Bréf heilags Ignatíusar frá Antíokkíu til Smýrnumanna

Frá Ignatíusi, sem heitir öðru nafni Þeófórus, til kirkju Guðs Föður og okkar elskaða Jesú Krists í Smýrnu í Asíu, sem náðarsamlega er gædd gjöfum Andans og býr við trú og kærleika; hennar sem nýtur andlegrar náðar og er æruverðug hirsla himneskra fjársjóða. (2) Megi gæfan fylgja ykkur í andans hreinleika og trúmennsku við orð Guðs.

 

1. Dýrð sé Guði Jesú Kristi sem hefur gefið ykkur slíka speki. Ég hef séð hversu staðfastir þið eruð í trú ykkar, negldir líkama og sál, eins og sannaðist við kross Drottins Jesú Krists, og skjótið rótum ykkar í jarðvegi kærleika blóðs hans. Sannfæring ykkar varðandi Drottin er sterk; þið trúið að hann sé sannarlega af ætt Davíð samkvæmt holdinu en sé samt sem áður sonur Guðs fyrir guðlegan vilja og mátt; sannarlega fæddur af mey; skírður af Jóhannesi til að hann fullnægði öllu réttlæti; (3) og að á dögum Pontíusar Pílatusar og Heródesar fjórðungsstjóra hafi naglar sannarlega verið reknir í gegnum hold hans á krossinum (ávöxtur okkur til lífs (4) fyrir alhelga þjáningu hans) til að með upprisu sinni gæti hann reist öllum tímum hermerki (5) sem kalli saman dýrlinga hans og þá trúuðu, Gyðinga sem og aðra menn, í einn líkama kirkju hans.

 

2. Allt þetta tók hann á sig fyrir okkur, til að hjálpræðið yrði okkar. Og þjáning hans var raunveruleg á sama hátt og upprisa hans var raunveruleg. Píslir hans voru ekki eins konar hugarfóstur sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum eins og sumir efasemdamenn staðhæfa og bera sjálfir ekki raunveruleikanum vitni. Örlög þessa vesalinga verður í samræmi við trú þeirra því dag einn verða þeir sjálfir að líkamslausum skuggaverum.

 

3. Sjálfur trúi ég og veit að hann var íklæddur raunverulegu mennsku holdi jafnvel eftir upprisuna. Þegar hann birtist Pétri og félögum hans sagði hann við þá: "Þreifið á mér; snertið mig og sjáið að ekki er ég líkamslaus draugur." Og þeir snertu hann og trúðu, því þar fundu þeir raunverulegt hold hans og blóð. Þannig fengu þeir óbeit á dauðanum og sýndu fram á að þeir voru honum æðri. Ennfremur át hann og drakk með þeim eftir að hann var upprisinn eins og var eðlilegt hverjum manni, þótt jafnvel þá væru hann og Faðirinn einn í anda.

 

4. Ég vara ykkur við, kæru vinir, þótt ég skynji það fullvel að sannfæring ykkar er jafn sterk og mín. Ég vil gjarnan vara ykkur í tíma við rándýrum í mannsmynd. Ef þið komið því við, skuluð þið forðast allt samband við þess konar menn og enn síður veita þeim neina athygli. Haldið ykkur einfaldlega við það að biðja fyrir þeim í þeirri von að þeim snúist hugur (sem er ekki auðvelt að gera en Jesús Kristur, sem er okkur sannarlegt líf, hefur kraft til þess). Því ef allt það sem Drottinn okkar gerði er tálsýn þá hljóta hlekkir mínir að vera jafnframt blekking! Og hvaða tilgang hefur það þá að ég skuli hafi gefið sjálfan mig fram til að farast í eldi eða fyrir sverði eða óargadýrum? Það hef ég einfaldlega gert vegna þess að þegar ég er nærri sverðinu er ég nærri Guði og þegar ljónin umlykja mig, umlykur Guð mig. En það er einungis í nafni Jesú Krists og fyrir hlutdeild í þjáningum hans að ég get horfst í augu við allt þetta; því hann, hinn fullkomni maður, gefur mér styrk til að gera það.

 

5. Samt sem áður hafna margir honum enn í blindni sinni - eða öllu heldur er þeim hafnað af honum vegna þess að það sem þeir raunverulega stefna að er ekki að leita sannleikans um hann heldur stefna þeir að eigin tortímingu. (6) Þeir neita að láta sannfærast af spámönnunum eða lögmáli Móse eða jafnvel nú á okkar tímum af guðspjallinu - og því síður taka þeir mark á persónulegum þjáningum svo margra af okkar eigin fólki því þeir nota sömu röksemdir gegn okkur sjálfum. (7) Því er mér spurn, hvers vegna ætti ég að sækjast eftir virðingu þess sem lastmælir Drottni og neitar að hann hafi nokkru sinni íklæðst holdi? Með því að segja það neitar hann öllu öðru um hann; og líkaminn sem hann sjálfur hefur íklæðst getur ekki verið annað en liðið lík. (8) Ég megna ekki að rita nöfn þessara trúvillinga og ég myndi jafnvel óska mér þess að þau yrðu alfarið afmáð úr huga mínum þar til sá tími kemur að þeir snúist til betri vitundar um píslir Krists sem kemur til leiðar upprisu okkar frá dauðum.

 

6. Enginn ætti að velkjast í vafa um að það er dómur í vændum fyrir alla, jafnvel fyrir herskarann á himnum, englana sjálfa í dýrð, hin sýnilegu og ósýnilegu völd, ef þá skortir trú á blóð Krists. Lát hvern þann, sem getur, skilja þennan sannleika. Háar stöður er engin afsökun fyrir hroka; það er trú og kærleiki sem skiptir öllu máli og verður að hafa forgang fram yfir allt annað. En sjáið þessa menn sem hafa myndað sér rangsnúnar hugmyndir um náð Jesú Krists sem steig niður til okkar og sjáið hvernig þeir snúast þvert gegn vilja Guðs. Þeir hirða ekkert um kærleikann; þeir láta sér ekki umhugað um ekkjur og munaðarlausa, ekki um þá sem þjást og þá sem í fangelsi eru eða þá sem hungraðir eru eða þyrstir.

 

7. Þeir halda sig jafnvel fjarri evkaristíunni og almennu bænahaldi, vegna þess að þeir vilja ekki játa að evkaristían sé hold frelsara okkar Jesú Krists sem þjáðist fyrir syndir okkar og sem Faðirinn síðan í mikilli mildi sinni reisti upp aftur. Þrætur þeirra valda þeim glötun þar sem þeir hafna hinum góðu gjöfum Guðs. Til að kynnast upprisunni á einhvern hátt hefðu þeir gert betur að temja sér kærleika. Eina leið okkar í þessu máli er að hafa alls engin samskipti við þessa menn og forðast að tala um þá opinberlega eða í einkasamtölum. Við eigum þess í stað að snúa okkur að spámönnunum og einkum að guðspjallinu sem opnar augu okkar fyrir þjáningum Jesú og upprisu hans sem gnæfir í dýrð.

 

8. Forðist eindregið alla flokkadrætti því það er upphafið á illum gjörðum. Fylgið biskupi ykkar hver og einn ykkar og verið honum hlýðnir eins og Jesús Kristur var Föðurnum. Gegnið einnig prestum ykkar eins og þar væru postularnir; sýnið djáknum ykkar sömu virðingu og þið mynduð gera boði Guðs. Gangið úr skugga um að engar ráðstafanir séu gerðar varðandi kirkjuna án blessunar biskups. Eina evkaristían sem þið skuluð líta á sem gilda er hún sem biskup sjálfur hefur um hönd eða hann sem biskup gefur vald til þess. Þar sem biskup situr þar skal og hans fólk vera á sama hátt og hvarvetna þar sem Jesús Kristur er nærstaddur þar höfum við kaþólsku kirkjuna. Þá er ekki leyfilegt að skíra eða koma saman til kærleiksmáltíðar (9) án biskups. Hins vegar mun allt það sem fær blessun hans einnig að sönnu njóta velþóknunar Guðs. Þetta er leiðin til að ganga úr skugga um áreiðanleika og lögmæti alls þess sem þið gerið.

 

9. Það yrði skynsamlegast að hverfa eftirleiðis til heilbrigðrar hugsunar meðan enn er tími til að iðrast og snúa sér til Guðs. Þið þurfið einungis að játast Guði og biskupinum og allt fer vel. Með því að fara á bak við biskup veitið þið djöflinum þjónustu ykkar.

 

Megi því náð fylla ykkur í öllum gerðum ykkar eins og þið réttilega verðskuldið. Þið hafið gefið mér mikla huggun og megi ykkur auðnast það sama frá Jesú Kristi. Hvort sem ég hef verið í návist ykkar eða ekki hafið þið gefið mér elsku ykkar; megi Guð launa ykkur það. Umberið alla hluti í hans þágu og ykkur mun auðnast að lokum að dvelja í honum.

 

10. Móttökurnar sem þið gáfuð Fílo og Reus Agaþopous þjónum Guðs (sem hafa fylgt mér hingað til þjónustu við hann) voru ykkur til sóma. Þeir færa Drottni þakkir í ykkar þágu fyrir alla þá góðvild sem þið sýnduð þeim; og verið vissir um að þið berið ekki skarðan hlut frá borði af þeim sökum. Líf mitt er auðmjúk fórnfæring fyrir ykkur; og það eru þessir hlekkir mínir einnig en þeir urðu mér ekki til minnkunar í ykkar augum eða tilefni lítilsvirðingar. Ekki mun Jesús Kristur heldur í sinni fullkomnu trúmennsku blygðast sín fyrir ykkur.

 

11. Stöðugar bænir ykkur hafa orðið kirkjunni í Antíokkíu í Sýrlandi til góðs (þaðan sem ég kem til að heilsa öllum í mínum drottinlegu fjötrum. Ekki svo að skilja að ég sé þess verður að tilheyra kirkjunni þar, því ég er lang sístur þeirra allra; en það eru forréttindi gefin mér af hinum guðlega vilja. Sjálfur átti ég engan þátt í því; það var allt náð Guðs að þakka - náð sem ég bið nú að verði gefin mér af fullri gnægð til að ég nái því með aðstoð bæna ykkar að komast til hans). Til að fullkomna verk ykkar bæði nú og eftirleiðis yrði það vel við hæfi og Guði til mikils sóma ef kirkja ykkar tilnefndi einhvern til að fara sem erindreki hans til Sýrlands með heillaóskir ykkar í tilefni þess að friður ríkir þar á ný; að söfnuðurinn sé nú aftur fullskipaður og endurreistur til einingar í einum líkama. Ég tel að þið séuð vel að því komnir að senda þeim bréf með einum af ykkur og að þið sameinist þeim í að gefa Guði dýrð fyrir þá friðsæld sem hann hefur veitt þeim og þá staðreynd að fyrir bænir ykkar hefur þeim loksins tekist að komast í örugga höfn. Þar sem andi ykkar hefur þroskast vel, þá verið í guðs bænum þroskaðir í hugsun núna. Og ef sá er vilji ykkar að gera gott, verður Guð til reiðu til að markmiðinu verði náð.

 

12. Félagar okkar hér í Tróas senda ykkur sínar kærleikskveðjur. Bréf þetta er borið til ykkar af Burrhúsi sem þið og Efesusmenn senduð mér sameiginlega til að halda mér félagsskap. Hann hefur verið mér mikil huggun á allan hátt. Ég vildi að allir væru sem hann því hann er fullkomið dæmi um hvernig inna á af hendi helga þjónustu og Guð mun sannarlega launa honum ríkulega. Mínar bestu kveðjur til dýrlegs biskups ykkar, til heiðraðra presta ykkar, til samþjónustumanna minna, djáknanna, og til ykkar allra í nafni Jesú Krists, holds hans og blóðs, þjáninga hans og upprisu líkama hans og anda; í einingu Guðs og einnig í einingu ykkar. Náð, miskunn, friður og langlyndi sé með ykkur nú og um aldir alda.

 

13. Ég sendi einnig kveðjur til fjölskyldna bræðra minna sem búa við eiginkonur og börn og til þeirra meyja sem þið nefnið ekkjur. Ég bið að heilsa ykkur í nafni Föðurins. Fílo sem er hér með mér sendir kveðju sína. Berið Tavíu og fjölskyldu hennar kveðju mína; ég bið fyrir staðfestu hennar bæði í veraldlegu og andlegu lífi sem hún rækir af trú og kærleika. Kveðjur mínar til Alces sem er mér mjög kær og til hinna óviðjafnanlegu Dafnus og Evteknus og allra hinna.

 

Ég bið að heilsa og náð Guðs sé með ykkur.

 

.....................................

 

(1) Heilagur Ignatíus kirkjufaðir, sem var biskup í Antíokkíu, var dæmdur til dauða þegar hann var kominn á efri ár og skrifaði hann þetta bréf og sex önnur á leið sinni til Rómar, þar sem hans beið dauðinn í hringleikahúsi. Bréfið er talið vera frá árinu 107.

 

(2) Þ.e. kristilegt innræti safnaðarins er sem himneskir fjársjóðir.

 

(3) Sbr. Mt 3.15 um skírn Jesú: "Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti."

 

(4) Sumir af fyrstu kirkjufeðrunum líktu krosstrénu á Golgata við lífsins tré í Paradís.

 

(5) Sjá Jes 5.26; sbr. Jh 12.32.

 

(6)Það að neita ódauðleika Krists jafngildir höfnun þess sama fyrir manninn og þar með fyrir þá sjálfa.

 

(7) Þar sem þeir halda því fram að píslarganga Krists sé hugarburður hljóta allar þjáningar í nafni Krists að vera til einskis.

 

(8) Þar sem hann trúir ekki að hann rísi upp eftir dauðann.

 

(9) Sameiginleg máltíð kristinna manna er nefndist "agape".

 

Þýðing © Reynir Guðmundsson 1999

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014