Bréf heilags Klemens páfa til Korintumanna

Frá kirkju Guðs sem dvelur í Róm, til kirkju Guðs sem dvelur í Korintu og er kölluð og helguð af vilja Guðs fyrir Drottin okkar Jesúm Krist. Megi náð og friður frá almáttugum Guði flæða af gnægð yfir ykkur fyrir Jesúm Krist.

 

1. Vegna þeirrar skyndilegu ógæfu og hörmungar sem yfir okkur hefur gengið3 höfum við, kæru vinir, ekki sinnt sem skyldi því ófriðarástandi sem ríkt hefur í samfélagi ykkar. Við höfum sérstaklega í huga hinn andstyggilega og óguðlega klofning meðal ykkar sem er algjörlega ósamboðinn Guðs útvalda lýð. Og þeir eru einungis fáeinir bráðlyndir og fljótfærir einstaklingar sem hafa gert málið að slíku ófriðarbáli að ykkar heiðraða og nafntogaða nafn, sem svo ríkulega verðskuldar aðdáun allra, hefur beðið hnekki.

 

Þeir voru tímar að það fór ekki framhjá neinum sem heimsótti ykkur hve trú ykkar var framúrskarandi og staðföst. Eða komst nokkur hjá því að dásama umburðarlynda og óeigingjarna guðrækni ykkar? Eða segja frá stórkostlegri gestrisni ykkar? Eða hrósa ykkur fyrir góða og sanna þekkingu? Það var venja ykkar að gera alla hluti án þess að huga að stöðu ykkar í lífinu. Þið lifðuð samkvæmt lögmáli Guðs, þið voruð þeim undirgefnir sem yfir ykkur voru settir4 og virtuð öldungana. Ungum karlmönnum var leiðbeint við að iðka sjálfsstjórn og sýna stillingu og konum var boðið að rækja skyldur sínar af óaðfinnanlegri guðrækni og hreinu hjarta og sýna eiginmönnum sínum ástúð; þeim var einnig kennt að gera hlýðni að lífsreglu og halda heimili á tilhlýðilegan og forsjálan hátt.

 

2. Ennfremur var auðmýkt ráðandi í fari ykkar og þið voruð algjörlega lausir við hroka; þið voruð hlýðnir en kröfðust ekki hlýðni og ykkur var sælla að gefa en þiggja. Ykkur nægði það sem Kristur gaf ykkur á lífsgöngunni, þið fóruð í einu og öllu eftir orðum hans, geymduð þau í hjarta ykkar og höfðuð þjáningar hans stöðugt fyrir augum. Fyrir það uppskáruð þið mikinn og djúpan frið, óseðjandi löngun til að láta gott af ykkur leiða og ríkulega úthellingu Heilags Anda. Þið leituðuð fullir löngunar eftir heilagleika og ef þið drýgðuð synd óviljandi, þá lyftuð þið auðmjúkir og af einlægu trausti höndum til Guðs almáttugs og sárbænduð hann að sýna ykkur miskunn. Dag og nótt unnuð þið, hver í kapp við annan, í þágu alls hins bróðurlega samfélags til að allur lýður hans mætti öðlast sáluhjálp vegna miskunnar hans og meðaumkunar. Þið voruð einlægir og heiðarlegir og báruð enga illgirni í brjósti. Þið höfðuð andstyggð á hvers konar óhlýðni eða klofningi. Þið grétuð yfir yfirsjónum náunga ykkar og lituð á mistök hans sem ykkar. Ekki tölduð þið það eftir ykkur að gera góða hluti; þið voruð ávallt "reiðubúnir að gera sérhvert góðverk." Í fegurð hins hreina og heiðvirða lífernis uppfylltuð þið skyldur ykkar í guðsótta, og lög og fyrirmæli Drottins voru rituð ykkur í hjartastað.

 

3. En þegar ykkur var það gefið að njóta sannmælis og auka tölu ykkar, rættist það sem segir í Ritningunni: "Minn elskaði át og drakk, hann óx og gerðist feitur og kiknaði." Þetta olli öfund og afbrýðisemi, átökum og deilum, yfirgangi og upplausn, ryskingum og mannránum. Lítilmótlegir menn risu upp gegn sér betri mönnum. Skríllinn gegn þeim sem virðingar nutu, heimska gegn visku og æska gegn öldungum. Og nú ríkir ekki lengur réttlæti og friður meðal ykkar því allir hafa varpað af sér guðsóttanum og myrkvað trúarsýn sína. Í stað þess að fylgja boðorðum Guðs og lifa eins og hæfir þegnum Krists, eltist hver og einn við langanir syndsamlegs hjarta síns. Allir hafa þeir horfið til þeirrar andstyggðar sem öfundin er, en það var hún sem varð til þess að "dauðinn kom í heiminn".

 

4. Því þannig segir í Ritningunni: "Er fram liðu stundir, færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra. Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur. Þá mælti Drottinn til Kains: "Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur? Er því ekki þannig farið. Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?" Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: "Göngum út á akurinn!" Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann." Þið sjáið þannig, kæru vinir, hvernig öfund og afbrýðisemi stuðlaði að bróðurmorði. Afbrýðisemi var einnig ástæða þess að faðir okkar, Jakob, flýði úr návist bróður síns, Esaú. Aftur var það afbrýðisemi sem olli því að Jósef varð nær dauðanum að bráð og var hnepptur í þrældóm. Vegna afbrýðisemi varð Móse að flýja Faraó, Egyptalandskonung, eftir að einn samlanda hans sagði við hann: "Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur? Er þér í hug að drepa mig eins og þú drapst Egyptann í gærdag?" Aron og Mirjam voru afbrýðisöm og fyrir það voru þau rekin úr herbúðunum. Afbrýðissemi olli því að Datan og Abíram féllu lifandi niður til heljar eftir að hafa efnt til uppreisnar gegn Móse, þjóni Guðs. Vegna afbrýðisemi var Davíð ekki einungis öfundaður af útlendingum heldur var hann jafnvel ofsóttur af Sál, konungi Ísraels.

 

5. Við skulum víkja frá þessum fornu tilvikum og fjalla um sumar af hetjum síðari tíma. Gætið að göfugri fyrirmynd okkar eigin kynslóðar. Það var vegna öfundar og afbrýðisemi að jafnvel hinir mestu og helgustu máttarstólpar kirkju okkar voru ofsóttir og urðu að berjast baráttunni góðu þar til dauðinn batt enda á daga þeirra. Lítið á hina góðu postula. Það var vegna óguðlegrar afbrýði að Pétur varð að þola þrengingar og ekki einu sinni eða tvisvar heldur mörgum sinnum. Með þeim hætti bar hann vitni áður en hann hlaut dýrðina sem hann verðskuldaði réttilega. Og það er vegna afbrýðisemi og þrætna að Páll sýnir fram á hvernig eigi að öðlast óendanlegt þolgæði. Hann var settur í fjötra sjö sinnum, hann var sendur í útlegð og hann var grýttur. Hann predikaði í austur- og vesturvegi og ávann sér göfugan orðstír fyrir trú sína. Hann kenndi öllum heiminum hvernig bæri að lifa samkvæmt réttlætinu. Og eftir að hafa náð til endimarka í vestri5 og eftir að hafa fært konungum og höfðingjum vitnisburð sinn, lauk hann jarðneskum störfum sínum og var tekinn til hinna heilögu salarkynna. Hjá Páli finnum við eitt af allra bestu dæmum um óendanlegt þolgæði.

 

6. Auk þessara manna sem stunduðu heilagt líferni hafa margir fleiri hinna útvöldu orðið að þola þrengingar og kvalir vegna afbrýðisemi annarra en með því hafa þeir gefið okkur gott fordæmi til að fara eftir. Afbrýðisemi olli því að konur voru ofsóttar og látnar ganga í gegnum hræðilegar og djöfullegar pyndingar sem væru þær Danaids og Dircae.6En þótt þær væru ekki sterkbyggðar náðu þær settu marki í trúarbaráttu sinni og öðluðust göfug laun sín. Afbrýðisemi hefur valdið slitum hjá hjónum og þannig afbakað það sem faðir okkar Adam sagði: "Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi." Öfund og afbrýði hafa valdið því að miklar borgir hafa hrunið og að máttugar þjóðir hafa flosnað upp.

 

7. Nú er það svo, kæru vinir, að allt sem hér er sagt þjónar ekki einvörðungu sem áminning til ykkar heldur er það einnig viðvörun til okkar sjálfra. Vettvangur okkar er hinn sami og við verðum að horfast í augu við sama ágreining. Við eigum að hverfa frá þessum innihaldslausu og fánýtu hugarórum og snúa okkur þess í stað að þeirri heiðvirðu og heilögu reglu sem við höfum fengið í arf. Þannig komumst við að raun um hvað í augum skapara okkar er gott, ánægjulegt og viðurkennt. Beinum huganum að blóði Krists. Hugleiðum hversu dýrmætt þetta blóð er í augum Föður hans því úthelling þess var okkur til hjálpræðis og hefur opnað öllum mönnum leið til iðrunar. Við þurfum ekki annað en að líta til liðinna kynslóða til að sjá að hverjum og einasta þeirra hefur Drottinn gefið tækifæri til að iðrast, hverjum og einum sem var reiðubúinn til þess, reiðubúinn að snúa sér til hans. Þegar Nói boðaði iðrun var þeim bjargað sem hlustuðu á hann. Eftir að Jónas hafði boðað íbúum Níníve eyðingu borgarinnar, iðruðust þeir synda sinna og bættu fyrir þær með bænum og bænaáköllum. Þannig öðluðust þeir sáluhjálp jafnvel þótt þeir væru ekki Guðs útvalda þjóð.

 

8. Allir þjónar náðar Guðs hafa boðað iðrun með rödd Heilags Anda. Meira að segja Drottinn sjálfur hefur talað um nauðsyn hennar og borið jafnvel eið að því: "Eins og ég sannarlega lifi, segir Drottinn, þá er það ekki dauði syndarans sem ég þrái, ég þrái iðrun hans." Og síðan segir hann svo undursamlega: "Iðrastu, ó þú Ísraels hús, og snú af vegi illsku þinnar. Segðu við börn lýðs míns. Séu syndir ykkar himinháar og séu þær rauðari en skarlat og svartari en hærusekkur en þið snúið ykkur til mín af öllu hjarta og segið "Faðir" þá mun ég hlusta á ykkur eins og ég hlusta á hina heilögu." Og á öðrum stað segir hann: "Þvoið ykkur, hreinsið ykkur. Takið illskubreytni ykkar í burt frá augum mínum. Látið af að gjöra illt, lærið gott að gjöra! Leitið þess sem rétt er. Hjálpið þeim sem fyrir ofríki verður. Rekið réttar hins munaðarlausa. Verjið málefni ekkjunnar. Komið, eigumst lög við! - segir Drottinn. Þó að syndir ykkar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri, skulu þær verða sem ull. Ef þið eruð auðsveipir og hlýðnir, þá skuluð þið njóta landsins gæða, en ef þið færist undan því og þverskallist, þá skuluð þið verða sverði bitnir. Munnur Drottins hefur talað það." Þannig hefur Drottinn talað og staðfest sinn almáttuga vilja að iðrun standi öllum hans elskuðu til boða.

 

9. Lútum því hans mikla og dýrlega vilja. Leitum mildi hans og gæsku. Beygjum kné okkar fyrir honum. Sárbiðjum um miskunn hans og hættum að sóa kröftum okkar í þrætur og meting sem einungis endar í dauða. Minnumst þeirra sem hafa þjónað mikilli dýrð hans með fullkomnum hætti. Tökum Enok sem dæmi. Fyrir hlýðni sína var hann réttlættur og þannig var hann burt numinn án þess að líta dauðann. Nói reyndist trúr í helgiþjónustu sinni og predikaði endurfæðingu heimsins. Og fyrir hann varðveitti Guð dýrin sem fóru einum huga í örkina.

 

10. Abraham sem kallaður var "Guðs vinur" sýndi tryggð sína með því að hlýða rödd Guðs. Það var fyrir hlýðni sakir að hann fór burt úr landi sínu og frá ættfólki sínu og úr húsi föður síns. Hann yfirgaf rýrt landið, máttvana ættmenni og fátæklegt heimili til að erfa fyrirheiti Guðs því orðin sem Guð mælti til hans voru: "Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á. Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera. Ég mun blessa þá sem þig blessa, en bölva þeim sem þér formælir og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta." Og seinna þegar hann skildi við Lot sagði Guð við hann: "Hef þú upp augu þín og litast um frá þeim stað sem þú ert á, til norðurs, suðurs, austurs og vesturs. Því að allt landið sem þú sérð, mun ég gefa þér og niðjum þínum ævinlega. Og ég mun gjöra niðja þína sem duft jarðar svo að geti nokkur talið duft jarðarinnar, þá skulu einnig niðjar þínir verða taldir." Og nokkru síðar segir: "Guð leiddi Abraham út og mælti. Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar ef þú getur talið þær; því svo margir skulu niðjar þínir verða. Og Abraham trúði Drottni og það var reiknað honum til réttlætis." Það var einnig vegna trúar hans og gestrisni að honum var sonur gefinn á gamals aldri, sonur sem hann af hlýðni gaf til fórnar Guði á fjalli því sem hann hafði sagt honum.

 

11. Þegar allt sléttlendið sem umlukti Sódómu var dæmt til að verða eldi og brennisteini að bráð var Lot bjargað vegna guðrækni sinnar og gestrisni.7 Þannig gerði Drottinn það ljóst að hann yfirgefur aldrei þá sem setja von sína á hann, en lætur þá sæta refsingu og þola kvöl sem breyta með öðrum hætti. Sem dæmi um þetta má nefna konu Lots sem flúði með honum en snerist hugur og leit við að baki honum og varð að saltstöpli sem stendur allt til þessa dags. Þetta var gert til að allir menn mættu skilja að þeir sem efa og tortryggja mátt Guðs, kalla yfir sig dóm til áminningar komandi kynslóðum.

 

12. Portkonan Rahab gat þakkað trú sinni og gestrisni að hún bjargaðist. Þegar Jósúa Núnsson sendi njósnarmenn sína til Jeríkó komst konungurinn þar að því að þeir höfðu komið að kanna land hans. Hann sendi menn til að leita þá uppi og handtaka þá og lífláta. En Rahab var gestrisin og veitti þeim skjól. Hún faldi þá á loftinu undir hörjurtarleggjum. Þegar menn konungs komu sögðu þeir: "Njósnarmennirnir sem eru að kanna land okkar komu hér í hús þitt. Sel þá fram því svo skipar konungurinn." "Satt er það," svaraði hún, "mennirnir sem þið leitið komu til mín en þeir stöldruðu stutt við. Þeir héldu sem leið liggur," sagði hún og benti í gagnstæða átt. Seinna sagði hún við hina: "Ég veit að Drottinn hefur gefið ykkur land okkar og að ótti hefur gripið um sig meðal landsbúanna sem skelfast ykkur; en þegar sá tími kemur að þið takið landið þá bið ég ykkur að sýna mér og húsi föður míns miskunn". Þeir svöruðu: "Það skal vera eins og þú biður um. Þegar þú heyrir um komu okkar skaltu kalla allt heimilisfólk þitt saman undir eitt þak og þá verða þeir hólpnir. En finnist einhver þeirra utandyra, þá skal hann deyja." Þeir gáfu henni ennfremur tákn. Hún átti að binda rauða festi út um gluggann. Með því gáfu þeir til kynna að allir þeir sem trúa og vona á Guð munu endurleystir verða fyrir blóð Drottins. (Takið eftir, kæru vinir, að í þessari konu var ekki einungis trú að finna heldur einnig spásögn um það sem koma skal).

 

13. Mínir elskulegu bræður, sýnum auðmýkt. Látum af hroka og drambsemi og heimskulegum deilum og förum þess í stað eftir því sem skrifað stendur (því Heilagur Andi segir: "Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum. Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því að hann þekki Drottin því þannig mun hann leita hans og gera rétt og auðsýna réttlæti"). Minnumst þess sérstaklega hvað Drottinn Jesús Kristur sagði í einni ræðu sinni um mildi og umburðarlyndi: "Verið miskunnsamir, sagði hann, til að þið megið miskunn hljóta; fyrirgefið til að ykkur verði fyrirgefið. Það sem þið gjörið, verður ykkur gjört; það sem þið gefið verður ykkur gefið; svo sem þið dæmið munuð þið dæmdir; góðvild verður ykkur sýnd eins og þið sýnið hana. Sem þið mælið mun ykkur mælt verða." Megi slíkar lífsreglur og boð styrkja ásetning okkar að vera hlýðin heilögum orðum hans með allri auðmýkt andans, því þannig segir hið helga orð: "Á hverjum á ég að hafa velþóknun ef ekki honum sem er hógvær og friðelskur og skelfur fyrir orði mínu?"

 

14. Vissulega er það réttara og lotningarfyllra af okkur, bræður mínir, að hlýða Guði en að fylgja þeim sem eru svo forhertir í óhlýðni sinni að þeir hafa hafið sig til forystu í þessari andstyggilegu togstreitu. Þar höfum við sannarlega enga smávægilega hættu á ferð því okkar bíður dauðans háski ef við af vanhugsuðu ráði förum að dæmi þeirra sem efnt hafa til átaka og hafa í frammi uppreisnaráróður í því skyni að leiða okkur af hinni réttu braut. Við ættum þess í stað að ástunda það að sýna hver öðrum vinsemd og gera það með sama unaðslega anda og skapari okkar. Svo stendur skrifað: "Hinir góðhjörtuðu munu byggja landið og hinir saklausu munu þar dveljast, en hinir syndugu munu þaðan upprættir verða." Og aftur segir: "Ég sá hinn óguðlega rísa hátt og rjúka upp eins og sedrustrén á Líbanon. En sjá, þegar ég fór þar um aftur var hann farinn og þegar ég leitaði að dvalarstað hans, fann ég hann hvergi. Verið heiðvirðir og beinið sjónum ykkar að því sem rétt er, því sá sem er maður friðar mun geta sér niðja sem munu fylgja honum."

 

15. Við skulum þess vegna komast til einingar við þá sem vinna að friði af sannri einlægni en ekki þá sem einungis hafa hann á vörum sér. Því á einum stað segir: "Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Og aftur segir. Þeir blessa með munninum en bölva í hjartanu." Einnig segir: "Þeir beittu við hann fagurgala með munni sínum og lugu að honum með tungum sínum. En hjarta þeirra var eigi stöðugt gagnvart honum, og þeir voru eigi trúir sáttmála hans." Og lát þess vegna "lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum." Ennfremur segir: "Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð, þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?" "Sakir kúgunar hins hrjáða, sakir andvarpa hins fátæka vil ég nú rísa upp," segir Drottinn: "Ég vil veita honum athvarf og verja hann af einurð"."

 

16. Kristur tilheyrir þeim sem eru auðmjúkir í hjarta en ekki þeim sem eru líklegir til að upphefja sig yfir hjörð hans. Drottinn okkar Jesús Kristur, sproti hátignar Guðs, kom ekki til okkar með pomp og prakt eða fullur stærilætis þrátt fyrir allt veldi sitt. Hann lítillætti sig þegar hann kom eins og Heilagur Andi hafði sagt um hann. Hann sagði: "Drottinn, hver hefur trúað því sem við höfum boðað og hverjum varð armleggur Drottins opinber? Því við kunngjörðum fyrir augliti Drottins að hann líktist ósjálfbjarga barni eða rótarkvisti úr þurri jörð; að hann væri hvorki álitlegur né glæsilegur á að líta. Við sáum hann og ekki var hann fagur svo að okkur fyndist til um hann. Ásýnd hans var smánarleg og visin í samanburði við aðra menn. Hann var hlaðinn kaunum og þrautir settu mark sitt á hann; hann þekkti þjáningar. Hann byrgði fyrir andlit sitt, fyrirlitinn og einskis metinn. Engu að síður er hann sá er ber syndir okkar og þjáist af þeim sökum. Við álitum hann refsaðan, sleginn og lítillættan, en hann var særður vegna synda okkar og kraminn vegna misgjörða okkar. Hegningin, sem við höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum við heilbrigðir. Við fórum allir villir vegar sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð okkar allra koma niður á honum. Hann var hrjáður en lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum. Hann var niðurlægður samkvæmt dómi og hann var burt numinn. Hver af samtíðarmönnum hans hugsaði um það? Hann var hrifinn burt af landi lifenda. Fyrir sakir syndar míns lýðs var hann lostinn til dauða. Og ég mun færa fram illræðismenn fyrir að hafa búið honum gröf og ríka menn fyrir að hafa deytt hann því ekkert ranglæti framdi hann og engin svik voru í munni hans. Það er áform Drottins að losa hann úr harmkvælum hans. Og ef þú færir fram fórn fyrir syndir þínar mun sál þín fá að líta afsprengi þín lifa langa ævi. Það er áform Drottins að taka burt þær hörmungar er sál hans þoldi, sýna honum ljós og seðja hann skilningi og láta menn læra að þekkja hann sem réttlátan mann og góðan þjón þeirra mörgu sem hann mun í eigin persónu bera misgjörðir fyrir. Fyrir því gef ég honum hina mörgu að hlutskipti og hann mun öðlast hina voldugu að herfangi fyrir það að hann gaf líf sitt í dauðann og var með illræðismönnum talinn. Hann bar syndir margra og var framseldur fyrir syndir þeirra." Á öðrum stað segir einnig: "Ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum. Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið. Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum, hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum." Þið sjáið þannig, kæru vinir, hvers konar fordæmi okkur hefur verið gefið. Ef Drottinn lítillætti sig með þessum hætti, hvað eigum við að gera sem fyrir hann höfum orðið aðnjótandi náðar hans?

 

17. Við skulum breyta eftir dæmi þeirra sem "fóru um í gærum og geitskinnum" og boðuðu hástöfum komu Messíasar, það er að segja, þeirra Elía, Elísa og Esekíels meðal spámannanna auk annarra frægra manna sem vert væri að nefna. Tökum sem dæmi Abraham, en margir báru vitni um kosti hans. Þótt hann væri nefndur Guðs vinur þá segir hann engu að síður þegar hann sér hátign Guðs: "Ég er duft eitt og aska." Ennfremur er skrifað um Job: "Job var maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar í öllu." En einnig hann ásakar sjálfan sig með þessum orðum: "Enginn er hreinn af óhreinindum, jafnvel þótt líf hans takmarkist við einn dag." Móse var sagður "trúr í öllu Guðs húsi" og fyrir þjónustu hans lét Guð plágur og harðræði ganga yfir Egypta þeim til dóms. En jafnvel hann sem var slíks heiðurs aðnjótandi var ekki gefinn fyrir stór orð. Hann sagði einungis þegar hann fékk köllunina í þyrnirunnanum: "Hver er ég að þú skulir senda mig? Mér er trekt um málfæri og tungutak." Og öðru sinni segir hann: "Ég er lítið annað en reykur úr keri."

 

18. Og hvað getum við sagt um nafntogaðan mann sem Davíð? Guð sagði þetta um hann: "Ég hef fundið Davíð, son Ísaí, mann eftir mínu hjarta; hann hef ég smurt eilífri náð minni." En þrátt fyrir það ávarpar hann Guð með þessum hætti: "Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi. Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni, því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum. Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir. Sjá, sekur var ég er ég varð til, syndugur er móðir mín fæddi mig. Sjá, þú hefur þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku! Hreinsa mig með ísóp svo að ég verði hreinn, þvo mig svo að ég verði hvítari en mjöll. Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefur sundurmarið. Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar. Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér. Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda, að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín. Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu. Drottinn, opna varir mínar svo að munnur minn kunngjöri lof þitt! Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum - annars mundi ég láta þær í té - og að brennifórnum er þér ekkert yndi. Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta."

 

19. Hógværð og lítillæti allra þessara frægu manna hefur ekki einungis orðið okkur til hjálpar heldur einnig kynslóðum forfeðra okkar og raunar öllum þeim sem hafa móttekið orð Guðs í ótta og sannleika. Við eigum þannig okkur til ávinnings sameiginlegan arf mikilla og dýrlegra fordæma. Förum því hratt að þeirri friðsæld sem okkur var gefið að stefna að í upphafi. Við skulum snúa ásjón okkar að Föðurnum og skapara alheimsins og þegar við íhugum hversu dýrmætar og óviðjafnanlegar friðargjafir hans eru þá skulum við sjálfir umfaðma þær og gera það af ákefð. Geymum hann í huga okkar og lítum með augum sálarinnar á óendanlegt umburðarlyndi hans. Tökum eftir hversu mildur hann er gagnvart allri sköpun sinni.

 

20. Himnarnir hreyfast samkvæmt stjórn hans og lúta honum af spekt. Dagur og nótt renna það skeið sem hann hefur sett þeim og hvorugt truflar hitt. Í samræmi við skipan hans halda sólin, máninn og stjörnukórinn stefnu sinni og enginn víkur af tilsettri braut. Jörðin ber ávöxt samkvæmt vilja hans þegar rétt árstíð kemur og uppsker næga fæðu fyrir menn og dýr og allt það sem á henni nærist og hún reynir ekki að haga sér með öðrum hætti en hann hefur mælt fyrir um. Samskonar lögmál gildir um hin botnlausu undirdjúp og ókönnuðu lönd undirheimanna. Hið óendanlega djúphafsflæmi sem hann fastmótaði til að geyma vötnin, rýfur ekki þá marklínu sem dregin hefur verið um það. Það gerir eins og hann bauð því þegar hann sagði: "Hér eru þín endimörk og öldur þínar skulu brotna hið innra með þér." Úthafið sem er illfært manninum og löndin sem liggja handan þess, stjórnast af sömu tilhögun Drottins. Vor, sumar, haust og vetur taka hvert við af öðru án átaka. Vindarnir sem eiga sér heimkynni hver á sínum stað rækja skyldur sínar á réttum tíma og án röskunar. Og rennandi uppspretturnar sem skapaðar voru okkur til ánægju og heilbrigðis, bjóða fram barmfylli sína til að viðhalda lífi mannanna. Jafnvel það smæsta sem lifir, blandast saman af mestu friðsemd. Öllu þessu hefur hinn mikli hönnuður og Drottinn alheimsins gefið frið og samlyndi og gert það öllum til góðs en þó umfram allt okkur sem höfum leitað athvarfs í miskunn hans fyrir Drottin okkar Jesúm Krist. Hans sé dýrðin og tignin um aldir alda, amen.

 

21. Gætið því að ykkur, vinir mínir, af ótta við að ef okkur mistekst að sýna breytni sem er honum samboðin og að gera það sem er gott og honum hugljúft, þá muni allur velgjörningur hans snúast okkur til bölvunar. En einhvers staðar stendur: "Andi Drottins er lampi sem rannsakar hvern afkima hjartans." Við skulum því hafa það hugfast hversu nálægur hann er okkur og minnast þess að ekki ein einasta hugsun okkar eða ráðagerð er honum hulin. Það eina rétta sem við gerum er því ekki að flýja vilja hans (í stað þess að standa gegn Guði ættum við að standa gegn heimsku og fávisku þessara drambsömu manna og hávaðasömum mont-ræðum þeirra), heldur að beygja okkur í virðingu fyrir Drottni Jesú Kristi en það var blóð hans sem var úthellt fyrir okkur. Við skulum því sýna stjórnarherrum okkar háttvísi, heiðra öldunga okkar og venja unga fólkið á að lifa í guðsótta. Beinum kvenfólki okkar á braut góðra siða og kennum því að sýna fordæmi í ástúð og hreinleika, einlægni og góðlegu innræti. Látum það sýna að með því að virða þögnina hafi það taum á tungu sinni. Hjálpum því að sýna kærleika sinn með óhlutdrægum hætti, að það sýni hann jafnt öllum þeim sem óttast Drottinn í heilagleika. Sjáið til þess að börnin okkar fái kristilega uppfræðslu. Látið þau komast að raun um hversu miklu auðmjúk sál fær áorkað hjá Guði, hversu kröftuglega hrein og saklaus ást nær eyrum Guðs, hversu mikilfenglegt og gott það er að óttast hann og hvernig það veitir öllum þeim hjálpræði sem gera það með heilögu og hreinu hjarta. Því hann er rannsakandi hugrenninga okkar og langana. Hann er lífsandinn sem dvelur í okkur og ef honum svo sýnist tekur hann hann burtu frá okkur.

 

22. Við fáum öll þessi fyrirheit staðfest ef við trúum á Krist því það er hann sjálfur sem kallar á okkur fyrir Heilagan Anda sinn með þessum orðum: "Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna ykkur ótta Drottins. Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar, þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali, forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann. Augu Drottins hvíla á réttlátum og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra. Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni. Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá." Og: "Mörg högg bíða syndugs manns, en miskunn umlykur þann er treystir Drottni."

 

23. Hinn algóði og miskunnsami Faðir lítur alla þá mildum augum sem óttast hann. Þeir sem nálægjast hann með einlægu hjarta veitist náðarsamleg hylli. Forðumst því tvílyndi og ölum ekki á innri efa um mikilfenglegar og dýrlegar gjafir hans. Megi þessi skrifuðu orð vera okkur framandi: "Hversu aumir eru ekki hinir óráðnu og þeir sem eru efagjarnir í hjarta sér, þeir sem segja: Jafnvel á dögum feðra okkar heyrðum við um þessa hluti; en sjá, nú erum við aldraðir og ekkert af þessu hefur hent okkur. Þið fávísu menn! Líkið ykkur við tré. Lítið á vínviðinn. Fyrst fellir hann laufin, þá brumar hann og lauf kemur og seinna blóm og eftir það græn og súr vínber og að lokum fullþroska berjaklasi." Takið eftir hversu stuttan tíma það tekur fyrir ávöxtinn að fullþroskast. Sannarlega mun vilji hans verða uppfylltur með jafn skjótum og snöggum hætti. Eins og raunar Ritningin staðfestir þegar hún segir: "Sannarlega kemur hann skyndilega, hann mun ekkert dvelja." Og aftur: "Drottinn hinn Heilagi sem þú væntir mun koma fyrirvaralaust til musteris síns."

 

24. Íhugum það, kæru vinir, hvernig Drottinn er stöðugt að beina sjónum okkar að upprisunni sem er á næsta leiti og hefur Jesúm Krist að frumávexti með því að hann reisti hann upp frá dauðum. Mínir elskuðu, lítið á upprisuna sem við höfum stöðugt fyrir augum. Dagur og nótt sýna okkur fram á upprisu: Nóttin gengur til náðar og dagur rennur upp. Dagurinn fer og nóttin leggst aftur yfir. Lítum á uppskeruna. Hvernig og með hvaða hætti verður jarðargróður til? Sáðmaðurinn fer út og sáir fræjum í jarðveginn. Þegar fræið fellur til jarðar er það bert og það skrælnar og leysist upp. Þegar það hefur þannig samlagast jarðveginum rís það úr jörðu í krafti undursamlegrar forsjár Drottins og eitt fræ gefur þannig af sér mörg og þau bera ávöxt.

 

25. Lítið á hið einkennilega fyrirbæri sem gerist í austurvegi (nánar tiltekið nærri Arabíu). Þar er fugl sem kallaður er Fönix. Hann er einn sinnar tegundar og lifir í fimm hundruð ár. Þegar endalokin nálgast og dauðinn er yfirvofandi gerir hann sér hreiður úr reykelsi, myrru og öðrum ilmefnum og í fyllingu tímans sest hann í hreiðrið og deyr. Rotnandi kjötið elur af sér lirfu sem nærist á safa hræsins þar til hún verður fleyg. Þegar hún hefur náð nægum styrk flýgur hún með hreiðrið, sem geymir bein gamla fuglsins, alla leið frá Arabíu til egypsku borgarinnar Heliopolis. Þar í dagsbirtunni og frammi fyrir öllum flýgur hún upp að altari sólarinnar, setur beinin þar á og snýr aftur til heimkynna sinna. Og þegar prestarnir líta í tímaskrár sínar, sjá þeir að hún kom í lok fimm hundraðasta ársins.

 

26. Ættum við að undrast stórlega yfir því að skapari alheimsins reisi upp frá dauðum þá sem hafa þjónað honum í guðrækni og einlægri trú, þegar hann notar jafnvel fugl til að lýsa því hversu göfugt fyrirheit hans er? Því einhvers staðar segir: "Þú munt reisa mig upp og ég mun lofa þig." Einnig segir: "Ég lagðist til hvílu og sofnaði; og ég reis upp aftur því þú ert með mér." Þá segir Job: "Þú munt reisa upp þetta hold mitt sem hefur mátt þola alla þessa hluti."

 

27. Þar sem við höfum þessa von skulum við binda sálir okkar við hann sem er trúr fyrirheitum sínum og réttlátur í dómum sínum. Hann sem hefur bannað okkur að segja ósatt getur ekki með nokkru móti sjálfur sagt ósatt; ekkert er ómögulegt hjá Guði nema lygar. Við skulum því endurvekja trú okkar á hann hið innra með okkur og minnast þess að ekkert er utan seilingar hans. Með orði tignar sinnar stofnsetti hann alla hluti og með orði getur hann eytt þeim: "Hver segir við hann: Hvað gjörir Þú? Eða hver fær staðist krafta hans?" Hann mun gjöra alla hluti sem hann vill og þegar hann vill. Og allt það sem hann ákvarðar mun vara. Allir hlutir eru honum augliti til auglitis. Ekkert fær umflúið ráð hans; "himnarnir segja frá Guðs dýrð og festingin kunngjörir verk handa hans. Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki. Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra."

 

28. Þar sem hann sér alla hluti og heyrir þá, skulum við nálægjast hann með ótta og hætta þessari viðurstyggð að hafa dálæti á illum gjörðum því þannig fær miskunn hans varið okkur fyrir dóminum sem í vændum er. Hvert er hægt að flýja undan máttugum höndum hans og hver er sá heimur að hann taki við þeim sem flýr hann? Eins og segir einhvers staðar í hinum heilögu skrifum: "Hvert get ég farið og hvert flúið frá augliti þínu? Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar; þótt ég færi að endimörkum jarðar, þá er hægri hönd þín þar; þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, þá er Andi þinn þar." Hvert getur maðurinn þá farið eða hvert getur hann flúið hann, sem hefur allan heiminn í faðmi sér?

 

29. Við skulum því nálægjast hann með heilagleika andans, lyfta upp hreinum og óspilltum höndum til hans og elska okkar góða og líknsama Föður sem hefur gert okkur að sínum útvöldu - því stendur ekki skrifað: "Þá er hinn Hæsti skipti þjóðunum, þá er hann greindi í sundur börn Adams, þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna eftir tölu engla Guðs. Lýður hans, Jakob, var hlutskipti Drottins og Ísrael úthlutuð arfleifð hans." Og á öðrum stað segir: "Sjá, Drottinn tekur til sín lýð úr hópi þjóðanna eins og maður tekur frumgróða úr kornláfanum; og það er af þeim lýð sem hinn heilagasti af öllum heilögum mun koma."

 

30. Þar sem við erum þannig óaðskiljanlegir hinum heilaga skulum við leita allra leiða til að öðlast heilagleika. Við eigum að láta af rógburði, viðbjóðslegum og ósiðsamlegum faðmlögum, ofdrykkju og ólátum, andstyggilegum losta, viðurstyggilegum hórdómsbrotum og ógeðslegum hroka. Því Guð, eins og sagt er, "stendur gegn hinum hrokafullu en gefur náð hinum auðmjúku." Við skulum því halda félagsskap við þá menn sem hafa öðlast þessa náð. Við skulum temja okkur samlyndi og rækta með okkur auðmýkt og sjálfsstjórn. Við skulum forðast allt slúður og baknag og leita hjálpræðis með verkum en ekki orðum. Því svo stendur: "Þeim sem hefur margt að segja verður svarað fullu mæli. Telur málgefinn maður sig réttlátan? Blessaður er sá sem fæddur er af konu og á stutta ævi. Ástundið ekki orðagjálfur." Ef okkur ber hrós skulum við láta það koma frá Guði en ekki frá okkur sjálfum, því sjálfslof er andstyggilegt í augum Guðs. Aðrir eiga að gefa vitnisburð um góð verk okkar líkt og þegar hann var gefinn forfeðrum okkar sem voru réttlátir menn. Fyrirhyggjuleysi, þrákelkni og ósvífni eru einkenni þeirra manna sem hafa bölvun Guðs yfir sér. En umburðarlyndi, auðmýkt og mildi auðkenna þá sem njóta blessunar Guðs.

 

31. Við skulum binda okkur fasta við þessa blessun og aðgæta hvaða leiðir við eigum að fara til að tryggja okkur hana. Íhugum söguna alveg frá upphafi. Hvað varð þess valdandi að faðir okkar Abraham naut blessunar? Var það ekki fyrir trú að hann var réttsýnn og bjó við sannleika? Staðföst trú Ísaks um hvað í vændum var fékk hann til að leggjast á altarið áhyggjulaus. Jakob yfirgaf land sitt í auðmýkt vegna bróður síns og kom til að þjóna Laban. Og honum var umbunað með hinum tólf kynþáttum Ísraels.

 

32. Hver sá sem af heiðarleika gaumgæfir hvert þessara tilfella mun skynja mikilfengleika þeirra gjafa sem koma frá Guði. Því allir prestarnir og levítarnir sem þjóna við altari Guðs eru komnir af Jakobi. Drottinn Jesús er einnig af honum, samkvæmt holdinu. Af honum komu konungar, höfðingjar og leiðtogar af ættkvísl Júda. Og aðrar ættkvíslar hans njóta mikils heiðurs enda hafði Guð gefið fyrirheit þegar hann sagði: "Niðjar þínir munu verða eins og stjörnurnar á himninum." Öllum var þeim gefinn mikill heiður og frægð; en þó ekki vegna eigin verðleika eða afreka, ekki fyrir sín góðu verk heldur samkvæmt vilja Guðs. Á sama hátt erum við, sem samkvæmt vilja hans höfum verið kallaðir í Kristi Jesú, ekki réttlættir af eigin gjörðum eða vegna visku okkar, skilnings eða trúrækni eða af slíkum dáðum sem við höfum gert í heilagleika hjartans, heldur af trú en fyrir hana hefur almáttugur Guð réttlætt alla menn frá upphafi tíma. Dýrð sé honum um aldir alda, amen.

 

33. Hvað hefur þetta í för með sér, kæru bræður? Eigum við að taka okkur hvíld frá því að ástunda góð verk og hætta að iðka kærleika? Megi Guð forða okkur frá öllu slíku. Við skulum þvert á móti af fullri einlægni, jafnvel af ástríðu, ásetja okkar að ástunda þau verk sem góð eru. Jafnvel höfundur og Drottinn alheimsins hefur sjálfur yndi af því að vinna. Í almætti sínu hefur hann stofnsett himnanna og af sinni órannsakanlegri visku hefur hann raðað þeim. Hann aðskildi jörðina frá vötnunum sem umluktu hana og setti hana fast á traustan grunn vilja síns. Og með orðum sínum kallaði hann til lífs dýr vallarins sem á henni reika. Hann myndaði sjóinn og dýrin sem í honum eru og innan þeirra marka hélt hann þeim með mætti sínum. En hæst ber hið mikla verk sem af visku hans ber af öllum öðrum - með sínum heilögu og flekklausu höndum mótaði hann manninn eftir sinni eigin mynd, því Guð sagði: "Við viljum gjöra mann eftir okkar mynd, líkan okkur; og Guð skapaði manninn, hann skapaði þau karl og konu." Og þegar hann hafði lokið öllu sínu verki leit hann á þau með velþóknun, blessaði þau og sagði: "Aukið kyn ykkar og margfaldist." Við sjáum því að góðverk hafa ekki einungis fegrað líf allra réttlátra manna heldur fagnar jafnvel Drottinn eftir að hafa prýtt sig með verkum sínum. Þegar við höfum slíkt fordæmi fyrir augum eigum við umyrðalaust að ganga að vilja hans og beina allri orku okkar að því að inna af hendi réttlætisverk.

 

34. Góður vinnumaður tekur á móti afrakstri vinnu sinnar án efasemda, en sá sem er iðjulaus og latur getur ekki horfst í augu við húsbónda sinn. Þetta er ástæða þess að við verðum að helga okkur af hjarta og sál þeirri iðju að gera gott, því allt kemur frá hendi Guðs og hann hefur þegar varað okkur við: "Sjá, Drottinn nálgast með umbun sína fyrir augum til að launa hverjum manni eins og hann á skilið." Þess vegna biður hann okkur að treysta sér af öllu hjarta og vera ekki iðjulausir eða skeytingarlausir þegar góðverk eru annars vegar. Við skulum því nú láta alla upphefð okkar og tiltrú hvíla í honum og ganga að vilja hans. Hugsið um hinn gríðarmikla fjölda engla sem bíður þess að þjóna honum samkvæmt vilja hans: "Tíuþúsundir tíuþúsunda stóðu frammi fyrir honum," segir Ritningin, "og þúsundir þúsunda þjónuðu honum og hrópuðu: Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn hersveitanna; öll sköpunin er full dýrðar hans." Með sama hætti eigum við, samankomnir í sátt og samlyndi, að hrópa til hans einum rómi ef við ætlum að öðlast hlutdeild í hinum miklu og dýrlegu fyrirheitum hans - því svo segir: "Auga hefur ekki séð og eyra hefur ekki heyrt og ekki hefur komið upp í hjarta nokkurs manns allt það sem Guð hefur fyrirbúið þeim er bíða hans."

 

35. Mínir elskuðu, hversu dýrlegar og hversu dásamlegar eru ekki gjafir Guðs. Sumar þeirra er okkur þegar ætlað að skilja - lífið sem þekkir ekki dauðann, hina skínandi dýrð réttlætisins, sannleikann sem er einarður, trúna sem er fullkomin trygging og heilagleika hreinlífis. En hvað um þá hluti sem eru fyrirbúnir þeim sem bíða hans? Hver nema skaparinn og Faðir um alla eilífð, hinn Alheilagi, þekkir mikilleika og fegurð þeirra? Við skulum því leggja okkur alla fram til að við getum talist meðal þeirra sem bíða hans og fá þannig einnig hlutdeild í fyrirheitnum gjöfum hans. Og hvernig, mínir elskuðu, eigum við að gera það? Það gerum við með því að beina huga okkar af trúmennsku til Guðs; með því að komast að raun um hvað honum er þóknanlegt; með því að gera hvaðeina sem er í samræmi við fullkominn vilja hans; og með því að fylgja leið sannleikans. Það ber að hafna afdráttarlaust allri mannvonsku og misgjörð, allri græðgi, þrætum, illgirni og svikum, öllu baknagi og ófrægð, allri óvináttu við Guð, öllu drambi og stærilæti, sjálfsáliti og ógestrisni. Því þeir sem iðka þessa hluti - og ekki einungis þeir heldur og þeir sem leggja blessun sína yfir þá - eru hatursfullir við Guð. Ritningin segir: "En við hinn óguðlega segir Guð. Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn? Þú hataðir aga og varpaðir orðum mínum að baki þér. Ef þú sást þjóf, lagðir þú lag þitt við hann og við hórkarla hafðir þú samfélag. Þú hleyptir munni þínum út í illsku og tunga þín bruggaði svik. Þú sast og bakmæltir bróður þínum og ófrægðir son móður þinnar. Meðan þú gjörðir slíkt þagði ég og þú hélst að ég væri líkur þér! En ég mun hegna þér og láta þig sjá þig í því ljósi sem þú ert. Hyggið að þessu, þið sem gleymið Guði, annars steypir hann sér yfir ykkur eins og ljónið og enginn fær ykkur bjargað. Það er þakkargjörðarfórn sem heiðrar mig; og þar liggur leiðin þar sem ég mun láta hann sjá hjálpræði Guðs."

 

36. Og þetta er einmitt leiðin, kæru vinir, þar sem við finnum hjálpræði okkar: Jesús Kristur, æðsti presturinn, sem fórnfærir gjafir okkar, verndari og hjálpari í vanmætti okkar. Það er fyrir hann að við getum litið staðfastlega upp til himinhæða; það er fyrir hann að við höfum frammi fyrir okkur sem í spegli væri hina óaðfinnanlegu og háleitu ásýnd Guðs; það er fyrir hann sem augu sálna okkar opnast; það er fyrir hann sem fávís og sljór hugur okkar lýkst upp eins og blóm í sólskini; það er fyrir hann sem Drottinn hefur viljað að við komumst í snertingu við hina eilífu þekkingu. Hann sem er "ljómi dýrðar Guðs og er englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir." Því þannig er skrifað: "Hann gjörir engla sína að vindum og þjóna sína að eldslogum. En um Son sinn hefur Drottinn sagt. Þú ert Sonur minn í dag gat ég þig; bið þú mig og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfðum og endimörk jarðar að óðali." Og aftur segir Guð við hann: "Set þig mér til hægri handar uns ég gjöri óvini þína að fótskör þinni." Hverjir eru þessir óvinir? Það eru hinir óguðlegu sem setja sig upp á móti vilja hans.

 

37. Mínir kæru vinir, heyjum baráttuna einarðlega undir óskeikulli leiðsögn hans. Hugsið um þá menn sem þjóna undir okkar eigin herforingjum og lítið á hvernig þeir rækja skyldur sínar af góðri og hreinni auðmýkt. Ekki eru þeir allir herstjórar, hersveitarforingjar, hundraðshöfðingjar, undirforingjar eða eitthvað því líkt. Engu að síður framkvæmir hver og einn skipanir keisarans og herforingja hans samkvæmt stöðu sinni. Ekkert stórt þrífst án hins smáa eða smátt án þess stóra. Sérhver lífræn heild samanstendur af mörgum mismunandi efnum og það tryggir velferð hennar. Tökum líkamann sem dæmi. Höfuðið er ekkert án fótanna og fæturnir eru ekkert án höfuðsins. Jafnvel það smæsta af líkamlegum limum okkar er nauðsynlegt og dýrmætt líkamanum í heild sinni. Og allir starfa limirnir saman í agaðri einingu til að líkaminn sjálfur haldist heilbrigður.

 

38. Við skulum því láta allan líkama okkar vera heilbrigðan í Kristi Jesú þar sem hver lýtur náunga sínum í þeim mæli sem samræmist þeim sérstöku gjöfum sem honum hafa verið veittar. Hinir sterku eiga ekki að hunsa þá veiku og hinir veiku eiga að virða þá sterku. Ríkir menn eiga að sjá fyrir þeim fátæku og hinir fátæku eiga að þakka Guði fyrir að hafa gefið þeim einhvern sem sér um að uppfylla þarfir þeirra. Ef maður býr yfir visku, þá á hann að sýna visku sína með góðum verkum, ekki með orðum. Og hann sem er auðmjúkur á að láta öðrum það eftir að tala um auðmýkt hans í stað þess að lýsa því yfir sjálfur. Þannig á sá sem lifir líkamlegu hreinlífi ekki að stæra sig af því, þar sem hann veit að það var annar sem gaf honum styrk til að ástunda hófsemi. Íhugið snöggvast, bræður mínir, úr hverju við erum upprunalega gerðir. Hvað vorum við á þeirri stundu er við komum fyrst í heiminn? Höfundur okkar og skapari upphóf okkur úr myrkrinu inn í alheim sinn eins og úr gröf væri. Jafnvel áður en við fæddumst var hann tilbúinn með náðargjafir sínar okkur til handa. Við skuldum honum allt og því erum við skuldbundnir að öllu leyti að færa honum þakkir. Honum sé dýrðin um aldir alda, amen.

 

39. Menn sem skortir gáfur og skilning, menn sem eru heimskir og án lærdóms, hæða okkur og hnýta í okkur í viðleitni þeirra að upphefja sjálfa sig. Hvað getur dauðlegur maður í raun og veru gert? Eða hvaða styrkur finnst í þeim sem af jörðu er fæddur? Skrifað stendur: "Það var engin mynd fyrir augum mínum, en til mín laumaðist rödd sem sagði: Hvað þá? Getur nokkur maður verið hreinn fyrir Drottni eða réttlátur í gjörðum sínum þegar hann treystir ekki þjónum sínum og finnur galla hjá englum sínum? Jafnvel himinninn er ekki hreinn í augum hans hvað þá þeir sem búa í leirhúsum, þeir sem eiga rót sína að rekja til moldarinnar. Þeir eru marðir sundur sem mölur væri, milli morguns og kvelds eru þeir molaðir sundur. Án þess að geta nokkuð aðhafst, tortímast þeir gjörsamlega. Hann andar á þá og þeir farast því enga visku hafa þeir. Kalla þú bara og sjáðu hvort nokkur svarar þér, hvort nokkur hinna heilögu engla birtist þér. Því að gremjan drepur heimskingjann og öfundin deyðir þann sem er í villu. Ég hef séð heimskingjana festa rætur en skyndilega voru bústaðir þeirra uppetnir. Lát börn þeirra vera fjarlæg hjálpinni og vera troðin niður í hliðum minni manna. Uppskeru þeirra eta hinir réttlátu og ekki skal þeim bjargað frá ógæfu."

 

40. Við sem höfum grannskoðað dýptir hinna helgu fræða skiljum að fullu þessa hluti. Við höfum því þeirri skyldu að gegna að inna af hendi af mestu nákvæmni það sem Drottinn hefur mælt fyrir um að skuli gert á tilteknum tímum. Hann hefur fyrirskipað að fórnfæringar og þjónustur skyldu ekki vera háðar tilviljunum eða framkvæmdar með óreglubundnum hætti heldur að stund og árstíð skyldu vera fastákveðnar. Hann hefur ennfremur sjálfur ákveðið samkvæmt sínum æðsta vilja, hvar þær skuli fara fram og hver eigi að inna þær af hendi til að tryggja að allt fari guðrækilega fram samkvæmt óskum og vilja hans. Af þessu leiðir að þeir sem bera fram fórnir sínar á slíkum tilteknum tímum eru viðurkenndir og njóta blessunar því meðan þeir halda í heiðri tilskipun Drottins, fara þeir rétt að. Sérstakar athafnir eru ætlaðar æðsta prestinum, til að taka dæmi. Prestarnir hafa sínum stöðum að gegna og sérstakar helgiþjónustur inna levítar af hendi, og leikmaðurinn8er bundinn af reglum sem varðar leika menn.

 

41. Hver og einn, mínir kæru bræður, skal færa Guði þakkir samkvæmt stöðu sinni. Samviska okkar verður að vera hrein og við verðum að gæta virðuleika og enginn má bregða út af settum reglum varðandi helgiþjónustu sína. Bræður, ekki eru daglegar fórnir bornar stöðugt fram alls staðar, ekki heillafórnir, syndafórnir eða sektarfórnir, nema í Jerúsalem. Og jafnvel þar er fórnin ekki færð hvar sem er heldur í musterinu uppi við altarið en þar er fórnargjöfin nákvæmlega skoðuð af æðsta prestinum og þeim helgiþjónum sem þegar hafa verið nefndir. Þeir sem eitthvað gera í þessum efnum sem er andstætt vilja Guðs er refsað með dauðanum. Lærið af þessu, bræður mínir, því þar sem við höfum verið taldir verðugir þess að öðlast meiri þekkingu, þurfum við að standa andspænis þeim mun meiri hættum.

 

42. Postularnir boðuðu okkur fagnaðarerindið sem þeir fengu frá Drottni Jesú Kristi og Jesús Kristur var sendur af Guði. Þannig er Kristur kominn frá Guði og postularnir frá Kristi. Hvort tveggja skipaðist þannig samkvæmt vilja Guðs. Og eftir að postularnir höfðu verið uppfræddir og allur efi verið fjarlægður úr huga þeirra með upprisu Drottins okkar Jesú Krists frá dauðum hófu þeir, staðfestir í trú af orði Guðs og með stuðningi Heilags Anda, að boða að ríki Guðs væri í nánd. Þar sem þeir fóru um dreifbýli og þéttbýli með boðskap sinn tilnefndu þeir fyrstu frumávexti sína - eftir að hafa reynt þá með Andanum - til að vera biskupa og djákna fyrir hina trúuðu í framtíðinni. Þetta var með engum hætti nýjung því minnst hafði verið á biskupa og djákna í Ritningunni löngu fyrir þann tíma. Á einum ritningarstað segir: "Ég mun staðfesta biskupa þeirra í réttlæti og djákna þeirra í trú."

 

43. Ætti það að koma okkur á óvart að þeir menn, sem var treyst í Kristi fyrir slíku verkefni, skyldu standa að þessum tilnefningum? Að sjálfsögðu ekki, því hinn sæli Móse, "trúr þjónn í öllu hans húsi," hefur ritað ítarleg fyrirmæli í hina heilögu bók sem hann sjálfur meðtók. Og það gerðu einnig spámennirnir sem komu á eftir honum. Þeir bera allir vitni um lögmálið sem hann mælti fyrir um. Þegar metingur kom upp vegna prestsembætta og ættkvíslirnar deildu um forréttindi þess að njóta slíkrar nafnbótar, þá skipaði Móse hinum tólf höfuðsmönnum ættkvíslanna að færa sér stafi sína, hvern með árituðu nafni sinnar ættkvíslar. Hann tók stafina, batt þá saman, innsiglaði þá með hringum höfuðsmannanna og setti þá á borð Guðs í sannleikstjaldinu. Hann lokaði tjaldinu og innsiglaði lyklana með sama hætti og stafina. "Nú bræður mínir," sagði hann við þá, "ættkvíslin sem á stafinn sem springur út er sú sem Guð hefur valið til að þjóna honum í prestsembættinu". Næsta morgun kallaði hann Ísrael saman, alla sex hundruð þúsund, og eftir að hafa sýnt höfuðsmönnunum innsiglin opnaði hann sannleikstjaldið og tók út stafina. Þá kom í ljós að stafur Arons hafði ekki einungis sprungið út heldur hafði hann einnig borið ávöxt. Hvaða ályktun eigum við að draga af þessu, kæru vinir? Haldið þið að Móse hafi ekki vitað fyrirfram að þetta yrði niðurstaðan? Að sjálfsögðu vissi hann það. En hann fór þessa leið til að forðast óeiningu í Ísrael og til að nafn hins eina sanna Guðs mætti dýrlegt gera. Hans sé dýrðin um aldir alda, amen.

 

44. Postulunum var einnig gefið að skilja, fyrir Drottin okkar Jesúm Krist, að biskupsnafnbótin yrði mönnum deiluefni. Í fullri vitneskju um þetta tilnefndu þeir mennina sem ég minntist á fyrr og gáfu jafnframt þau fyrirmæli að ef þessir menn sofnuðu, ættu aðrir verðugir menn að taka við þjónustustarfi þeirra. Með hliðsjón af þessu teljum við ekki rétt að þessum mönnum sé vikið úr starfi eftir að hafa verið skipaðir af postulunum (eða seinna meir af öðrum heiðvirðum mönnum) með samþykki alls safnaðarins og þjónað söfnuði Krists óaðfinnanlega með auðmjúkum, friðsömum og óeigingjörnum hætti og notið um langan tíma virðingar allra. Hún yrði ekki talin léttvæg sú synd ef við tækjum biskupsembættin af þeim mönnum sem hafa borið fram fórnargjafirnar óaðfinnanlega og af heilagleika. Megi þeir blessunar njóta prestarnir sem farnir eru og hafa ávaxtaríkt líf að baki. Þeir þurfa að minnsta kosti ekki að óttast að vera varpað á dyr þar sem þeim hefur nú verið búinn staður. Við höfum hins vegar tekið eftir því að þið hafið rekið sómakæra menn úr hirðisstarfi sem hafa þjónað heiðarlega og ámælislaust.

 

45. Fyrir alla muni verið herskáir og kappsfullir, bræður mínir, en einungis varðandi þá hluti sem leiða til hjálpræðis. Lesið af kostgæfni hinar helgu ritningar. Þær tala sannri röddu Heilags Anda og þið vitið að þær geyma ekkert sem er andstætt réttlætinu, og ekkert sem þar er að finna eru ósannindi. Þið finnið þar ekki frásagnir um helga menn sem vörpuðu á dyr hinum réttlátu. Hinir réttlátu voru sannarlega ofsóttir en einungis af þeim sem voru óguðlegir. Það voru trúlausir menn sem vörpuðu þeim í fangelsi. Það voru löglausir menn sem grýttu þá. Það voru menn sem haldnir voru andstyggilegri og glæpsamlegri afbrýðisemi sem myrtu þá. Undir öllu þessu ofbeldi sýndu þeir dýrlegan styrk. Hvað annað gætum við sagt, kæru vinir, ef þetta væri ekki með þessum hætti? Gætum við sagt að Daníel hefði verið varpað í ljónagryfjuna af mönnum sem óttuðust Guð í hjarta sér? Gætum við sagt að Ananías, Asarja og Mísael hefði verið varpað í brennandi ofninn af mönnum sem ástunduðu heiðarlega og óaðfinnanlega þjónustu í þágu hins Hæsta? Nei og aftur nei. En hverjir voru þeir sem gerðu slíka hluti? Þeir voru forhertir níðingar sem voru fullir af slíkri brennandi heift að þeir gátu tekið til pyndingar menn sem höfðu tilhneigingu til að þjóna Guði óaðfinnanlega og af heilagleika. Ekki grunaði þá að hinn Hæsti væri verndari og skjöldur allra þeirra sem með hreinni samvisku þjóna hans heilaga nafni. Dýrð sé honum um aldir alda, amen. En þeir sem hvikuðu ekki í þolgæði sínu hafa fengið að erfðum heiður og dýrð. Þeir hafa verið upp hafnir og Guð hefur letrað nöfn þeirra í minninguna, sem varir um aldir alda, amen.

 

46. Það er skylda okkar, kæru bræður, að breyta eftir þessum mönnum. Svo stendur skrifað: "Leggið lag ykkar við heilaga, því þeir sem leggja lag sitt við þá verða sjálfir heilagir." Og á öðrum stað segir: "Með hinum saklausu verður þú saklaus, með hinum útvöldu verður þú útvalinn, með hinum svikulu verður þú svikull." Við skulum þannig gera hina saklausu og heiðarlegu að félögum okkar því þeir eru Guðs útvöldu. Hvers vegna eru deilur, heift, flokkadrættir, klofningur og ófriður meðal ykkar? Höfum við ekki allir sama Guð og sama Krist? Er það ekki sami Andi náðarinnar sem úthellist yfir okkur? Og er hún ekki ein köllun okkar í Kristi? Hvers vegna erum við þá að rífa og slíta í sundur meðlimi Krists og ýta undir ófrið í okkar eigin líkama? Hvers vegna höfum við glatað allri skynsemi og gleymt því að við erum meðlimir hvers annars? Minnist orða Drottins Jesú, því hann sagði: "Vei þeim manni; betra væri honum að hafa aldrei fæðst en að syndga gegn einum af mínum útvöldu. Betra væri honum að hafa mylnustein um hálsinn og vera varpað í hafið en að tæla einn af mínum útvöldu til falls." Óeining ykkar hefur leitt marga til falls. Hún hefur leitt marga á barm örvæntingar og margir hafa fyllst efa og öllum hefur hún fært sorg. Engu að síður er ekkert lát á ófriði ykkar.

 

47. Lesið aftur bréf ykkar frá hinum sæla postula Páli. Hvað skrifaði hann ykkur á fyrstu dögum boðunar fagnaðarerindisins? Hann var sannarlega innblásinn Andanum þegar hann skrifaði um sig, Kefas og Apollós því jafnvel þá höfðuð þið skipst í hópa. Slíkir flokkadrættir voru ef til vill minna vítaverðir á þeim dögum því þá voruð þið fylgismenn postula sem nutu æðstu virðingar og þess þriðja sem naut blessunar þeirra tveggja. En gaumgæfið þá menn sem nú hafa tælt ykkur og hefur tekist að gera lítið úr hinum dýrlega bróðurkærleika ykkar. Það er skammarlegt, kæru vinir, alveg sérstaklega skammarlegt og algjörlega ósamboðið kristilegri breytni að það skuli spyrjast út að hinn trúi og forni söfnuður í Korintu efni nú til æsingar gegn klerkum sínum vegna eins eða tveggja einstaklinga. Og það eru ekki einungis við sem höfum haft spurnir af þessu heldur jafnvel þeir sem eiga ekki samleið með okkur í trúnni. Þannig hefur heimska ykkar sett blett á nafn Drottins og ennfremur sett sálir ykkar í hættu.

 

48. Við megum engan tíma missa til að binda enda á þetta ástand. Við verðum að knéfalla frammi fyrir Drottni og sárbæna hann með tárvotum augum að sýna okkur miskunn og leiða okkur til sáttar við sig og endurreisa í okkur þær dyggðir að iðka bróðurkærleikann. Því þannig sjáum við hlið réttlætisins sem opnar okkur leiðina að lífinu, eða eins og stendur: "Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin. Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það." Það eru mörg hlið sem standa opin en "hlið réttlætisins" er hlið Krists. Sælir eru þeir sem þangað fara inn og ganga brautina af trúrækni og heiðarleika og ástunda skyldustörf sín í friðsemd. Hindrum ekki neinn í að vera sannan trúmann. Gerum honum kleift að skilgreina dýpstu leyndardóma, gerum honum kleift að leggja skynsamlegt mat á það sem hann heyrir og gerum honum kleift að breyta af hreinleika. Eftir því sem orðstír hans vex, ætti hann að hugsa minna um sjálfan sig, hann ætti fremur að hafa hugann við sameiginlega velsæld en að leita síns eigin.

 

49. Sá maður sem hefur kærleika Krists á að uppfylla boðorð Krists. Hver getur lýst fullkomlega kærleiksböndum Guðs? Hver getur fyllilega tjáð fegurð kærleika hans? Engin tunga getur sagt frá því hversu hátt kærleikurinn getur upp hafið okkur. Kærleikurinn bindur okkur við Guð. Kærleikurinn breiðir yfir syndir okkar. Það eru engin takmörk fyrir biðlund kærleikans og umburðarlyndi hans fellur aldrei úr gildi. Kærleikurinn er ekki þrælslegur og ekki er hann hrokafullur. Kærleikurinn þekkir ekki klofning og elur ekki á mislyndi; öll verk kærleikans eru gerð í fullkominni vináttu. Það var í kærleika sem allir útvaldir dýrlingar Guðs voru gerðir fullkomnir, því án kærleikans er ekkert Guði velþóknanlegt. Það var í kærleika sem Drottinn tók okkur til sín. Það var vegna kærleikans til okkar að Drottinn okkar Jesús Kristur úthellti blóði sínu fyrir okkur að vilja Guðs - hold hans fyrir okkar hold, líf hans fyrir okkar líf.

 

50. Íhugið því, mínir elskuðu, hversu stór og undursamlegur kærleikurinn er. Það skortir orð til að lýsa fullkomleika hans. Hver getur varðveitt hann nema sá sem Guð telur þess verður? Við skulum því biðja af einlægni um miskunn hans til að við megum vera óaðfinnanlegir í kærleika og forðast mannlega uppgerð. Allar hafa kynslóðirnar frá Adam til okkar daga lokið jarðvist sinni og þeim sem hafa verið fullkomnar í kærleikanum eftir mælingu náðar Guðs er búinn staður meðal hinna heilögu Guðs og þær munu opinberast öllum þegar konungsríki Krists birtist okkur. Því svo stendur skrifað: "Gakk þú inn í herbergi þitt og fel þig örskamma hríð uns reiðin og heift mín er liðin hjá; og þá mun ég minnast dags fagnaðarins og reisa ykkur úr gröfum ykkar." Sælir erum við, mínir elskuðu, ef við höldum í heiðri boðorð Guðs í sátt og samlyndi kærleikans, því þannig stuðlar kærleikurinn að því að syndir okkar eru fyrirgefnar. Svo stendur skrifað: "Sælir eru þeir er afbrotin eru fyrirgefin, syndir þeirra huldar. Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð og hefur eigi svik á vörum." Þessarar blessunar nutu þeir sem voru útvaldir af Guði fyrir Jesúm Krist, Drottin okkar. Honum sé dýrðin um aldir alda, amen.

 

51. Biðjum því um fyrirgefningu vegna misgjörða okkar sem við höfum framið eftir að hafa látið undan ginningum óvinarins. Þeir sem bera ábyrgð á flokkadráttum og misklíð ættu einnig að líta til vonarinnar sem við eigum allir sameiginlega. Ef menn lifðu í raunverulegum ótta og kærleika til Guðs, myndu þeir heldur þola hörmungar en að sjá náunga sinn þjást. Þeir myndu sætta sig við að fá sjálfir áfellisdóm ef það verndaði hið friðsæla samlyndi sem okkur hefur verið gefið í arf svo ánægjulega og heiðarlega. Það er betra fyrir mann að viðurkenna villur sínar af hreinskilni en að herða hjarta sitt og líkja þar með eftir þeim sem hertu hjarta sitt eftir að hafa efnt til uppreisnar gegn Móse, þjóni Guðs. Dómur þeirra var fyrir allra augum því þeir fóru allir niður til grafar sinnar lifandi þar sem "dauði skyldi vera hirðir þeirra." Rauðahafið gleypti Faraó og her hans sem og alla höfðingja Egyptalands, vagna þeirra og riddara. Þeir fórust allir vegna heimsku hjartna þeirra sem hertust eftir að Móse, þjónn Guðs, hafði gert tákn og undur í Egyptalandi.

 

52. Kæru bræður, ekki þarf Drottinn alheimsins á neinu að halda. Hann biður um ekkert nema að maðurinn játi syndir sínar fyrir honum. Því Davíð hans útvaldi sagði: "Ég vil játa syndir mínar fyrir Guði og það mun Drottni líka betur en ungneyti með hornum og klaufum. Lát hina auðmjúku sjá það og gleðjast." Hann segir ennfremur: "Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald hinum Hæsta þannig heit þín. Ákalla mig á degi neyðarinnar og ég mun frelsa þig og þú skalt vegsama mig. Því fórnir þekkar Guði eru sundurmarinn andi."

 

53. Mínir elskuðu, þið þekkið heilaga Ritningu, þið þekkið hana mjög vel og hafið kannað hin guðlegu boð. Þess vegna skrifum við ykkur um þessa hluti til að minna ykkur á að þegar Móse sté upp á fjallið og hafði verið þar fjörutíu daga og fjörutíu nætur við föstu og sjálfsögun, sagði Guð við hann: "Móse, Móse far þú skjótt ofan því að fólk þitt, sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefur misgjört. Skjótt hefur það vikið af þeim vegi sem ég bauð því og hefur það gjört sér steypt líkneski." Og Drottinn sagði ennfremur: "Oftar en einu sinni hef ég mælt svo til þín. Ég hef séð að þessi lýður er harðsvírað fólk. Lát mig nú tortíma því og afmá nöfn þess undir himninum og síðan vil ég gjöra þig að mikilli þjóð, meiri og voldugri en það er." En Móse svaraði: "Æ, Drottinn, fyrirgef þeim synd þeirra; ef ekki, þá bið ég að þú máir mig af bók hinna lifandi." Þetta er takmarkalaus kærleikur! Óviðjafnanlegur fullkomleiki! Þjónninn talar djarflega til Drottins síns og leitar fyrirgefningar fyrir fjöldann. Ef ekki þá vill hann farast með þeim.

 

54. Hver á meðal ykkar er göfuglyndur? Hver er miskunnsamur? Hver er fullur kærleika? Lát þann segja: "Ef það er ég sem er valdur að einhverjum ófriði, flokkadrætti eða klofningi meðal ykkar, þá hverf ég á braut. Ég skal fara þangað sem þið viljið að ég fari og ég mun gera það eitt sem söfnuðurinn mælir til um. Megi einungis friður ríkja milli hjarðar Krists og skipaðra klerka hennar." Hver sem gerir þetta mun ávinna sér mikla dýrð í Kristi og hvarvetna mun honum tekið fagnandi; "því jörðin og allt sem henni tilheyrir, er Drottins." Þannig breyta þeir sem eru þegnar himnaríkis (þegnréttur sem enginn iðrast að hafa) og þannig munu þeir breyta eftirleiðis.

 

55. Jafnvel meðal heiðingjanna minnist maður slíkra tilfella. Fjöldinn allur af konungum og þjóðstjórum voru reiðubúnir á tímum drepsótta að gefa líf sitt samkvæmt fyrirmælum spásagna til að þeir fengju með blóði sínu bjargað þegnum sínum. Þá hafa margir þeirra yfirgefið borgir sínar ef það mætti lægja ófriðaröldur. Við vitum að það eru margir á meðal okkar sem hafa framselt sig til lausnargjalds fyrir aðra. Margir hafa selt sig í þrældóm og notað þá peninga sem þannig fengust til að fæða aðra. Náð Guðs hefur einnig gert mörgum konum kleift að vinna hetjulegar dáðir. Þegar setið var um borg hinnar sælu Júdítar bað hún leyfis hjá öldungunum að hún mætti heimsækja herbúðir óvinarins. Hún hætti lífi sínu en ást hennar á landi sínu og þjóð, sem var í herkví, knúði hana áfram. Og Drottinn færði Hólafernes9 konu í hendur. Ekki var Ester í minni hættu þegar hún í fullnustu trúar sinnar tók svipaða áhættu til að bjarga hinum tólf ættkvíslum Ísraels frá yfirvofandi tortímingu. Með því að fasta og ástunda sjálfsögun grátbað hún alsjáandi Drottin eilífðarinnar. Og þegar hann sá hversu auðmjúk hún var í anda þá frelsaði hann lýðinn sem hún hafði sett sig í hættu fyrir.

 

56. Þannig skulum við einnig biðja fyrir þeim sem hafa gerst sekir um yfirsjónir, að þeim verði gefið að auðsýna mildi og auðmýkt sem geri þeim kleift að gefa sig á hönd, ekki okkur, heldur vilja Guðs. Og þá mun þeirra verða minnst af samúð í bænum okkar frammi fyrir Guði og hans heilögu og þeir munu njóta að fullu ávaxta þess. Ó mínir elskuðu, tökum umvöndun því það er eitthvað sem engum ætti að gremjast. Það er að öllu leyti til góðs og sérstaklega nytsamlegt að við áminnum hver annan því það leiðir okkur til einingar við vilja Guðs. Svo segir hið heilaga orð: "Drottinn hefur hirt mig harðlega en eigi ofurselt mig dauðanum. Drottinn agar þá sem hann elskar og lætur þann son kenna til, sem hann hefur mætur á." Þá segir ennfremur: "Réttlátur maður mun hirta mig í miskunn sinni og aga mig; en megi höfuð mitt aldrei verða smurt olíu syndarans." Og enn aftur segir: "Sæll er sá maður er Guð hirtir og lítilsvirð eigi umvöndun hins Almáttuga. Því að hann særir en bindur og um, hann slær og hendur hans græða. Úr sex nauðum frelsar hann þig og í hinni sjöundu snertir þig ekkert illt. Í hallærinu frelsar hann þig frá dauða og í orrustunni undan valdi sverðsins. Fyrir svipu tungunnar ert þú falinn og þarft ekkert að óttast er illskan kemur. Að óguðlegum og lögleysingjum getur þú hlegið og villidýrin þarft þú ekki að óttast; því að villidýrin eru í sátt við þig. Þá munt þú vita að bústaður þinn býr við frið og að tjald þitt er heilt. Þú munt einnig komast að raun um að niðjar þínir eru margir og afsprengi þitt sem gras á jörðu. Og þú munt ganga inn í gröfina eins og kornbundinið er látið í hlöðuna á sínum tíma eða eins og hveitibingur í kornláfanum er safnað á réttum tíma." Þannig getið þið séð, kæru vinir, hversu mikla vernd þeir fá sem Drottinn hirtir. Hann er góður Faðir sem hirtir okkur til að við finnum miskunn fyrir heilaga ögun hans.

 

57. Því skulu þeir ykkar sem eiga upptökin að þessum ófriði nú sýna auðsveipni gagnvart prestunum. Beygið kné hjartna ykkar og takið við hirtingu til að það megi hreinsa huga ykkar. Temjið ykkur undirgefnir. Hafið taum á háværri og hrokafullri tungu ykkar. Því það mun reynast ykkur betur að vera smáir en jafnframt fullgildir meðlimir hjarðar Krists fremur en að njóta uppskrúfaðrar virðingar og vera engu að síður útskúfaðir frá voninni í honum. Þannig segir í hinum öndvegis Spakmælum: "Sjá, ég læt anda minn streyma yfir ykkur og kunngjöri ykkur orð mín. En af því að þið færðust undan þá er ég kallaði, og enginn gaf því gaum þótt ég rétti út höndina heldur létuð öll mín ráð sem vind um eyrun þjóta og skeyttuð eigi umvöndun minni, þá mun ég hlæja í ógæfu yðar. Þegar skelfingin dynur yfir ykkur eins og þrumuveður og ógæfa ykkar nálgast eins og fellibylur, þegar neyð og angist dynja yfir ykkur þá mun ég draga dár að. Þegar þið kallið á mig mun ég ekki svara; hinir óguðlegu munu leita mín en ekki finna mig vegna þess að þeir hötuðu þekking og aðhylltust ekki ótta Drottins; þeir skeyttu ekki ráðum mínum og smáðu alla umvöndun mína. Því skulu þeir fá að neyta ávaxtar breytni sinnar og mettast af sínum eigin vélræðum. Vegna þess sem þeir gerðu á hlut hinna saklausu, skulu þeir deyja; dómur mun tortíma hinum óguðlegu. En sá sem á mig hlýðir mun búa óhultur; hann mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða."

 

58. Við skulum því lúta heilögu og dýrlegu nafni hans til að við fáum umflúið það sem spekin sagði fyrir löngu að biði hinna óguðlegu. Með þeim hætti getum við dvalið í hinu alheilaga nafni tignar hans og lagt allt okkar traust á það. Þiggið ráð af okkur og þið munuð einskis iðrast. Svo sannarlega sem Guð lifir, sem Jesús Kristur lifir og Heilagur Andi einnig, sem eru trú og von hinna útvöldu, svo sannarlega mun sá maður sem af auðmýkt og göfuglynd fer eftir þeim lögum og fyrirmælum sem Guð hefur gefið, teljast meðal þeirra sem hafa verið frelsaðir af Jesú Kristi, en fyrir hann er Guð dýrlegur gerður um aldir alda, amen.

 

59. En ef það eru einhverjir sem neita að fara eftir því sem hann hefur sagt fyrir munn okkar,10þá skulu þeir ekki velkjast í vafa um að brot þeirra er mikið og að þeir hafa sett sig í mikla hættu. Hvað okkur áhrærir þá munum við gæta þess að vera saklausir af slíkri synd. Við munum sárbæna skapara alheimsins með hjartnæmum bænum okkar að allir hans útvöldu um gjörvallan heim megi ávallt og undantekningarlaust varðveitast heilir fyrir hans elskaða Son Jesúm Krist en fyrir hann hefur hann leitt okkur úr myrkrinu í ljósið og beint okkur frá vanvisku til fullrar þekkingar á dýrð nafns hans.

 

(Gef oss Drottinn) að vona á nafn þitt sem gaf allri sköpuninni tilveru sína. Opna augu hjartna vorra til að vér megum þekkja þig sem einn ert æðstur meðal hinna æðstu og heilagastur meðal hinna heilögustu. Þú lægir hroka hinna dramblátu og tvístrar ráðabruggi þjóðanna. Þú upphefur lítilmagnann og niðurkefur hina hrokafullu. Þú gjörir fátækan og ríkan, deyðir og lífgar. Þú einn ert velgjörðarmaður sérhvers anda og Guð alls holds. Þú lítur niður í djúpin og rannsakar verk mannanna. Þú ert hjálpari þeirra sem eru í neyð, bjargvættur þeirra sem örvænta, skapari og vörður sérhverrar sálar. Þú margfaldar þjóðir jarðarinnar og af öllum mönnum hefur þú valið þá sem elska þig fyrir Jesúm Krist, þinn elskaða Son, en fyrir hann hefur þú leiðbeint oss, heiðrað oss og helgað. Vér biðjum þig, ó Drottinn, að vera hjálpari vor og verndari. Frelsa hina þjáðu, líknaðu hinum lítillátu, reistu við hina föllnu, gjör þig sýnilegan þeim sem þurfandi eru, lækna sjúka og snúðu heim þínum villuráfandi lýð. Mettaðu hungraða, leystu bandingja, styrktu hina óstöðugu og huggaðu hina huglausu. Lát allar þjóðir vita að þú einn ert Guð, að Jesús Kristur er Sonur þinn og að vér erum lýður þinn og gæsluhjörð.

 

60. Með því afli sem starfar í heiminum hefur þú kunngjört ævarandi eiginleika þinn. Þú, ó Drottinn, hefur skapað jörðina. Þú ert trúr frá einni kynslóð til annarrar, réttlátur í dómum og dásamlegur í mætti þínum og tign. Með alvitrum hætti hefur þú skapað og giftusamlega hefur þú stofnsett allt sem öðlast hefur tilveru. Þú ert miskunnsamur í öllu því sem er sjáanlegt og þeir sem teysta þér þekkja náðarverk þín. Ó þú, sem ert líknsamur og náðugur, fyrirgef oss misgjörðir vorar og ranglæti, syndir vorar og vanrækslu. Lát ekki þjóna þína og þernur gjalda allra synda sinna heldur hreinsa oss með hreinleika sannleika þíns. Leið oss á braut heilagleika, réttlætis og einlægni hjartans og hjálpa oss í verkum vorum til að þau séu þér gagnleg og velþóknanleg sem og yfirvöldum vorum. Já, Drottinn, lát blíða ásjónu þína skína yfir oss til að vér njótum friðar; þá mun sterk hönd þín skýla oss og útréttur armleggur þinn frelsa oss frá sérhverri synd. Vernda oss fyrir þeim sem hata oss að ástæðulausu. Gef oss og öllum sem á jörðu dvelja að búa við einingu og friðsæld líkt og þú gafst feðrum vorum þegar þeir ákölluðu þig í trú og sannleika. Gef oss að vera hlýðna þínu almáttuga og dýrlega nafni og þeim sem hafa stjórn og vald yfir oss á jörðu.

 

61. Því að fyrir þinn æðsta og ólýsanlega mátt hefur þú, ó Drottinn, gefið þeim konungsvald til að vér, í vitneskju um heiðurinn og dýrðina sem þú hefur gefið þeim, megum lúta þeim án þess að ganga á nokkurn hátt gegn vilja þínum. Gef þeim, Drottinn, að búa við heilsu, frið, samlyndi og öryggi til að þeir megi án miska stjórna veldinu sem þú hefur veitt þeim. Himneski herra, konungur að eilífu, þú gefur sonum mannanna dýrð, heiður og vald yfir því sem á jörðu dvelur. Veit þeim ráðgjöf, Drottinn, eftir því hvað þér hugnast og er velþóknanlegt undir augliti þínu, svo að þeir iðki í trúrækni og friði og af mildi það vald sem þú hefur gefið þeim, og finni með því miskunn hjá þér. Þér, sem einn getur veitt oss þetta og jafnvel enn dásamlegri blessun, færum vér lofgjörð vora fyrir hinn æðsta prest og vörð sálna vorra, Jesúm Krist, en fyrir hann ber þér dýrðin og heiðurinn nú og frá kyni til kyns og um aldir alda. Amen.

 

62. Bræður mínir. Við höfum nú skrifað nógu mikið til ykkar varðandi þessa hluti sem snerta heilaga trú okkar og eru nytsamlegir þeim sem þrá að ástunda dyggðugt líferni sitt af enn meiri guðrækni og réttlæti. Trú, iðrun, sannur kristinn kærleikur, sjálfsagi, þagmælska og þolgæði - við höfum fjallað um alla þessa þætti. Við höfum minnt ykkur á að þið eruð bundnir þeirri skyldu að vera almáttugum Guði velþóknanlegir í heiðarleika, sannleika og langlyndi. Við höfum sagt ykkur að lifa í samlyndi og án allrar vonsku, lifa í friði og kærleika og vera sameinaðir í stöðugu umburðarlyndi. Við höfum bent á að þannig áunnu forfeður okkar sér viðurkenningu. Þeir voru auðmjúkir í anda gagnvart Guði, Föður sínum og skapara, og gagnvart öllum mönnum. Okkur er það ljóst, að við erum að skrifa mönnum sem hafa trú og njóta virðingar, mönnum sem hafa djúpa þekkingu á spakmælum hinna guðlegu boða. Það hefur verið okkur hvatning að rifja þessa hluti upp með ykkur.

 

63. Það er því rétt að líkja eftir þessum mörgu og göfugu fyrirmyndum sem við höfum frammi fyrir okkur og lúta höfði og sýna hlýðni. Þannig verður okkur forðað frá fánýtri sundurþykkju og þannig náum við, án ámæla, því marki sem okkur hefur verið sett í sannleika. Það mun veita okkur mikinn fögnuð ef þið reynist hlýðnir því sem við höfum skrifað ykkur fyrir Heilagan Anda og bregðist við þessari skriflegu bón okkar um frið og samlyndi með því að binda enda, í eitt skipti fyrir öll, á þá ógurlegu misklíð sem hefur valdið slíkri biturð meðal ykkar. Við sendum til ykkar trausta og orðvara menn sem hafa lifað grandvöru lífi meðal okkar frá æsku til fullorðins ára og þeir skulu vera vitni milli okkar og ykkar. Þetta gerum við til að þið sjáið að okkur er, og hefur verið, annt um að senn ríki friður á ný á meðal ykkar.

 

64. Og að lokum: Megi hinn alsjáandi Guð, stjórnandi andanna og Drottinn alls holds, sem valdi Drottin Jesúm Krist og sem valdi oss, fyrir hann, til að vera eignarlýð sinn, veita sérhverri sál, sem leitar hans dýrlega og heilaga nafns, trú og ótta, frið og umburðarlyndi, langlyndi og hófsemi, hreinleika og reglusemi, til að hún megi vera velþóknanleg nafni hans. Fyrir æðsta prest vorn og verndara, Jesúm Krist, en fyrir hann sé honum dýrðin og heiðurinn, tignin og valdið nú og um aldir alda. Amen.

 

65. Verið skjótir til verka og látið sendiboða okkar, Kládíus Efebus og Valeríus Bítus ásamt Fortúnatusi, hverfa aftur til okkar í friði og fögnuði til að við fáum tafarlausar fregnir um að sátt og samlyndi ríki meðal ykkar, en það höfum við þráð og beðið. Þannig fengjum við brátt notið þess fagnaðar að þið hafið fært allt í samt lag aftur. Megi náð Drottins vors Jesú Krists vera með yður og með öllum alls staðar í heiminum sem Guð kallar fyrir hann. Og fyrir hann sé Guði dýrðin og heiðurinn, mátturinn og tignin og ævarandi vald um aldir alda. Amen.

 

___

 

(1) Heilagur Klemens I var þriðji eftirmaður heilags Péturs postula á biskupsstóli Rómar á árunum 88-97. Telst hann því fjórði páfi sögunnar. Bréfið er talið skrifað í kringum 96.

 

(2) Þ.e.a.s hún dvelur fjarri heimahögunum sem eru á himni (sbr. Hebreabréfið 11.13, "gestir og útlendingar á jörðinni").

 

(3) Páfi er að vísa til ofsókna Domitíanusar keisara (81 - 96).

 

(4) Hér er átt við yfirvald kirkjunnar.

 

(5) Fyrirætlun Páls að fara til Spánar, eins og fram kemur í Rómverjabréfinu (15.24), hefur þannig væntanlega gengið eftir.

 

(6) Það er talið að kristnar konur hafi verið látnar leika goðafræðilegar persónur í hringleikahúsinu. Þykir líklegt að Klemens sé að vísa til þessa.

 

(7) Hér er átt við þegar Lot bauð englunum í hús sitt (1. Mósebók 19.2-3).

 

(8) Hér er komin elsta heimildin um orðið leikmaður er sýnir að skýr skil hafi verið á milli klerkdóms og almennings í frumkristni (sjá H. Bettenson, The Early Christian Fathers (Oxford 1956) b. 32).

 

(9) Stjórnanda hersetuliðsins.

 

(10) Rétt er að hafa í huga að hl. Klemens er ekki hér að beina orðum sínum að þeim söfnuði sem næstur honum stendur. Hann virðist ekki í vafa um að biskupsdæmi Rómar, sem hann stýrir, njóti sérstakra forréttinda.

 

Þýðing © Reynir Guðmundsson 1999

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014