Bréf heilags Pólýkarpusar til Filippímanna

Frá Pólýkarpusi og prestum hans til kirkju Guðs sem dvelur í Filippí. Náð og friður sé með ykkur frá Guði almáttugum og Jesú Kristi frelsara okkar.

 

1. Það var mér tilefni mikils samfagnaðar með ykkur í Jesú Kristi að þið skylduð fagna þessum breytendum hins sanna kærleika (2) og nota tækifærið til að hjálpa þeim fram á leið. Hlekkirnir sem þeir báru voru tignarbönd dýrlinga því þeir voru markaðir menn og sannarlega valdir af Guði og Drottni okkar. Það er mér mikil huggun að sjá hversu rótföst trú ykkar, sem hefur gefið svo gott fordæmi frá fyrstu tíð, er enn í blóma og ber ávöxt fyrir Jesúm Krist. Hann sem gekk jafnvel svo langt að þola dauða fyrir syndir okkar. En Guð gerði hríðir heljar að engu og reisti hann upp aftur til lífs. Þótt þið lituð hann aldrei augum sjálfir, trúið þið á hann með slíkri dýrðargleði sem engin orð fá lýst (og sem margir myndu gjarnan vilja deila með ykkur) í fullvissu þess að það er fyrir náð hans sem þið frelsist, ekki af eigin rammleik heldur að vilja Guðs fyrir Jesúm Krist.

 

2. Verið því gyrtir um lendar og þjónið Guði af ótta og í sannleika. Látið allan hégóma og heimspekilegar hártoganir lönd og leið; setjið traust ykkar á hann sem reisti Drottin okkar Jesúm Krist upp frá dauðum og gaf honum dýrð og sæti sér á hægri hönd. Og allt á himni og á jörðu var honum gefið; allt það sem lifir lýtur honum; hann kemur til að dæma lifendur og dauða og blóðs hans mun Guð krefjast af hverjum þeim sem neitar hollustu við hann. Og hann sem reisti hann frá dauðum mun einnig reisa okkur upp ef við förum að vilja hans, höldum boðorð hans og höldum í heiðri það sem hann heldur í heiðri - það er að segja ef við gerum ekki öðrum rangt til, girnumst ekki það sem öðrum ber, erum ekki nískir, slúðrum ekki, höfum ekki í frammi ósannindi og höfum í huga það sem Drottinn kenndi: "Dæmið ekki, svo að þið verðið ekki dæmdir; fyrirgefið og ykkur mun fyrirgefið; verið miskunnsamir og þið munuð miskunnar njóta; með þeim mæli sem þið mælið, mun ykkur mælt verða" (sbr. Mt 7.1-2). Og ennfremur: "Sælir eru fátækir og þeir sem ofsóttir eru því þeir eru réttlættir þar sem þeirra er himnaríki" (sbr. Mt 5.3, 10).

 

3. Ekki hefði ég tekið það upp hjá sjálfum mér að skrifa ykkur á þessa leið um dyggðugt líferni, kæru bræður mínir, ef það hefði ekki verið samkvæmt ósk ykkar. Því hvorki er ég né neinn annar líkur mér fær um að fylgja speki hins sæla og dýrlega Páls. Þegar hann bjó meðal ykkar gaf hann mönnum þeirra tíma skýr og traust fyrirmæli um orð sannleikans meðan hann var í eigin persónu með þeim. Og jafnvel eftir að hann fór sendi hann bréf sem, ef þið lesið þau gaumgæfilega, mun gefa ykkur færi á að auðga trúna sem ykkur var gefin. Trúin er móðir okkar allra og vonin fylgir í farveg hennar og þar fyrir fer kærleikinn til Guðs og Krists og náungans. Eigi þetta allan huga mannsins hefur hann uppfyllt allar þær kröfur sem gerðar eru til heilagleika; því syndin nær ekki til hans sem hefur kærleikann í sér.

 

4. En alls konar vandræði hlýst af fégirnd. Því er það, að þar sem við vitum að "ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan" (1Tm 6.7) verðum við að íklæðast brynju ráðvendni og fyrsta skrefið er að aga okkur sjálfa til að við verðum samstíga hinum guðlegu boðorðum. Að því loknu getum við byrjað að leiðbeina kvenfólki okkar samkvæmt hefðum trúarinnar og í kærleika og hreinlyndi; kenna þeim að sýna eiginmönnum sínum blíðu og trúmennsku og öllum öðrum hreina og látlausa ástúð og ala börn sín upp í guðsótta. Ekkjur eiga að stunda trú Drottins okkar af háttvísi; þær eiga stöðugt að biðja hverjum og einum árnaðar og gæta þess að forðast slúðursögur, illgirnislegt blaður, rangar sakargiftir, fégræðgi eða ósæmilega hegðun af hverri gerð. Þær verða að gera sér það ljóst að þær eru altari Guðs (3) sem grannskoðar sérhverja fórnargjöf sem þar er lögð fram og fyrir honum fær ekkert dulist, engin hugsun þeirra eða ásetningur - hreint ekkert af innstu leyndarmálum þeirra.

 

5. Við vitum að "Guð lætur ekki að sér hæða" (Gl 6.7) og þar af leiðandi er það okkur fyrir bestu að hegða okkur til samræmis við dýrð hans og þau fyrirmæli sem hann setur. Á sama hátt mega djáknar ekki liggja undir ámæli frammi fyrir réttlæti hans. Þeir verða að minnast þess að þeir eru þjónar Guðs og Krists en ekki manna. Þeir mega ekki rægja náungann eða hagræða sannleikanum og ekki ánetjast fégirnd; þeir verða að vera menn sem haldnir eru fullkomnum sjálfsaga, vera mannúðlegir og iðjusamir, og lifa lífi sínu í sönnum anda Drottins sem var "þjónn allra" (Mk 9.35). Með því að þóknast honum í þessum heimi göngum við til hins komandi heims því við höfum fyrirheit hans um að hann muni reisa okkur upp frá dauðum. Og ef við sýnum fram á að við séum trúfastir þegnar hans hér, munum við ríkja með honum í því lífi sem framundan er, ef við varðveitum trú okkar. Á sama hátt og djáknarnir verða yngri menn okkar að vera flekklausir á allan hátt. Þeir verða fyrst og fremst að sýna hreinlyndi og hafa sterkt taumhald á allri tilhneigingu til lauslætis. Í þessum heimi gerir það okkur gott að hafna afdráttarlaust öllum holdlegum löngunum, vegna þess að "holdið girnist gegn Andanum" (Gl 5.17) og vegna þess að "hvorki munu saurlífismenn, hórkarlar né kynvillingar Guðs ríki erfa" (sbr. 1Kor 6.9) - eða nokkur annar sem ástundar spillt líferni. Skylda okkar er því sú að halda okkur fjarri öllu slíku og vera jafn hlýðnir prestum og djáknum og þar færu Guð og Kristur. Ekki er það síður mikilvægt að hegðun ungra meyja beri því vitni að samviska þeirra sé hrein og lýtalaus.

 

6. Hvað varðar prestana, verða þeir að vera menn mikillar samúðar og bera mikla umhyggju fyrir mannfólkinu. Það er þeirra hlutverk að kalla aftur þá sem eru villuráfandi, gæta þeirra sem eru lasburða og þeir verða að hlúa vel að ekkjum, munaðarlausum og þeim sem þurfandi eru. Umönnun þeirra á ávallt að vera eins og best verður á kosið fyrir augliti Guðs og manna. Þeir verða að varast af öllum mætti að sýna geðvonsku, hlutdrægni eða fordóma, og ásælni í peninga á að vera þeim framandi. Þeir mega ekki vera of auðtrúa á illsku neins manns og ekki vera of bráðir á sér með ávítur sínar, heldur ættu þeir að hafa í huga að allir erum við skuldugir vegna syndar. Ef við biðjum til Drottins um fyrirgefningu verðum við sjálfir að fyrirgefa; Drottinn og Guð okkar sér okkur og hver og einn verður að standa frammi fyrir dómarasæti Krists þar sem hver maður verður að skýra gjörðir sínar. Því skal öll þjónusta okkar við hann markast af þeim ótta og virðingu sem hann sjálfur lagði ríka áherslu á við okkur og í engu minna mæli en postularnir sem færðu okkur guðspjallið og spámennirnir sem sögðu fyrir um komu Drottins. Góðvild á að vera okkur hjartans mál og við eigum að gæta þess gaumgæfilega að særa engan og við eigum að hafna öllum samskiptum við þá bræður sem sigla undir fölsku flaggi og þá sem halda nafni Drottins á lofti af hræsni og vinna að því einu að leiða einfeldninga á villigötur.

 

7: "Að neita því að Jesús Kristur sé kominn í holdi er að vera Andkristur" (sbr. 1Jh 4.2-3). Að ganga gegn vitnisburði krossins er að vera af djöflinum. Og hann sem afbakar orð Drottins og lagar þau að eigin óskum og heldur því fram að ekki sé um að ræða upprisu eða dóm, er frumburður Satans. Forðumst allar þessar lágkúrulegu bábiljur og ósönnu kenningar og snúum aftur til Orðsins sem okkur var gefið í upphafi. Verum "gætnir og algáðir til bæna" (1Pt 4.7) og biðjum Guð sárlega og í fullri alvöru að "leiða okkur ekki í freistni" (Mt 6.13) því eins og Drottinn hefur sagt okkur: "Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt" (Mt 26.41).

 

8. Sleppum aldrei taki á honum sem er von okkar og fyrirheit um hjálpræði; ég á við Jesúm Krist sem "bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð; sem drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans" (1Pt 2.22, 24); sem staðfastlega leið allt fyrir okkur til að við mættum eiga líf í honum. Breytum eftir þessu mikla þolgæði hans, og þó svo við þjáumst fyrir nafn hans skulum við ekki fást um það heldur lofa hann. Því þetta er fordæmið sem hann gaf okkur í eigin persónu og sem við höfum lært að setja traust okkar á.

 

9. Ég biðla nú til sérhvers ykkar að heyra og hlýða kallinu til heilagleika og að iðka það fullkomna stöðuglyndi sem þið hafið með eigin augum séð þá gera hina sælu Ignatíus, Sósímus og Rúfus; og ekki aðeins þá heldur fjölmarga bæjarbúar ykkar - svo ekki sé minnst á Pál sjálfan og hina postulana. Þið getið verið fullvissir um að sú braut sem þessir menn lögðu á var ekki farin af lítilsvirðingu heldur af trúmennsku og kostgæfni og að þeir hafa náð að komast til Drottins eins og þeir verðskulda en í píslum hans áttu þeir hlutdeild. Ekki átti þessi heimur hugi þeirra heldur hann sem dó fyrir okkur og var reistur upp aftur af Guði.

 

10. Verið því staðfastir í þessum háttum og takið Drottin ykkur til fyrirmyndar. Verið ákveðnir og óbifanlegir í trú ykkar; annist hver annan með bróðurkærleika og verið sameinaðir í sannleikanum. Breytið eftir Drottni sjálfum í háttvísi ykkar og greiðið veg hver annars, teljið ykkur aldrei æðri neinum öðrum. Þegar þið hafið tök á, frestið aldrei að láta gott af ykkur leiða því að "miskunnarverk frelsa frá dauða" (Tb 12.9). Hver og einn á að virða rétt náunga síns til að heiðingjarnir fái ekkert tilefni til að gagnrýna líferni ykkar. Með því fáið þið ekki einungis umbun fyrir hið góða sem þið gerið heldur verður Drottni ekki sýnd vanvirðing. Sá á ógæfu yfir höfði sem vanvirðir Drottin. Leiðið því öllum það fyrir sjónir að þeir eigi að vera jafn grandvarir og skynsamir og þið sjálfir eruð.

 

11. Ég ber hryggð í brjósti vegna Valensar, sem um tíma var einn presta ykkar, að hann skildi bera svo lítið skynbragð á embættið sem honum var gefið. Það fær mig til að vara ykkur í fullri hreinskilni við takmarkalausri þrá eftir peningum og ég fer fram á það að þið sýnið ráðvendni og heiðarleika í hvívetna. Þið megið undir engum kringumstæðum liggja undir hinu minnsta ámæli. Ef einhver getur ekki haft stjórn á sjálfum sér í þess konar málum, hvernig á hann þá að geta predikað það öðrum? Ef honum tekst ekki að yfirvinna fégræðgi mun hann spillast af því sem hann þá ánetjast og setjast á bekk með heiðingjunum sem hafa enga þekkingu á dómi Guðs: "Eða vitum vér ekki," eins og Páll kennir okkur "að hinir heilögu eiga að dæma heiminn?" (1Kor 6.2) (Ég segi ekki að ég hafi séð eða heyrt nokkuð þvílíkt meðal ykkar - ykkar sem hinn sæli Páll erfiðaði á meðal og voruð "bréf" (sbr. 2Kor 3.2) hans á þeim dögum. Hann hreykti sér af ykkur í öllum þeim kirkjum sem einar þekktu Guð þá, á þeim tíma áður en við sjálfir höfðum öðlast þekkingu á honum.) Þessi maður og eiginkona hans hafa mína dýpstu samúð. Megi þau iðrast fullkomlega með Guðs hjálp. Þið megið ekki heldur vera of harðir við þau því ekki má líta á slíkt fólk sem óvini. Þið verðið að koma þeim til fyrri vegar; eða eins og þið mynduð gera við limi ykkar eigin persónu færi þeim hnignandi og gerðu óréttmæta hluti, til að allur líkaminn haldist heilbrigður. Gerið þetta og þið munuð jafnframt viðhalda ykkar eigin andlegu velferð.

 

12. Ekki efa ég það að þið þekkið vel til heilagrar ritningar og að ekki sé hún ykkur sem lokuð bók (sem er meira en sagt verður um mig). Nema hvað þar segir: "ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar" (Ef 4.26). Sá maður er sæll sem hefur þetta í huga og ég er þess fullviss að þetta á við ykkur. Megi Guð og Faðir Drottins okkar Jesú Krists og hinn eilífi æðsti prestur, Jesús Kristur sjálfur, Sonur Guðs, hjálpa ykkur að þroskast í trú og sannleika, í staðfastri mildi og geðprýði, langlundargeði og umburðarlyndi og í rólyndi og hreinleika. Megi hann gefa ykkur hlutdeild í lífi dýrlinga sinna sem og okkur og öllum þeim sem á jörðu eru og koma til með að trúa á Drottin okkar og Guð Jesúm Krist og á Föður hans sem reisti hann frá dauðum.

 

Biðjið fyrir öllum börnum Guðs. Biðjið einnig fyrir þjóðhöfðingjum okkar og fyrir öllum landsstjórum og yfirvöldum. Biðjið fyrir hverjum þeim sem hefur ofsótt ykkur eða lagt fæð á ykkur; og einnig fyrir óvinum krossins. Þannig verður ávöxtur trúar ykkar öllum augljós og ykkur mun verða fullkomnunar auðið í honum.

 

13. Bæði þið og Ignatíus hafið skrifað mér og spurt mig hvort nokkur væri á leið til Sýrlands sem gæti borið bréf ykkar þangað með okkar. Ég skal sjá til þess að þetta verði gert; ef til vill geri ég það sjálfur ef heppilegt tækifæri gefst eða þá að einhver annar fer sem verður fulltrúi okkar beggja. Ég sendi ykkur bréf Ignatíusar eins og þið fóruð fram á; þau sem hann sendi okkur og nokkur önnur sem við höfðum í vörslu okkar. Þau eru hér hjálögð. Það gerir ykkur mikið gott að lesa þau vegna þess að þau segja ykkur allt um trúna og um þolgæði og um allar leiðir til að betrumbæta sig í þjónustu við Drottin. Og ef þig fáið einhverjar áþreifanlegar fregnir af Ignatíusi og félögum hans, þá látið okkur vita.

 

14. Það er Kreskes sem ber ykkur þetta bréf. Ég mælti með honum við ykkur fyrir nokkru og ég endurtek meðmælin aftur. Framkoma hans hérna er hafin yfir alla gagnrýni og ég treysti því að þið verðið þess sama áskynja. Meðmæli fylgja einnig systur hans þegar hún kemur til ykkar.

 

Bið að heilsa ykkur og öllu samstarfsfólki ykkar í náð Drottins Jesú Krists.

 

________________________________________________________________________

 

(1) Heilagur Pólýkarpus var skipaður biskup í Smýrnu af Jóhannesi postula. Sjá Tertúllíanus, "De Praescriptione haereticorum," 32.2; Íreneus, "Adv. Haer.", 3.3,4.

 

(2) Þ. e. heilögum Ignatíusi og samföngum hans sem fóru um Filippí á leið sinni til Rómar.

 

(3) Ekkjur fengu viðurværi sitt af fórnargjöfum hinna trúuðu.

 

Þýðing © Reynir Guðmundsson 1999

 

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014