en venja var að við gerð slíkra annála væri hans getið í lokin.

 

Þýðing © Reynir Guðmundsson 1999

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014