Bréf til Díógnetusar

1. Minn heiðraði Díógnetus. Ég hef tekið eftir gífurlegum áhuga þínum á að kynna þér trúna sem ríkir meðal kristinna manna. Þú hefur leitað mjög nákvæmra og heiðarlegra fregna um það hver sá Guð er sem þeir leggja traust sitt á, hvernig þeir tilbiðja hann, hvers vegna þeir skeyta þannig engu um heiminn og hafa andstyggð á dauðanum, og hvers vegna þeir hafna því að taka í guðatölu þá sem Grikkir telja guði og hvers vegna þeir aðhyllast enn síður hjátrú Gyðinga. Þú hefur spurt hvernig merkja megi einlægni meðal þeirra og hvers vegna þessi nýja iðkun hefur einungis komið í heiminn nú á dögum en ekki löngu fyrr.

 

Ég fagna þessum brennandi áhuga þínum og bið Guð, sem gerir okkur kleift að tala og hlusta, að veita mér það að mæla með slíkum hætti að þú megir uppfræddur verða og hjálpa þér til að hlusta svo ég þurfi ekki að harma að hafa mælt með þeim hætti sem ég nú geri.

 

2. Byrjaðu á því að hreinsa sjálfan þig af fordómum huga þíns, leggðu til hliðar þær hræðilegu hugmyndir sem einungis leiða til villu og vertu sem nýr maður að því leyti að þú hlýðir á það sem þú sjálfur viðurkennir að sé ný tunga.

 

Komdu og líttu á efni og útlit þeirra sem þið kallið og álítið vera guði. Líttu ekki einungis á þá með með sjáaldri augna þinna heldur einnig með vitsmunum þinum. Er einn þeirra nokkuð annað en steinn, líkur þeim sem við tröðkum á? Er ekki annar gerður úr eir sem er engu betri en skipin sem eru byggð til almennra nota? Er sá þriðji ekki úr trjávið sem þegar hefur rotnað? Er sá fjórði ekki úr silfri sem gæta verður með mennskum augum til að koma í veg fyrir að hann verði tekinn ófrjálsri hendi? Er sá fimmti ekki úr járni sem er að eyðast af ryði? Er sá sjötti ekki úr leir og er að engu leyti verðmætari en þeir leirmunir sem mótaðir eru til fábrotinna nota? Eru ekki allt þetta forgengilegir hlutir? Er ekki einn þeirra gerður af myndhöggvara, annar af látúnsmið, sá þriðji af silfursmið og fjórði af leirkerasmið? Er ekki hugsanlegt að áður en þeir voru mótaðir í þetta form af færum handverksmönnum hafi verið hægt að breyta lögun þeirra og gerð í eitthvað allt annað? Væri ekki mögulegt að gera potta og pönnur úr sömu efniviðum ef þeir lentu í höndum sömu handverksmanna? Eða, svo við veltum fyrir okkur hinni hliðinni, væri ekki hægt að breyta þessum hlutum sem þið nú tilbiðjið í venjulega potta og pönnur af manna höndum? Í stuttu máli sagt, eru þeir ekki allir sem einn heyrnalausir, blindir og lífvana hlutir sem eru án tilfinninga og fá sig ekki hreyft? Rotna þeir ekki allir og eyðast?

 

Þessa hluti kallið þið guði, þeim þjónið þið og tilbiðjið, en þið endið með því að verða í einu og öllu sem þeir. Er það ekki ástæða þess að ykkur mislíkar svo við okkur kristna menn að við neitum að virða guðlega eiginleika þeirra? Hvað sem því líður þá er í raun og veru afar lítil virðing fólgin í því hvernig þið farið með þá, jafnvel meðan þið haldið og trúið, að þið séuð að gera þá dýrlega. Þið hæðið þá og lítilsvirðið þegar þið skiljið þessa átrúnaðarguði ykkar eftir gjörsamlega óvarða séu þeir einungis gerðir úr steini eða leir. Ef þeir eru hins vegar gerðir úr silfri eða gulli þá læsið þið þá inni allar nætur og látið varðmenn gæta þeirra yfir daginn til að varna því að þeim verði stolið. Og hafi þeir skilningarvit þá hlýtur sá heiður sem þið sýnið þeim að vera fremur niðurlæging en virðing. Hafi þeir aftur á móti ekki skilningarvit dragið þið þá ekki dár að þeim með því að heiðra þá með blóði og feiti fórnarlamba? Myndi nokkur ykkar þola slíka óvirðingu? Nei, það myndi ekki nokkur maður láta það viðgangast að honum yrði sýnd slík vanvirðing því maðurinn býr yfir skynsemi og greind. Steinninn lætur hins vegar slíkt viðgangast vegna þess að hann hefur hvorugt og leiða athafnir ykkar til þess að sönnur eru færðar á það.

 

Það er margt fleira sem ég gæti nefnt sem ástæðu þess að kristnir menn festast ekki í ánauð slíkra guða. En ef það sem að ofan er rakið nægir ekki þá sé ég engan tilgang í því að ræða þetta atriði frekar.

 

3. Nú geri ég ráð fyrir að þú viljir heyra um tregðu kristinna manna til að viðurkenna trú Gyðinga. Það mætti ætla að þar sem þeir leggja ekki lag sitt við þess konar trúarbrögð sem ég var að lýsa, þá geti Gyðingarnir haldið því fram að þeir séu fylgjendur hins eina sanna Guðs og haft hann sem Drottin sinn. Engu að síður gera þeir sig seka um villu að svo miklu leyti sem þeir tilbiðja hann með helgisiðum sem eru ámóta þeim sem heiðnir menn ástunda. Því ef Grikkir eru sekir um fásinnu með fórnum sínum til mállausra og rænulausra skurðgoða, þá ættu Gyðingarnir að gera sér grein fyrir því að það er ekki síður fásinna og ósönn trúrækni að gera sér þá mynd af Guði sjálfum að hann þarfnist slíkra hluta. Skapari himins og jarðar og alls þess sem þar er að finna og sá sem hefur fært okkur allt sem við þörfnumst, gæti aldrei sjálfur verið í þörf fyrir þá hluti sem hann sjálfur veitti þeim sem standa í þeirri tiltrú að þeir séu að færa honum. En þeir sem telja sig vera að uppfylla skyldur sínar við hann með því að færa honum að fórn blóð, feiti og brennifórnir, eru að mínum dómi í engu ólíkir þeim sem sýna rænulausum skurðgoðum þess konar heiður. Annar hópurinn, að því er virðist, færir dauðum hlutum gjafir en hinn hópurinn færir honum gjafir sem einskis þarfnast.

 

4. Hvað viðkemur nákvæmni þeirra þegar kjöt er annars vegar og hjátrú varðandi hvíldardaginn og hégóma í sambandi við umskurði og tilgerð þeirra varðandi föstur og nýtt tungl, þá geri ég ekki ráð fyrir því að þú þurfir leiðsögn frá mér til að sjá hvílík fjarstæða þetta er og alls ekki þess virði að um það sé fjallað. Því hvernig getur það verið neitt annað en óguðrækni að meðtaka suma hluti sem Guð hefur skapað okkur til handa og fullyrða að sköpun þeirra sé lofsverð en hafna öðrum hlutum á þeim forsendum að þeir séu óþarfir og til einskis nýtir? Og hvað er það annað en guðlast að ljúga til um það að Guð hafi bannað okkur að gera góða hluti á hvíldardegi? Og er það nokkuð annað en fáránleikinn sjálfur þegar þeir stæra sig af því að líkamleg limlesting sé sönnun þess að þeir séu meðal þeirra útvöldu og að Guð elski þá sérstaklega af þeirri ástæðu. Og þegar þeir rýna í tungl og stjörnur í þeim tilgangi að halda heilaga mánuði og daga og auðkenna tilhögun Guðs og skiptingu árstíða samkvæmt eigin duttlungum, ákveða eina árstíð sem tímabil fagnaðar og aðra sem tímabil sorgar, getur nokkur maður látið sér detta í hug að þetta sé merki um sanna trúrækni fremur en að hér sé einfaldlega um vitfirringu að ræða?

 

Ég geri ráð fyrir að þú hafir heyrt nógu mikið til að sjá hversu mjög kristnir menn hafa rétt fyrir sér þegar þeir hafna heimskupari og blekkingu þessara tveggja trúarhópa sem og smámunasamlegum iðkunum Gyðinga sem þeir eru svo stoltir af. Hins vegar mátt þú aldrei vænta þess að þekkja leyndardóma þeirra eigin trúarbragða af lýsingum manna.

 

5. Munurinn á kristnum mönnum og öðrum mönnum felst ekki í þjóðerni, tungu eða siðum. Kristnir menn lifa ekki aðskildir í sérstökum borgum, þeir tala ekki sérstaka mállýsku eða eru sérlundaðir í líferni sínu. Sú kenning sem þeir játa er ekki að þakka annríki huga og heila og ekki eru þeir, eins og sumir, fylgismenn einhverrar mannlegrar hugmyndafræði. Þeir búa í grískum eða útlendum borgum eins og hver og einn hefur ákveðið og hafa lagað sig að almennum háttum manna í klæðaburði, mataræði og öðrum siðum. Engu að síður ber skipulag samfélags þeirra nokkur eftirtektarverð einkenni sem koma jafnvel á óvart. Nefna má sem dæmi að þótt þeir séu íbúar ákveðins lands þá líkist hegðun þeirra meira því að dvöl þeirra þar sé ekki varanleg; þeir taka þátt í öllu daglegu lífi sem borgarar en bera allt harðræði sem útlendingar. Í þeirra augum er sérhvert útlent land föðurland og sérhvert föðurland útlent. Þeir kvænast eins og hverjir aðrir menn og geta börn en þó bera þeir ekki út nýfædd börn sín. Þeir deila með sér máltíðum en aldrei eiginkonum sínum. Þeir eru holdi klæddir en þó lifa þeir ekki samkvæmt holdinu. Þeir eiga sér tilveru á jörðinni en eru þegnar himnaríkis. Þeir hlíta settum lögum en eru í einkalífi sínu hafnir yfir þau. Þeir elska alla menn en eru ofsóttir af öllum. Þeir eru óþekktir en engu að síður fordæmdir. Þeir eru líflátnir og þó eru þeir gæddir lífi. Þeir eru fátækir en veita engu að síður mörgum auð. Þá skortir alla hluti en þó hafa þeir allt í gnægð sinni. Þeir eru smánaðir en þó eru þeir dýrlegir gerðir í smán sinni. Þeir eru rægðir en fá þó uppreisn æru. Þeir endurgjalda óhróður með lofsyrðum og svívirðingu með prúðmennsku. Geri þeir góða hluti er þeim refsað sem ódæðismönnum. Og hýddir fagna þeir eins og menn sem gefið er nýtt líf. Gyðingar ráðast gegn þeim sem villutrúarmönnum og Grikkir áreita þá með stöðugum ofsóknum. Engu að síður geta hatursmenn þeirra ekki gefið neina ástæðu fyrir fjandskap sínum.

 

6. Í stuttu máli eru samskipti kristinna manna við heiminn samskipti sálar og líkama. Sálin dreifist um alla parta líkamans og þannig eru kristnir menn dreifðir um allar borgir veraldar. Sálin dvelur í líkamanum en er jafnframt ekki af líkamanum. Þannig dvelja kristnir menn í heiminum en eru jafnframt ekki af heiminum. Sálin, sem er ósýnileg, er varin sýnilegum líkama og kristnir menn eru sýnilegir heiminum en þó er trú þeirra honum hulin. Holdið hatar sálina og heyr stríð gegn henni, þótt hún hafi ekki gert því neitt til, vegna þess að hún er hindrun þess að það ástundi hóglífi. Heimurinn hatar þannig kristna menn þótt þeir geri honum ekkert mein, því þeir eru andsnúnir hóglífi hans. Þrátt fyrir það elskar sálin holdið og alla limi þess, þótt þeir hati hana; og kristnir menn elska einnig alla þá sem hata þá. Sálin er lokuð inni í líkamanum en varðveitir hann engu að síður. Og þótt heimurinn sé kristnum mönnum sem fangelsi þá eru það þeir sem varðveita hann. Ódauðleg sálin á sér dvalarstað í siðferðilegum helgidómi, og kristnir menn sem hafa viðdvöl meðal forgengilegra hluta, leita eftir því sem er óforgengilegt á himnum. Sálin eflist við skort á mat og drykk. Með sama hætti leiðir slæm meðferð á kristnum mönnum til þess, að tala þeirra eykst. Guð hefur falið þeim þessa miklu stöðu og er það þeim ólögmætt að hlaupast frá henni.

 

7. Því eins og ég sagði fyrr er það ekki jarðnesk uppfinning sem þeim var falin. Það sem þeir gæta af slíkri alúð er ekki afrakstur mannlegrar hugsunar, og það sem þeim hefur verið treyst fyrir er enginn mennskur leyndardómur. Það er almættið sjálft, skapari alheimsins, Guð sem ekkert auga fær numið, sem hefur sent frá himnum sinn eigin Sannleika, sitt eigið heilaga og óskiljanlega Orð, og búið honum stað meðal mannanna og grundvallað hann í hjörtum þeirra. Þetta hefur hann ekki gert, eins og hægt væri að ímynda sér, með því að senda manninum einhvern þjóna sinna, einhvern engil eða stjórnanda, eða einhvern þeirra sem stjórna málefnum á jörðu niðri og jafnvel ekki staðgengla frá himnum. Það er enginn annar en sjálfur höfundur og smiður alheimsins en fyrir hans tilverknað gjörði Guð heimana og setti höfunum mörk sín. Leyndardómi hans hlýða náttúruöflin af auðsveipni. Af honum er sólinni sett takmörk sinnar daglegu göngu og honum hlýðir tunglið þegar hann býður því að skína að nóttu til og stjörnurnar hlýða með því að fylgja braut tunglsins. Af honum er öllum hlutum ráðstafað og þeir settir undir hans stjórn. Hann stjórnar himninum og öllu sem þar er að finna, jörðinni og öllu sem á jörðu er, sjónum og sérhverri skepnu sem hann geymir. Hann stjórnar eldinum, loftinu hyldýpinu. Hann stjórnar því sem í hæðum er, því sem í djúpum er og því sem þar er á milli. Slíkur er sá sem Guð sendi.

 

Og kom hann, eins og maður gæti haldið, máttugur, ógnvekjandi og skapandi óhug? Nei, ekki var því þannig farið. Hann kom færandi mildi og auðmýkt. Guð sendi hann eins og konungur sendir son sinn sem er konungur. Guð sendi hann, son sinn, sem Guð. Hann sendi hann sem mann til manna. Hann sendi hann sem Frelsara sem beitir fortölum en ekki valdi, því valdbeiting er ekki einkenni Guðs. Hlutverk hans var ekki að elta okkur uppi heldur að kalla á okkur. Hann sendi hann okkur í kærleika en ekki til refsingar enda þótt dag einn muni hann senda hann til að dæma okkur og hver verður þá þess megnugur að umbera nærveru hans?

 

... [Hefur þú ekki séð þegar kristnum mönnum] er kastað fyrir villt óargadýr í því skyni að þeir afneiti Drottni sínum en þó hefur ekki tekist að sigrast á þeim? Sérðu ekki að eftir því sem fleiri þjást af völdum slíkra refsinga þá stækkar hópur þeirra sem eftir eru? Þetta lítur ekki út fyrir að vera verk mannsins. Hér er að verki máttur Guðs og er sönnun þess að hann er nærstaddur.

 

8. Hver á meðal mannanna hafði nokkra þekkingu á því hvað Guð er áður en hann kom? Eða tekur þú undir innantómar og fáránlegar kenningar þeirra hégómlegu heimspekinga sem sumir sögðu að Guð væri eldur (og þannig gáfu þeir Guði nafn þess sem þeim sjálfum var ætlað), aðrir að hann væri vatn og enn aðrir að hann væri eitthvað annað af þeim frumefnum sem Guð skapaði? Ef fallist yrði á einhverjar af þessum hugmyndum þá stæði ekkert í vegi þess að hvað sem er í heiminum yrði gert að Guði. Fullyrðingar af þessu tagi eru því lítið annað en fúsk og blekking sjónhverfingamanna enda hefur enginn maður nokkru sinni séð eða þekkt hann. Það er hann sjálfur sem opinberar sig. Og hann opinberar sig fyrir trúna en fyrir hana eina er okkur gefið að þekkja Guð. Því þótt Guð sé Drottinn og höfundur alls heimsins sem gerði alla hluti og ákvarðaði skipan þeirra, þá var hann ekki einungis góðviljaður gagnvart mönnunum heldur og einnig langlyndur. Og þannig hefur hann í sannleika sagt ávallt verið og er enn og mun ætíð vera: Miskunnsamur, góðviljaður, skapgóður og sannur; enginn er jafn góður og hann. Hjá honum fæddist mikilfengleg og ólýsanleg hugmynd sem hann miðlaði einungis til Sonar síns. Meðan hann hélt leynd sinni og var þagmælskur þá virtist sem hann væri sinnulaus gagnvart okkur og ekki umhugað um okkur. En um leið og hann, fyrir sinn elskaða Son, opinberaði og sýndi fram á þá hluti sem hann hafði ráðgert frá upphafi, þá gaf hann okkur samtímis allar sínar gjafir sem gerði okkur kleift að eiga hlutdeild í góðgjörðum hans og öðlast sýn og skilning á leyndardómum sem enginn af okkur hafði nokkru sinni vænst.

 

9. Alla hluti ráðgerði hann þannig í huga sér ásamt Syninum og eftirlét okkur því næst í öndverðu að lifa eins og okkur þóknaðist, leyfði okkur að stjórnast af óstjórnlegum hvötum og láta munúð og losta leiða okkur á villigötur. Þetta gerði hann ekki vegna þess að honum þætti ánægja af því að við syndguðum. Það eina sem hann gerði var að hann umbar það. Það var ekki að hann legði blessun sína yfir lögleysu fyrri tíma heldur var hann að móta þá öld réttlætis sem nú ríkir með það í huga að við, sem á fyrri tímum létum eigin gjörðir okkar verða þess valdandi að við vorum ekki verðugir lífs, gætum nú á dögum orðið verðugir þess fyrir mildi Guðs, og að eftir að hafa sýnt skýrlega vangetu okkar að ganga inn í ríki Guðs af eigin rammleik, gætum við nú fyrir styrk Guðs orðið fullfærir um það. Því var það að þegar siðleysi okkar hafði náð hámarki og ekki fór á milli mála að maklegra málagjalda var að vænta í formi refsingar og dauða, þá rann upp sú stund sem Guð hafði ákvarðað til að sýna eftirleiðis mátt sinn og elskulega mildi. Hversu óviðjafnanlegur er ekki kærleiki og blíðleiki Guðs! Í stað þess að hata okkur og hafna og minnast illsku okkar, þá sýndi hann á þeirri stundu fram á hversu langlyndur hann var. Hann sýndi okkur þolinmæði og af meðaumkun tók hann á sig syndir okkar og gaf einkason sinn sem lausnargjald fyrir okkur, hinn heilagi fyrir hina illu, hinn syndlausi fyrir hina syndugu, hinn réttláti fyrir hina óréttlátu, hinn óspilli fyrir hina spilltu, hinn ódauðlegi fyrir hina dauðlegu. Því var það nokkuð nema réttlæti hans sem gat nægt til greiðslu fyrir syndir okkar? Í hverjum öðrum gátum við í illsku okkar og óguðleika hlotið réttlætingu nema í Syni Guðs? Ó hin fagurlegu skipti! Ó hin órannsakanlega sköpun! Ó hinn óvænti hagur! Að siðleysi margra skuli hulið í einum réttlátum manni og að réttlæti eins skuli helga marga syndara!

 

Á liðnum tímum sannfærði hann okkur um að mannlegt eðli okkar skorti styrk til að öðlast líf. Í dag opinberar hann okkur Frelsara sem hefur styrk til að bjarga jafnvel þeim sem eru máttvana. Að baki þessu tvennu lá vilji hans að við treystum á mildi hans og að við litum á hann sem fóstra, föður, kennara, ráðgjafa, græðara, vísdóm, ljós, heiður, dýrð, mátt og líf og að við skyldum ekki kvíða því að geta ekki fætt okkur og klætt.

 

10. Ef það er þessi trú sem þú þráir þá verður þú fyrst að hafa fulla þekkingu á Föðurnum. Guð elskar manninn. Það var í þágu hans að hann skapaði heiminn og hann gaf honum yfirráð yfir öllu því sem í honum var. Honum veitti hann skynsemi og skilning og hann einn fékk leyfi til að upplyfta ásjónu sinni til hans. Guð mótaði manninn í sinni eigin mynd. Hann sendi eingetinn Son sinn til hans. Hann lofaði honum ríki sínu á himnum og sá sem hefur elskað hann mun sannarlega erfa það.

 

Ímyndaðu þér allan þann fögnuð sem þú munt verða aðnjótandi öðlist þú þessa þekkingu og hversu mikinn kærleika þú munt bera í brjósti til hans sem elskaði þig með þessum hætti. Og ef þú elskar hann þá munt þú verða honum líkur í mildi. Ekki skaltu láta koma þér á óvart að maðurinn líkist Guði; það gerir hann því Guð hefur viljað að svo væri. Hamingjan felst ekki í því að ríkja yfir náunga sínum eða búa við þá löngun að hafa meira en þeir sem skortir styrk eða að eiga auð og beita þá afli sem minna mega sín. Enginn getur líkst Guði með þeim hætti því slíkir hlutir eru í einu og öllu framandi mikilfengleika hans. En beri einhver klyfjar náunga síns, ef hann er reiðubúinn að létta neyð annarra af gnægð sinni, ef hann deilir þeirri blessun sem hann hefur fengið frá Guði með þeim sem líða skort og verði þannig sjálfur að guði gagnvart þeim sem fá af örlæti hans - þá breytir slíkur maður sannarlega eftir Guði. Þá munt þú sjá, meðan þú dvelur á jörðu, að Guð lifir á himnum ofan. Þá munt þú hefja að segja frá leyndardómum Guðs, og þú munt bæði elska og dást að þeim sem líða þjáningar því þeir neita að hafna Guði. Þá munt þú fordæma blekkingu og villu þessa heims er þú hefur skynjað hið sanna líf á himnum, er þú hefur lært að fyrirlíta þann sýnilega dauða sem hér er á jörðu og kvíðir einungis hinum raunverulega dauða sem bíður þeirra sem dæmdir eru til vistar í eilífðareldum, eldum sem munu kvelja þá endalaust er þangað fara. Þá munt þú dásama þá sem fyrir réttlætissakir þola tímabundna elda og þú munt telja þá meðal hinna sælu þegar þú skynjar [eðli] þess elds.

 

11. Ekki er ég að ræða hér um mér ókunna hluti og ekki fitja ég upp á einhverju nýju. Þótt ég sé nú uppfræðari þeirra er standa utan Gyðingdóms þá var ég eitt sinn lærisveinn postulanna. Og því sem mér var gefið útdeili ég nú af trúmennsku til þeirra lærisveina sem geyma sannleikann. Hvernig getur nokkur maður, sem hefur réttilega verið uppfræddur um Orðið og lært að elska það, hafnað því að fræðast vandlega um það sem Orðið hefur opinberað lærisveinum sínum með svo skýrum hætti? Meðan Orðið var meðal þeirra með sýnilegum hætti gaf það þeim opinberun sína á einföldu máli. Það sem var óþekkjanlegt hinum trúlausu opinberaði það lærisveinunum með afdráttarlausum hætti; og vegna þess að það áleit þá trúfasta þá öðluðust þeir þekkingu á leyndardómum Föðurins. Hann sendi Orðið til að það yrði greinilegt heiminum. Það var vanvirt af [útvöldum] lýðnum en prédikað af postulunum og þeir sem standa utan Gyðingdóms trúðu á það. Orðið var til frá upphafi og birtist ferskt þótt það reyndist gamalt, en það fæðist sífellt á ný í hjörtum dýrlinga þess. Hér er kominn hann sem er ævarandi, hér er kominn hann sem í dag er nefndur Sonurinn. Það er fyrir hann að kirkjan styrkist og náðin breiðist út og eykst meðal hinna heilögu, náðin sem veitir skilning, opinberar leyndardóma, ræður tímatali og fagnar yfir trúuðum - náðin sem sá fær er hennar leitar og vanhelgar ekki trúarheit sín eða stígur út fyrir þau mörk er feðurnir hafa sett. Ef þeirra er gætt vex lotningin fyrir lögmálinu, náð spámannanna er kunngjörð, trú guðspjallanna grundvölluð, arfleifð postulanna viðhaldið og náð kirkjunnar stækkar af fögnuði.

 

Hryggðu ekki þessa náð og þá munt þú skilja þá hluti sem Orðið, þegar því býður svo við, miðlar fyrir munn þeirra er það hefur útvalið. Því allt sem hinn máttugi vilji Orðsins knýr okkur til að segja reynum við af mikilli alúð að deila með ykkur af kærleika til sannleikans sem hann hefur opinberað okkur.

 

12. Þegar þú horfist í augu við þennan sannleika og hlustar gaumgæfilega á hann, þá munt þú vita hvað það er sem Guð úthellir yfir þá sem vissulega elska hann. Þeir verða að sælu paradísar, að tré sem ber alls kyns ávexti og blómstrar í þeim sjálfum og er skreytt ýmsum aldinum. Því í þeim garði hafa verið plöntuð skilningstréð og lífsins tréð - því það er ekki skilningstréð sem veldur dauða heldur er það óhlýðnin sem er banvæn. Í ritningunni stendur skýrum stöfum að í upphafi hafi Guð plantað lífsins trénu og skilningstrénu í miðju aldingarðsins og sýnt þannig fram á að leið lífsins liggur í gegnum þekkinguna. Það er einungis vegna þess að fyrstu foreldrar okkar notuðu það með röngum hætti að þeir voru gerðir naktir og bjó þar lævísi höggormsins að baki. Án þekkingar er ekkert líf og án lífs þrífst engin heilbrigð þekking. Þess vegna var þessum tveimur trjám plantað hlið við hlið. Postulinn greinir þennan samtengingarmátt þegar hann segir þekkinguna blása menn upp en að kærleikurinn byggi upp. Þá var hann að ráðast gegn þeirri þekkingu sem er iðkuð án tillits til hinnar sönnu kenningar sem leiðir til lífs. Því sá maður er fávís sem telur sig vita hvað sem er án hinnar sönnu þekkingar er lífið styður. Höggormurinn hefur blekkt hann því hann geymir ekki lífið í hjarta sér. Aftur á móti getur sá gróðursett í voninni og vænst ávaxta sem samlagar ótta og þekkingu og leitar lífsins af fyllstu einlægni.

 

Lát hjarta þitt vera þekkingin og líf þitt vera hina sönnu skynsemi sem þú réttilega meðtekur. Ef þú annast tré þitt með þeim hætti og tínir ávexti þess munt þú ávallt njóta uppskeru sem er þóknanleg Guði og sem enginn höggormur fær snert eða blekking sýkt. Þá er Eva ekki lengur dregin á tálar heldur er traustið sett á meyju. Þá er frelsun boðuð og boðberar trúarinnar gæddir skilningi. Þá hefst píslarganga Drottins og árstíðir safnast saman og skipast á réttan hátt, og Orðið fagnar í uppfræðslu allra heilagra því fyrir það er Guð dýrlegur gerður.

 

Honum sé dýrðin um aldir alda. Amen.

 

(1) Talið er að bréfið sé frá því um eða eftir 120. Höfundur og viðtakandi eru óþekktir en nafnið Díógnetus þýðir "himinborinn" og hafa verið leiddar líkur að því að þetta sé heiðurstitill keisara og er þá Hadríanus (76-138) nefndur til sögunnar.

 

Þýðing © Reynir Guðmundsson 1999

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014