Bréf heilags Ignatíusar frá Antíokkíu til Magnesíumanna

Frá Ignatíusi, sem heitir öðru nafni Þeófórus, til kirkjunnar í Magnesíu við ána Mæander, sem blessuð er náð Guðs Föður í Jesú Kristi frelsara okkar, og í honum sendi ég þessar kveðjur mínar. Megi ykkur öllum auðnast hamingja í Guði Föður og Jesú Kristi.

 

1. Það veitti mér svo mikla ánægju að frétta af því agaða líferni sem kristinn kærleikur hefur fært ykkur að ég ákvað að ávarpa ykkur stuttlega í trú Jesú Krists. Þar sem ég geng um í þessum hlekkjum og hef fengið nafnbót sem umvafin er dýrðarljóma, dásama ég kirkjurnar og bið að þær séu eitt í holdi og anda Jesú Krists sem er stöðug uppspretta lífs okkar. Megi þær vera sem einn maður í trú og kærleika sem hafið sé yfir allar aðrar dyggðir. En umfram allt að allar séu þær í einingu Jesú og Föðurins því það er einungis með því að þola í honum alla auðmýkingu af hálfu höfðingja þessa heims, en þó fá flúið undan hrammi hans, að við fáum komist til nærveru við Guð.

 

2. Það voru mér forréttindi að sjá ykkur bregða fyrir í persónu hins sæla biskups ykkar, Damasar, og þeirra göfugu presta Bassusar og Apolloníusar sem og samþjónustumanns míns, Sótíónusar djákna. Ekki get ég annað en haft ánægju af félagsskap hans því hann er jafn trúr biskupinum og hann er náð Guðs og prestunum og hann er lögmáli Jesú Krists......2

 

3. Hvað ykkur viðvíkur megið þið alls ekki reyna að notfæra ykkur ungan aldur biskups ykkar heldur verðið þið að sýna honum lotningu í hvívetna og bera virðingu fyrir því valdi sem Guð hefur veitt honum. Samkvæmt mínum upplýsingum hafa hinir helgu prestar aldrei látið sér til hugar koma að færa sér það í nyt að hann komst óvenju snemma til embættis síns; þeir lúta honum sem vitrir Guðsmenn - eða réttar sagt, biskupi okkar allra, Föður Jesú Krists. Til virðingar honum sem elskar okkur er hlýðni því einungis rétt skylda ykkar, ekki einungis í orði heldur einnig á borði. Það er ekki spurning um að ávinna sér hylli tiltekins biskups sem er ykkur sýnilegur heldur hans sem er óséður og í því tilfelli er það ekki hold og blóð sem þarf að glíma við heldur Guð sem þekkir öll okkar leyndarmál.

 

4. Það sem hér um ræðir er það að við eigum ekki einungis að kalla okkur kristna heldur og vera það í verkum okkar. Ekki vera eins og sá sem ávarpar einhvern sem biskup en hunsar hann síðan í reynd. Ég fæ ekki séð hvernig þess konar fólk getur haft hreina samvisku vitandi það að samkomurnar sem það heldur hafa ekkert lögmætt gildi.3

 

5. Allt á sín endalok og við stöndum frammi fyrir tveim valkostum. Þeir eru líf og dauði; og hver fer til síns tiltekna staðar. Það eru tvær mismunandi myntsláttur í umferð, ef okkur leyfist að taka svo til orða. Önnur er Guðs, hin er heimsins og hafa þær hvor um sig sín einkenni. Óguðlegir bera merki heimsins á meðan hinir trúuðu í kærleika sínum bera merki Guðs Föður fyrir Jesúm Krist. Nema því aðeins að við séum tilbúnir og viljugir að deyja í einingu við þjáningu Jesú Krists verður líf hans ekki í okkur.

 

6. Og þar sem ég hef nú séð með augum trúarinnar og umvafið allan söfnuð ykkar í persónum þeirra manna sem ég nefndi, þá leyf mér að brýna fyrir ykkur þörfina á því að þið gerið allt samkvæmt Guði. Látið biskupinn sitja Guði í stað og presta hans þar sem postulunum ber að sitja.4 Felið vinum mínum djáknunum þjónustu Jesú Krists, sem var með Föðurnum frá grundvöllun veraldar og var opinberaður á liðnum dögum. Hver og einn ætti að vera fylgispakur Guði; þið verðið að sýna hver öðrum tillitssemi á allan hátt og láta aldrei viðhorf ykkar gagnvart náunganum hafa áhrif á mannlegar tilfinningar ykkar, heldur einfaldlega að elska stöðugt hvern annan í Jesú Kristi. Leyfið engu því að þrífast á meðal ykkar sem gæti kynnt undir óeiningu; haldið fullkomna einingu við biskupinn og þá sem leiða ykkur, öðrum til fordæmis og leiðsagnar um ódauðleika.

 

7. Á sama hátt og Drottinn var allur í einingu Föðurins og gerði enga hluti aðskilinn frá honum, hvorki í eigin persónu né fyrir postulana, þannig megið þið aldrei gera neitt án biskups ykkar og presta. Reynið ekki á eigin spýtur að réttlæta neitt fyrir ykkur sjálfum; hafið eina bænastund þar sem allir koma saman - eina fyrirbæn, einn huga og eina von í kærleika og saklausan fögnuð í Jesú Kristi en enginn er honum fremri. Verið allir samankomnir eins og þið séuð að ganga til eina eftirstandandi musteris Guðs og eina altarisins. Hraðið ykkur til hins eina og sanna Jesú Krists - sem steig niður frá hinum eina Föður og er að eilífu með honum sem ríkir og til hans hefur hann nú snúið aftur.

 

8. Látið ekki falskar kenningar leiða ykkur á villigötur né úreldar og einskis nýtar goðsagnir. Ekkert í því gagnast okkur. Ef við lifum ennþá við gyðingdóm er það staðfesting á því að okkur hefur mistekist að öðlast náðargjöf. Jafnvel líferni hinna andlegu innblásnu spámanna var samkvæmt Jesú Kristi. Raunar var eina ástæða þess að þeir voru ofsóttir sú að þeir voru innblásnir náð hans til að þeir mættu fullvissa komandi kynslóðir óguðlegra um tilvist eins og aðeins eins Guðs, sem hefur opinberað sig í Syni sínum Jesú Kristi, eigin Orði sínu sem kom frá þögninni, og sem í öllu sem hann var og gerði gladdi hjarta hans sem sendi hann.

 

9. Við höfum séð hvernig fyrrverandi fylgismenn hins gamla siðar hafa síðan öðlast nýja von. Því hafa þeir hætt að halda sabbatsdag og miða líf sitt þess í stað við Drottins dag (daginn sem fyrstu geislar lífs okkar komu upp, þökk sé honum og dauða hans. Sá dauði, þótt sumir hafni honum, er einmitt sá leyndardómur sem hefur fengið okkur til að trúa og þola þrengingar til að sýna að við erum verðugir nemar Jesú Krists, okkar eina kennara). Með þetta í huga hvernig ætti það þá að vera okkur mögulegt að útiloka hann frá lífi okkar þegar jafnvel spámenn hins gamla tíma voru sjálfir nemendur hans í Andanum og litu fram á við til hans sem kennara síns? Þetta er raunar einmitt ástæða þess að hann, sem þeir vissulega biðu eftir, heimsótti þá og reisti þá upp frá dauðum.5

 

10. Lokum því ekki augunum fyrir góðvild hans. Ef hann myndi nokkru sinni breyta eftir hegðan okkar yrði úti um okkur. Nú þegar við erum nemendur hans skulum við læra að lifa sem kristnir menn. Ef við játum nokkurt annað nafn en hans glötum við Guði. Losið ykkur við hið gamla og einskis nýta súrdeig, sem nú er orðið staðnað og bragðvont og tileinkið ykkur það nýja sem er Jesús Kristur. Leyfið honum að vera salt ykkar og þá mun engin þráalykt leika um ykkur - því það er af angan ykkar sem þið verðið kunngjörðir. Að játa Jesúm Krist meðan haldið er áfram að fylgja siðum gyðingdóms er fásinna. Kristin trú lítur ekki til gyðingdóms heldur lítur gyðingdómur til kristindóms, sem safnar saman öllum þeim þjóðflokkum og tungum sem játa trú á Guð.

 

11. Ég er ekki að benda ykkur á þessa hluti, bræður mínir, vegna þess að ég telji mig vita að þetta eigi við einhvern ykkar; í allri auðmýk er mér einfaldlega mikið í mun að vara ykkur í tíma við duldum hættum grunnhygginna kenninga. Ég vil að þið séuð óbifanlegir í trú ykkar á fæðingu Krists, píslir hans og upprisu sem allt var óvefengjanleg og sönn reynsla Jesú Krists, sem er von okkar, á þeim dögum þegar Pontíus Pílatus var landshöfðingi. Megi Guð gefa að enginn ykkar muni nokkru sinni snúa af leið þeirrar vonar okkar.

 

12. Það er mín þrá að njóta hamingju í ykkur - það er að segja ef ég er þess verður; því þrátt fyrir að ég hafi hlekki að bera og þið hafið enga er ég samt sem áður óhæfur að bera mig saman við einhvern ykkar. Því þið, eins og ég þekki svo vel, eruð algjörlega lausir við drambsemi - þið hafið Jesúm Krist í ykkur; og mér er það ljóst að sérhvert lof af minni hálfu gerir það einungis að verkum að þið verðið í enn meiri óvissu um ykkur sjálfa - eða eins og skrifað er "réttlátur maður er sækjandi í eigin sök."

 

13. Leggið alla áherslu á að hvika ekki frá grundvallarreglum Drottins og postulanna til að allt sem þið gerið, í holdi eða anda, megi njóta hagsældar í trú og kærleika frá upphafi til enda og að það sé gert í Syninum og Föðurnum og Andanum og með háverðugum biskupi ykkar og prestunum - sem mynda fögur bænabönd - og hinum guðhræddu djáknum. Verið jafn undirgefnir biskupinum og hver öðrum og Jesús Kristur var Föður sínum og eins og postularnir voru Kristi og Föðurnum, til að fullkomin eining ríki í holdi sem og í anda.

 

14. Ég hef verið stuttorður í þessari hvatningu minni vegna þess að ég veit að Guð uppfyllir ykkur af gnægð. Minnist mín í bænum ykkar til að mér verði greið leiðin til Guðs; og minnist einnig kirkjunnar í Sýrlandi sem ég tilheyri óverðugur. Ég sárbæni ykkur að þið biðjið í einingu og kærleika til Guðs til að frá ykkur streymi ferskleiki til uppörvunar sýrlensku kirkjunni.

 

15. Fulltrúar Efesusmanna senda ykkur kveðjur sínar héðan frá Smýrnu þaðan sem ég skrifa þetta bréf. Eins og þið6 eru þeir hér til dýrðar Guði og þeir hafa verið mér á allan hátt huggun. Það hefur Pólýkarpus biskup í Smýrnu einnig verið. Hinar kirkjurnar senda einnig kveðjur sínar í virðingu Jesú Krists.

 

Ég bið að heilsa. Sjáið til þess að guðleg eining sé meðal ykkar og að andi ríki sem leyfir enga sundrungu, því hér er Jesús Kristur.

 

..................................................

 

(1) Heilagur Ignatíus kirkjufaðir, sem var biskup í Antíokkíu, var dæmdur til dauða þegar hann var kominn á efri ár og skrifaði hann þetta bréf og sex önnur á leið sinni til Rómar, þar sem hans beið dauðinn í hringleikahúsi. Bréfið er talið vera frá árinu 107.

 

(2) Hér vantar niðurlag setningarinnar.

 

(3) Hér er heilagur Ignatíus að vísa til samkoma andófsmanna sem haldnar voru án þátttöku eða blessunar biskups og var litið á þær sem ólögmætar og ógildar.

 

(4) Við guðsþjónustur í frumkirkjunni sat biskup á palli í miðju hálfhrings presta hans (sem er sama uppstilling og dómstólar notuðu). Þetta er að líkindum samlíking við tólf hásæti postulanna í kringum dýrðarhásæti Guðs. að hið jarðneska helgivald kirkjunnar samsvari sér þannig í hinu himneska. (5) "Í andanum fór hann einnig og predikaði fyrir öndunum í varðhaldi," segir í fyrsta bréfi heilags Péturs postula (3.19, sjá einnig 4.6). Sú skoðun var almenn að þegar Kristur steig niður "til heljar" (eða limbus patrum) hafi hann fundið fyrir hina helgu menn Gamla testamentisins og boðað þeim þar fagnaðarerindið og reist þá síðan til lífsins á himnum.

 

(6) Magnesíumenn eru allir viðstaddir í persónum sendimanna þeirra.

 

Þýðing © Reynir Guðmundsson 1999

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014