Bréf heilags Ignatíusar frá Antíokkíu til Rómverja

Frá Ignatíusi, öðru nafni Þeófórus, til kirkjunnar sem fundið hefur náð í mikilfengleika hins alhæsta Föður og einkasonar hans, Jesú Krists. Kirkja er hún fyrir vilja hans, sem knýr alla hluti, elskuð og upplýst fyrir kærleika sinn til Guðs okkar, Jesú Krists; hún sem situr í öndvegi á yfirráðasvæði Rómar2 - kirkjan sem er verðug Guðs, verðug virðingar, blessunar, lofs og velgengni; verðug heilagleika, fremst í kærleika, fremst í að halda í heiðri boð Krists og fremst í að bera nafn Föðurins; verðug blessunar í nafni Jesú Krists, Sonar Föðurins. Öll hamingja í Jesú Kristi, Guði okkar, sé ykkar sem eruð í anda og líkama í einingu við sérhvert boðorð hans, fylltir náð Guðs af öllu hjarta og hreinsaðir af sérhverjum framandi og spillandi óhreinindum.

 

1. Ég hef fengið bæn mína uppfyllta. að ég fái lifað þar til ég hitti ykkar trúrækna samfélag augliti til auglitis. Raunar hef ég fengið meira en ég bað um, þar sem nú get ég gert mér vonir um að fá að hitta ykkur sem hlekkjaður fangi Jesú Krists, sé það vilji hans að tilgangi mínum með ferðinni verði náð. Hingað til hefur þetta verið áfallalaust og nú veltur allt á því að ég nái takmarki mínu og öðlist erfðarréttinn án hindrana. En það sem ég hræðist mest er að góðvild ykkar í minn garð geri mér ógagn.3 Það sem þið hafið ásett ykkur að gera mun að sjálfsögðu reynast ykkur auðvelt, en erfitt mun reynast fyrir mig að ná til Guðs nema þið hlífið mér við afskiptum ykkar.

 

2. Ekki vil ég að þið þóknist mönnum4 heldur Guði eins og þið hafið venju til. Ég mun aldrei fá betra tækifæri en þetta að komast til Guðs; og hvað ykkur viðvíkur mun ekkert sem þið gerið verða fært ykkur meira til tekna en ef þið þegið. Því að með þögn ykkar og afskiptaleysi getið þið gert mig að skýrum vitnisburði Guðs;5 en ef umhyggja ykkar beinist eingöngu að mínu auma mennska lífi þá verð ég lítið annað en volaður maður enn á ný. Ég bið ykkur einungis um þessa einu góðvild: leyfið mér að vera dreypifórn sem úthellt er Guði6 meðan altarið stendur mér enn búið. Síðan megið þið skipa ykkur í ljúfan kór þar umhverfis og syngja í Jesú Kristi lofgjörðarsálma til Föðurins fyrir að hafa leyft biskupi frá Sýrlandi, sem kallaður var úr ríki morgunsins, að ná til lands sólsetursins.7 Hversu gott það er að fá að hverfa niður fyrir sjóndeildarhring heimsins til móts við Guð og fá að rísa upp aftur inn í dögun nærveru hans!

 

3. Það hefur aldrei verið siður ykkar að bera kala til nokkurs manns. Öðrum hafið þið leiðbeint.8 Það eina sem ég sækist eftir er að sú meginregla sem þið innrætið trúnemum í kennslu ykkar verði haldin í heiðri núna. Eina fyrirbænin sem ég vildi að þið kæmuð á framfæri fyrir mig, væri að mér yrði gefinn fullnægjandi innri og ytri styrkur til að ég megi vera jafn staðfastur í vilja og ég er í orði og að ég verði kristinn í sannleika þess orðs í stað þess að vera það einungis af virðingu (þó þannig að jafnskjótt sem ég verð það í sannleika þess orðs geti ég jafnframt notið virðingarinnar og verið talinn dyggur og trúr jafnvel eftir að heimurinn sér mig ekki lengur). Því það góða er ekki að finna í því sem augu þín sjá; sú staðreynd að Jesús Kristur er nú í Föðurnum er ástæða þess að við fáum skynjað hann á mun skýrari hátt. Ekki dugar að hafa sannfærandi talsmáta til að inna af hendi þá vinnu sem okkur ber; að vera kristinn þýðir að ganga þvert gegn hatri heimsins og öðlast mikilleika.

 

4. Ég er að skrifa öllum kirkjunum til að fullvissa þær um að mér sé full alvara að deyja fyrir Guð - ef þið einungis hindrið mig ekki á leið minni. Ég sárbæni ykkur að sýna mér ekki slíka ótímabæra góðvild; í öllum bænum leyfið mér að verða að æti fyrir óargadýrin því að þau geta opnað mér leið til Guðs. Ég er hveitikorn Guðs, sem fínmalað verður í tönnum ljónanna til að úr mér verði hið skírasta brauð Krists.9 Eggjið frekar skepnurnar til að þær verði mér gröf; lát þær ekki skilja hina minnstu ögn eftir af holdi mínu svo að ég verði engum byrði eftir að ég er sofnaður. Ég verð sannarlega orðinn lærisveinn Jesú Krists þegar líkaminn er algjörlega horfinn heiminum. Biðjið mér árnaðar að með þessum hætti verði ég fórnfærður Guði. Ég gef ykkur hinsvegar engin fyrirmæli eins og þeir Pétur og Páll gerðu.10 Þeir voru postular en ég er sakfelldur glæpamaður. Þeir voru frjálsir menn en ég er enn þræll11 (en ef ég þjáist mun Jesús Kristur gefa mér lausn og í honum mun ég rísa upp aftur sem frjáls maður). Nú sem stendur kenna þessir hlekkir mér að segja skilið við jarðneskar langanir.

 

5. Engu að síður hef ég nú þegar staðið í átökum dag og nótt við rándýr á landi og sjó12 alla leiðina frá Sýrlandi til Rómar; hlekkjaður eins og ég er við tíu grimma hlébarða (með öðrum orðum flokk hermanna) sem gerast æ harðsvíraðri eftir því sem þóknun þeirra verður meiri. Þrátt fyrir það gerir ill meðferð þeirra mér að minnsta kosti kleift að þroskast að nokkru leyti í hlutverki lærisveinsins; "en með því er ég þó ekki sýknaður." Ég bíð í eftirvæntingu eftir ljónunum sem mér eru ætluð. Það eina sem ég vona er að þau verði skjót til verka. Ég ætla, ólíkt sumum öðrum vesalingum sem hafa verið of líflausir til að vera ómaksins verðir, að eiga frumkvæðið til að þau megi gleypa mig í sig með hraði. Og ef það hrífur ekki mun ég ganga í skrokk á þeim. Þið verðið að fyrirgefa mér, en ég veit hvað mér er fyrir bestu. Þetta er fyrsta skrefið á lærisveinsferli mínum; ekkert vald, sýnilegt eða ósýnilegt, má letja mig að komast til Jesú Krists. Lát hverja andstyggðar og djöfuls pyndingu yfir mig ganga - eld, krosspínu, fangbrögð við óargadýr, aflimun, beinbrot og limlestun, jafnvel að allur líkaminn verði brotinn mélinu smærra svo framarlega sem ég vinni mér leið til Jesú Krists.

 

6. Öll endimörk jarðar, öll konungdæmi heimsins eru mér einskis virði; heldur vildi ég deyja í Jesú Kristi en að vera konungur yfir mestu víðlendum jarðar. Ég leita einungis hans sem dó fyrir okkur; mín eina þrá er hann sem reis upp aftur fyrir okkur. Ég er í fæðingarhríðum; sýnið mér langlundargeð, kæru bræður, og meinið mér ekki aðgang að lífinu, óskið mér þess ekki að fæðast andvana. Hér er sá sem hefur þá einu löngun að vera Guðs; færið hann ekki aftur heiminum að gjöf eða villið um fyrir honum með jarðneskum hlutum. Hindrið mig ekki að ná til ljóssins, ljóssins hreina og skæra; því einungis þegar ég er þangað kominn mun ég verða sannur maður. Leyfið mér að breyta eftir Guði mínum í píslum hans. Lát þann ykkar sem hefur Guð innra með sér skilja löngun mína; hann mun þá finna til með mér vegna þess að hann mun þekkja það sem ég er nauðbeygður til.

 

7. Höfðingi þessa heims vonast eftir að ná tökum á mér og grafa undan ásetningi mínum sem er allur Guðs. Megi enginn ykkar ljá honum aðstoð sína heldur verði hann með mér því þá eruð þið með Guði. Hafið ekki Jesúm Krist á vörum ykkar en heiminn í hjörtum ykkar; ræktið ekki með ykkur þá hugsun að letja mig. Jafnvel þótt ég kæmi í eigin persónu og sárbændi ykkur þá hlustið ekki á bón mína heldur virðið þetta skriflega bænarskjal. Hér og nú sem ég skrifa í fullnustu lífs míns þrái ég dauðann með allri ástríðu elskhugans. Það sem mér er kærast hefur verið krossfest; það gneistar ekki lengur í mér þrá eftir fallvöltum hlutum heldur er innra með mér einungis kliður lifandi vatns sem hvíslar: "Komdu til Föðurins." Enga ánægju hef ég af fæðu sem eyðist eða unaðssemdum þessa lífs; ég þrái brauð Guðs, sem er hold Jesú Krists sem var af kyni Davíðs; og til drykkjar fýsir mig blóð hans sem er kærleikurinn ósigrandi.

 

8. Ekki vil ég meir af því sem menn kalla líf. Og það sem ég vil getur ræst sé það ósk ykkar. Biðjið og látið það verða að ósk ykkar til að óskir ykkar rætist.13 Til að lengja ekki mál mitt biðla ég til ykkar að trúa mér. Jesús Kristur gerir ykkur það ljóst að ég mæli sannleikann; hann hefur enginn ósannindi á vörum og mælir orð Föðurins. Biðjið mér því næst árnaðar að ósk mín rætist; því nú skrifa ég ekki sem hreinn og beinn maður heldur mæli ég samkvæmt huga Guðs. Fái ég að þjást hafið þið elskað mig; sé mér hafnað hafið þið hatað mig!

 

9. Munið kirkjuna í Sýrlandi í bænum ykkar sem í minn stað hefur Guð til hirðisstarfa. Jesús Kristur er einn biskup hennar - hann og kærleikur ykkar. Hvað mig varðar þá finn ég til blygðunar að vera tignaður þar til félags; ég hef alls engan rétt til þeirrar nafnbótar því ég var lang sístur þeirra allra, ótímaburður14 (þótt það muni rætast úr mér fyrir náð Guðs ef mér tekst einhvern tíma að komast í návist hans).

 

Ég heilsa ykkur í anda og þær kirkjur sem hafa hýst mig í nafni Jesú Krists senda ykkur einnig elsku sína. (Það voru engar venjulegar móttökur sem þær gáfu mér því jafnvel kirkjusöfnuðir sem lágu fjarri leið minni komu og fylgdu mér frá einni borg til þeirrar næstu.)

 

10. Þetta bréf kemur til ykkar frá Smýrnu borið höndum hinna lofsverðu Efesusmanna. Krókus, sem er mér mjög kær, er hérna svo og fjöldi annarra. Ég held að ykkur hafi þegar verið sagt frá þeim sem fóru á undan mér frá Sýrlandi til Rómar til dýrðar Guði. Segið þeim að ég sé ekki langt undan. Einn sem allir hafa þeir verðskuldað umhyggju Guðs og ykkar; það er öldungis rétt af ykkur að gera það sem í ykkar valdi stendur til að hughreysta þá.

 

Ég skrifa þetta til ykkar á tuttugasta og fjórða degi ágústmánaðar. Ég kveð ykkur að sinni uns stundin rennur upp. Bíðið þolinmóðir eftir Jesú Kristi.

 

___

 

(1) Heilagur Ignatíus kirkjufaðir, sem var biskup í Antíokkíu, var dæmdur til dauða þegar hann var kominn á efri ár og skrifaði hann þetta bréf og sex önnur á leið sinni til Rómar, þar sem hans beið dauðinn í hringleikahúsi. Bréfið er talið vera frá árinu 107.

 

(2) Vísbending um hver staða Rómarkirkjunnar var í upphafi annarrar aldar kristni.

 

(3) Hann er hræddur um að áhrifamiklir vinir í Róm fái hann náðaðan og geri þar með að engu vonir hans að deyja píslarvættisdauða.

 

(4) Þ.e. að styðja menn í viðleitni þeirra að reyna að frelsa hann.

 

(5) Þ.e. tjáningu guðspjallsins. vitnisburð um guðlegan tilgang.

 

(6 Það orðfæri sem heilagur Ignatíus notar hér í frumtexta er það sama og kemur fyrir hjá heilögum Páli postula í bréfi hans til Filippímanna (2.17) og í öðru bréfi hans til Tímóteusar (4.6). Altarið sem honum hefur verið búið er hringleikahúsið sem við þekkjum undir nafninu Colosseum.

 

(7) Ítalíu, landinu lengst í vestri séð frá sjónarhóli biskups frá Sýrlandi.

 

(8) Ekki er ólíklegt að hann hafi m. a. í huga bréf heilags Klemensar I páfa (91-101) til Korintumanna en það bréf hefur varðveist. Það er ef til vill til merkis um stöðu Rómarkirkjunnar að ólíkt öðrum bréfum sínum lætur heilagur Ignatíus það vera að kenna þeim og vara þá við villu.

 

(9) Til tákns um hreinleika var einungis brauð af hæsta gæðaflokki notað í fórnfæringu altarisþjónustunnar.

 

(10) Bendir ótvírætt til þess að báðir hafi þeir verið í Róm og haft postullegt vald yfir kirkjunni þar.

 

(11) Margir hafa túlkað þetta á þann veg að heilagur Ignatíus hafi verið og jafnvel verið enn þræll í eiginlegri merkingu þess orðs. Hins vegar er jafn líklegt að hann hafi einungis verið að vísa til vonlausrar stöðu sinnar.

 

(12) Ef merkingin er eiginleg verður að gera ráð fyrir að fyrsti hluti ferðarinnar til Rómar hafi verið farin með skipi frá Selevkíu (hafnarborg Antíokkíu) til Attalíu í Pamfýlíu.

 

(13) Þ.e. gagnvart Guði.

 

(14) Heilagur Páll postuli lýsir sjálfum sér á sama hátt í fyrra bréfi sínu til Korintumanna (15.8). Hérna, eins og þar, gefur líkingin til kynna skyndileg sinnaskipti til kristni en hægan og viðkvæman trúarþroska.

 

Þýðing © Reynir Guðmundsson 1999


 

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014