Bréf heilags Ignatíusar frá Antíokkíu til Trallesmanna

Frá Ignatíusi, sem heitir öðru nafni Þeófórus, til hinnar heilögu kirkju í Tralles í Asíu sem nýtur náðar Guðs Föður Jesú Krists, útvalin og guðleg og býr við innri og ytri frið fyrir píslir Jesú Krists, sem er von okkar þegar við rísum upp til að vera með honum. Í anda postulanna sendi ég kirkjunni kveðju mína í allri fullnustu náðar Guðs og óska henni alls velfarnaðar.

 

1. Mér er sagt að siðferðisþrek ykkar sé hafið yfir alla gagnrýni; mér er einnig sagt að það sé ekki áunnið heldur sé það í náttúrulegu eðli ykkar. Þetta sagði mér biskup ykkar Pólýbíus þegar hann kom til mín hér í Smýrnu að vilja Guðs og Jesú Krists. Hann samfagnaði með mér að ég skuli bera fjötra Jesú Krists og í honum opinberaðist mér allur söfnuður ykkar. Og þegar hann afhenti mér tákn góðvilja ykkar2 í Guði færði ég fram þakkir fyrir að hafa fengið vitneskju um að breytni ykkar væri að sönnu eftir Guði eins og mér hafði verið sagt.

 

2. Hlýðni ykkar gagnvart biskupi ykkar, sem þar væri Jesús Kristur, leiðir mér skýrt fyrir sjónir að ykkar er ekki gæði þessa heims heldur Jesús Kristur sjálfur, sem gaf líf sitt fyrir okkur til að trúin á dauða hans gæti bjargað ykkur frá dauða. Því er það ekki síður mikilvægt að á sama hátt og þið sýnið biskupi ykkar trúnað í þjónustu ykkar - sem þið augljóslega gerið - séuð þið jafn auðmjúkir gagnvart prestum ykkar og að þið lítið á þá sem postula Jesú Krists, sem er von okkar, en dag einn munum við allir vera í honum ef lífi okkar verður lifað í honum. Djáknarnir, sem þjónusta leyndardóma Jesú Krists, verða einnig að njóta almennrar viðurkenningar á allan hátt. Þeir útdeila ekki mat og drykk heldur eru þeir þjónar kirkju Guðs og eru því þeirri skyldu bundnir að vera á verði gagnvart hvers konar ófrægingu eða aðdróttunum og verða að gera það með sama hætti og ef þeir verðu sig gegn eldi.

 

3. Ekki er það síður mikilvægt að virðing ykkar fyrir djáknunum sé jafn mikil og fyrir Jesú Kristi3 og að það sé gert með sama hætti og þegar þið lítið á biskupinn sem ímynd Föðurins og prestana sem postulana er saman mynda ráð hans.4 Því hafi einhver kirkja ekki þessa skipan hefur hún ekki rétt til þess nafns. Ég er þess fullviss að þetta er ykkar vegur, því ég hef haft hjá mér og hef enn dæmi um elsku ykkar í persónu biskups ykkar en háttvís framkoma hans er lærdómur í sjálfu sér og mildi hans er sem vald. Ekki dreg ég það í efa að jafnvel heiðingjarnir bera virðingu fyrir honum. Ég vel orð mín vel, vegna kærleika míns til ykkar, en ég gæti auðveldlega skrifað af meiri krafti í hans þágu ef ekki kæmi til að sem sakfelldur bandingi tel ég mig ekki þess umkominn að nota umvöndunartón postulans. 4. Hugur minn er sannarlega fullur af hugsun frá Guði; en ég þekki mín takmörk og óttast að sjálfshól gæti orðið mér að falli. Ég ætti heldur að finna fyrir kvíða og virða að vettugi alla þá sem leitast við að bera lof á mig.5 Orð þessa fólks eru mér í raun og veru ánauð því þótt ég þrái píslarvætti af ákefð er ég ekki viss um að ég sé þess verður. Mörgum yfirsést hver þrá mín er6 sem gerir mér enn erfiðara fyrir. Þess vegna þarf ég á auðmýkt að halda sem vinnur gegn höfðingja þessa heims.

 

5. Þótt ég gæti eflaust skrifað til ykkar um háleit og guðdómleg málefni, óttast ég að það yrði ykkur einungis til tjóns þar sem ég sé að þið eruð enn að feta ykkar fyrstu spor. Ég vona þess vegna að þið fyrirgefið mér því það gæti orðið ykkur um megn að reyna að meðtaka slík skrif og að þau yrðu ykkur einungis torskilin lesning. Jafnvel ég sjálfur, þrátt fyrir hlekki mína og alla hæfileika til að komast til skilnings á himneskum leyndardómum og helgivaldi engla og hvernig guðdómlegu valdi er beitt og mörgu öðru séðu og óséðu, er ekki enn, hvað þetta varðar, sannur lærisveinn. Því það er enn margt sem við verðum að glata ef við eigum ekki að verða fyrir því að glata Guði.

 

6. Því sárbæni ég ykkur (ekki ég þó, heldur kærleikur Jesú Krists) að nærast á engu öðru en kristinni fæðu og hafið engin vöruskipti með ókunnar kryddjurtir villutrúar. Þeir menn eru til sem einmitt með því að sannfæra ykkur um að þeir séu trúaðir, blanda eitri við Jesúm Krist. Það er líkt því að boðið sé upp á banvænt eitur í bikar hunangssæts víns og hið saklausa fórnarlamb verði alsælt þegar það af ákefð drekkur sig til dauða og tortímingar.

 

7. Verið vel á varðbergi gagnvart þess konar mönnum. Ykkur verður óhætt svo framarlega sem þið látið ekki drambsemi ná á ykkur tökum og slítið ykkur ekki frá Jesú Kristi og biskupi ykkar og þeirri skipan sem postularnir komu á. Að vera innan helgidómsins7 merkir að vera hreinn; að standa utan hans merkir að vera óhreinn. Með öðrum orðum, ekki getur samviska nokkurs manns verið hrein ef hann hafnar yfirvaldi biskups, presta og djákna.

 

8. Ekki má skilja orð mín þannig að ég telji að slíkt viðgangist meðal ykkar. Ég er einungis að reyna að vernda ykkur gegn þeim hættum sem kynnu að leynast, vegna þess að þið eruð mér kærir og ég sé fyrir mér snörur djöfulsins. Látið mildi vera vopn ykkar gegn þeim; verið traustir í trúnni (holdi Drottins) og kærleika (blóði Jesú Krists) því það má ekki vera nokkur misklíð ykkar á meðal. Þið megið ekki gefa heiðingjunum neitt tækifæri því þá gæti farið að örla á sundrungu innan safnaðar Guðs vegna hugsunarleysis fárra; því "vei þeim sem fær einhvern til að smána nafn mitt án minnsta tilefnis."

 

9.8 Daufheyrist því ef einhver prédikar til ykkar án þess að minnast á Jesúm Krist. Kristur var af kyni Davíðs. Hann var sonur Maríu. Hann var sannarlega og raunverulega fæddur og hann át og drakk. Hann var sannarlega ofsóttur á dögum Pontíusar Pílatusar og sannarlega og raunverulega krossfestur og hann gaf upp anda sinn frammi fyrir augliti alls himinsins og jarðarinnar og undirheimanna. Hann var einnig sannarlega reistur upp aftur frá dauðum, því Faðir hans reisti hann upp; og í Jesú Kristi mun Faðir hans á svipaðan hátt reisa okkur upp sem trúum á hann en án hans er ekkert raunverulegt líf fyrir okkur.

 

10. Því er haldið fram af sumum sem hafna Guði - með öðrum orðum, þeim sem hafa enga trú - að þjáningar hans hafi ekki verið raunsannar (þótt það séu þeir sem í raun og veru eru ekki raunsannir). Ef þannig væri málum háttað hvers vegna er ég núna fangi? Hvers vegna bið ég þess að verða varpað fyrir ljónin? Því ef þannig er ástatt er ég að kasta lífi mínu á glæ; og allt það sem ég hef nokkurn tíma sagt um Drottin væri þá ekki mælt af sannleika.

 

11. Flýið undan þessum mönnum eins og þið eigið lífið að leysa; þeir eru eiturgróður sem ber ávöxt dauðans og einn biti af honum er banvænn. Þeir eru á engan hátt gróður Föðurins; því ef þeir væru það myndu þeir samstundis þekkjast sem sannar greinar krossins og enga skemmd væri að finna í ávexti þeirra. Það er með krossinum sem hann, fyrir píslir sínar, kallar ykkur, sem eruð hluti af líkama hans, til sín. Ekki getur höfuðið átt sér tilveru eitt og sér án limanna. því það loforð sem Guð hefur gefið okkur er loforð um einingu, en hún er kjarni hans sjálfs.

 

12. Hinar kirkjur Guðs sem eru hér með mér sameinast í þessum kveðjum frá Smýrnu. (Þær hafa á allan hátt verið mér líkamleg og andleg huggun). Hlekkir þessir sem ég ber í nafni Jesú Krists í stöðugri bænargöngu minni til að komast til návistar við Guð eru áminning til ykkar að halda áfram í einingu og guðrækni hver við annan. Því það er skylda hvers og eins og þá sérstaklega prestanna að sjá til þess að biskupinn hafi sálarfrið og að það sé gert til heiðurs Föðurnum og Jesú Kristi og postulum hans. Ég grátbið ykkur að í kærleika ykkar til mín gefið þið gaum að orðum mínum til að ég verði ekki dag einn notaður til vitnis gegn ykkur með bréfi þessu. Og biðjið jafnframt fyrir mér því í allri Guðs miskunn þarf ég á kærleika ykkar að halda ef mér á nokkru sinni að hlotnast þau örlög sem ég þrái og verða ekki hafnað.

 

13. Smýrna og Efesus senda ykkur elsku sína og kveðjur. Minnist kirkjunnar í Sýrlandi í bænum ykkar (þótt ég sé ekki þess verður að tilheyra henni þar sem ég er sístur og minnstur þeirra allra).

 

Bið að heilsa í Jesú Kristi. Lútið biskupi ykkar eins og þið gerið lögmáli Guðs og sömuleiðis prestum ykkar. Elskið hvern annan; verið hátt hafnir yfir alla sundrungu. Andi minn er ykkur gefinn, ekki einungis á þessari stundu heldur einnig þegar ég stend frammi fyrir augliti Guðs. Hvort það mun eiga sér stað er enn ekki ljóst, en því má treysta að Faðirinn í Jesú Kristi heyrir auðmjúkar bænir mínar og ykkar. Megi þið varðveitast hreinir í honum.

 

___

 

(1) Heilagur Ignatíus kirkjufaðir, sem var biskup í Antíokkíu, var dæmdur til dauða þegar hann var kominn á efri ár og skrifaði hann þetta bréf og sex önnur á leið sinni til Rómar, þar sem hans beið dauðinn í hringleikahúsi. Bréfið er talið vera frá árinu 107.

 

(2) Sennilega hefur biskup fært honum gjöf frá söfnuðinum.

 

(3) Í viðleitni sinni að halda á lofti nafni djáknanna setur hann þá óviljandi skör hærra en prestana.

 

(4) Við guðsþjónustur í frumkirkjunni sat biskup á palli í miðju hálfhrings presta hans (sem er sama uppstilling og dómstólar notuðu). Þetta er að líkindum samlíking við tólf hásæti postulanna í kringum dýrðarhásæti Guðs. að hið jarðneska helgivald kirkjunnar samsvari sér þannig í hinu himneska.

 

(5) Hann hefur hér í huga góð meðmæli sem honum hafa verið gefin af velviljuðum mönnum með það í huga að fá yfirvöld til að endurskoða dóminn yfir honum. En það myndi að engu gera píslarvætti hans sem hann þráir svo mjög.

 

(6) Þ.e. Satan villir um fyrir þeim.

 

(7) Orðrétt "staður fórnar" sem merkir presta og fólkið í einingu safnaðarþjónustunnar.

 

(8) Kaflar 9, 10 og 11 draga saman kjarnann í baráttu heilags Ignatíusar gegn svokölluðum dóketistum sem höfnuðu alfarið mannlegu eðli Krists þ.e.a.s að hin guðlega persóna hafi verið sannur maður.

 

Þýðing © Reynir Guðmundsson 1999

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014