Bréf heilags Ignatíusar frá Antíokkíu til heilags Pólýkarpusar

Frá Ignatíusi, sem heitir öðru nafni Þeófórus, innilegustu kveðjur mínar til Pólýkarpusar, sem er biskup yfir kirkjunni í Smýrnu - eða réttara sagt, sem hefur Guð Föður fyrir biskup yfir sér ásamt Drottni Jesú Kristi.

 

1. Þar sem ég hafði metið mikils andlegt atgervi þitt - traust að því er mér virðist sem óbifanlegur klettur - varð það mér mikil gleði að sjá með eigin augum þína dýrlegu ásýnd (megi Guð gefa mér gleði hennar). En leyf mér að leggja hart að þér að vera jafnvel enn ötulli í stefnu þinni, gefinn þeirri náð sem þú hefur, og leiða allt fólk þitt til hjálpræðis. Þú átt að vera verðugur stöðu þinnar og sýna ýtrustu kostgæfni bæði í veraldlegum sem og andlegum skyldum þínum. Beindu huga þínum sérstaklega að því að halda einingu því ekkert er mikilvægara. Vertu öllum mönnum stoð eins og Drottinn er þér og vertu þeim þolinmóður í hjarta eins og þér er nú tamt. Vertu stöðugur í bæn og biddu af öllum mætti að þú öðlist jafnvel enn meiri visku. Vertu vel á verði og unn þér ekki hvíldar í anda. Láttu þig varða hag fólksins persónulega, eins og Guð sjálfur er vanur að gera, og berðu bágindi þeirra allra þér á herðum eins og góður keppnismaður Krists á að gera. Því þyngri sem byrðarnar eru því meiri verða verðlaunin.

 

2. Það verður ekki talið þér til tekna ef þú sýnir einungis þeim lærisveinum þínum góðvild sem skara fram úr. Reyndu heldur að aga með mildi þinni þá sem valda vandræðum. Enginn getur grætt sérhvert sár með sömu smyrslum; til að lina bráðan sársauka verðum við að nota heitan bakstur. Vertu því í öllum tilvikum "kænn sem höggormurinn en þó ávallt falslaus sem dúfan." Ástæða þess að þér er gefinn líkami auk sálar er sú að þér farnist vel í því sem þér er sýnilegt; en á sama tíma mátt þú ekki láta hjá líða að biðja einnig um innsæi í hið ósýnilega til að þú líðir ekki skort og njótir fjársjóðs Andans í hvívetna. Til að menn nái til Guðs á tvísýnum tímum sem þessum er þín þörf, á sama hátt og skip þarfnast stýrimanns við stjórnvölinn eða sjófarandinn vars í sjávarham. Hlífðu því ekki sjálfum þér eins og sönnum afreksmanni Guðs sæmir. Verðlaunin eru, eins og þú veist fullvel, ódauðleiki og eilíft líf. Ég færi sjálfan mig og þessa hlekki, sem þú dáir svo heitt, til auðmjúkrar fórnar fyrir þig.

 

3. Þú mátt ekki láta þá koma þér úr jafnvægi sem á trúverðugan hátt setja fram afvegaleiddar kenningar sínar. Vertu fastur fyrir eins og steðji undir hamri. Það er einkenni þess sem fremstur fer að víkja sér ekki undan refsingu og standa samt sem áður uppi sem sigurvegari. Það er skylda okkar, sérstaklega þegar í hlut á málstaður Guðs, að umbera alls konar raunir til að hann megi einnig umbera okkur. Því skaltu við hvert tækifæri sýna af þér mikla kostgæfni. Leitaðu hans sem er óháður tíma; hans sem er eilífur og ósýnilegur en gerði sig sýnilegan fyrir okkar sakir; hans sem ekkert fær snert og engar raunir þolir en þjáðist fyrir okkar sakir; hans sem kaus að þola alla hluti til frelsunar okkar.

 

4. Gættu þess að ekkjur séu ekki afskiptar; vertu verndari þeirra næstur Drottni. Sjáðu til þess að ekkert sé gert án þess að þú sért með í ráðum, og að þú sjálfur gerir ekkert án þess að ráðfæra þig við Guð - sem ég er viss um að þú gerir. Vertu staðfastur. Komið oftar saman og kallaðu hvern til þín með nafni. Sýndu ekki ofríki gagnvart þrælum hvort sem um karl eða konu er að ræða en láttu þau hins vegar ekki fyllast drambi. Þau eiga að stefna að því að verða betri þrælar til dýrðar Guði svo þau öðlist frá hendi hans æðra frelsi. Það á ekki að eiga hug þeirra allan að öðlast frelsi á kostnað kirkjunnar(2) því þá verða þau einungis þrælar eigin langana.

 

5. Vertu á verði gegn ráðabruggi syndsamra manna; gakktu skrefi lengra og predikaðu opinberlega gegn þeim. Segðu við systur mínar að elska Drottin og vera ánægðar í holdinu og í andanum með eiginmenn sína. Áminntu jafnframt bræður mína í nafni Jesú Krists að elska eiginkonur sínar eins og Drottinn elskar kirkjuna. Ef einhver megnar það að eyða allri ævinni í skírlífi til virðingar við líkama Drottins þá leyf honum það en eigi skal hann stæra sig af því. Því ef hann stærir sig af því er hann glataður og nái fregnin eyrum fleiri en biskups er úti um skírlífi hans. Þegar karl og kona ganga í hjónaband er ráðlegt að fá samþykki biskups fyrir einingu þeirra til að giftingin verði til lofs Drottni en ekki þeirra eigin holdlegra langana. Allir hlutir ættu að vera til heiðurs Guði.

 

6. Gætið þess að sýna biskupi ykkar(3) tillitssemi ef þið viljið að Guð sýni ykkur tillitssemi. Það yljar mér um hjartarætur að sjá menn sem eru hlýðnir biskupi sínum, prestum og djáknum og ég bið þess að mér verði búinn staður þeim við hlið á himnum. Sameinist í striti ykkar, verið félagar í stríði og keppni, félagar í sársauka og pínu, félagar í hvíld og vöku; verið sem góðir ráðsmenn Guðs, hjálparmenn hans og þjónar. Gerið allt sem í ykkar valdi stendur til að þóknast leiðtoganum sem þið þjónið og munuð fá laun ykkar frá. Gætið þess vandlega að engan liðhlaupa sé að finna meðal liðsmanna ykkar. Hafið skírnina fyrir skjöld, trúna fyrir hjálm, kærleikann fyrir spjót og þollyndi ykkar fyrir brynju. Safnið saman góðverkum ykkar á sama hátt og hermaðurinn leggur til ávöxtunar sparnað sinn til að þið megið dag einn taka út inneign ykkar sem ykkur hefur verið færð til tekna.(4) Og sýnið hvert öðru umburðarlyndi og gæsku eins og Guð gerir. Megi þið nú og ávallt færa mér fögnuð.

 

7. Þær fregnir að regla hafi komist á hlutina, þökk sé bænum ykkar, í kirkjunni í hinni sýrlensku Antíokkíu hafa veitt mér mikla sálarró. Þessi himnasending er mér til léttis - þó þannig að þjáningar mínar opni mér að lokum leið til Guðs og að fyrir árnaðarbænir ykkar verði ég fundinn sannur lærisveinn. Og nú, minn sæli Pólýkarpus, yrði það vel viðeigandi ef þú kallaðir saman æruverðuga ráðgjafa þína og veldir einhvern sem nýtur virðingar og er þekktur af gjörðum sínum og myndi sóma sér sem sendiboði Guðs. Láttu hann færa Guði dýrð með því að ferðast til Sýrlands og varpa ljóma á þinn eigin óþrjótanlega kærleika. Þegar allt kemur til alls er kristinn maður ekki eiginn herra; hann ráðstafar Guði tíma sínum. Þetta verk er Guðs og það verður einnig þitt þegar það er fullkomnað. Því ég ber fullt traust til náðar Guðs og fúsleika þíns að vinna þær dáðir sem eru honum verðar. Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um þessa uppástungu því ég þekki hina miklu einlægni þína.

 

8. Þar sem ég verð að fara sjóleiðina frá Tróas til Neapólis á hverri stundu (svo hefur hinn guðlegi vilji mælt fyrir), gefst mér ekki tækifæri til að skrifa sjálfur öllum kirkjunum. Gætir þú, sem þekkir huga Guðs, skrifað á undan til kirknanna á leið minni og beðið þær að gera eins? Þær sem það geta ættu að senda fulltrúa sinn og hinar gætu sent bréf með sendimanni þínum. Það mun verða ykkur öllum til ævarandi heiðurs. Þú ert hæfastur til þessa verkefnis.

 

Bestu óskir til ykkar allra. Einnig til konu skattlandsstjórans, sem sér um stórt heimili, og barna hennar. Minnstu mín einnig við kæra Attalus. Berðu hinum heppna manni kveðjur mínar sem valinn verður til fararinnar til Sýrlands. Náð Guðs mun vera yfir honum allan tímann og jafnframt yfir Pólýkarpusi fyrir að hafa sent hann. Bestu kveðjur ávallt í Guði okkar, Jesú Kristi. Hvílið í honum í einingu og undir forsjá Guðs. Minnstu mín við Alce, þess góða manns.

 

Bið að heilsa í Drottni.

 

......................................................

 

(1) Heilagur Ignatíus kirkjufaðir, sem var biskup í Antíokkíu, var dæmdur til dauða þegar hann var kominn á efri ár og skrifaði hann þetta bréf og sex önnur á leið sinni til Rómar, þar sem hans beið dauðinn í hringleikahúsi. Bréfið er talið vera frá árinu 107.

 

(2) Sumt af því fé sem kirkjan safnaði var notað til að kaupa þrælum frelsi.

 

(3) Nú beinir heilagur Ignatíus skyndilega máli sínu til alls safnaðarins en tekur síðar aftur upp þráðinn og ávarpar Pólýkarpus persónulega.

 

(4) Það var venja hjá Rómverjum að greiða hermönnum helming þóknunar þeirra (t.d. vegna herfangs sem kom til viðbótar launum þeirra) en hinn helmingurinn var lagður í sjóð til ávöxtunar og greiddur út til þeirra þegar og ef hermennirnir voru leystir undan herþjónustu með sæmd.

 

Þýðing © Reynir Guðmundsson 1999

 

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014