Bréf heilags Ignatíusar frá Antíokkíu til Fíladelfíumanna

Frá Ignatíusi, sem heitir öðru nafni Þeófórus, til kirkju Guðs Föður og Drottins Jesú Krists í Fíladelfíu í Asíu sem náðarsamlega býr við sátt og samlyndi í Guði; staðföst fagnar hún í þjáningu Jesú Krists og upprisu sem óhagganleg sannfæring hennar geymir fyrir fullnustu náðar hans. Ég sendi ykkur blessun mína í nafni blóðs Jesú Krists, í hverju er eilífur og óbrigðull fögnuður; hann skín hæst þegar menn eru í einingu við biskup sinn - sem og við presta sína og djákna en öll skipan þeirra er þóknanleg Jesú Kristi og er staðfest og fullgild samkvæmt vilja hans fyrir Heilagan Anda.

 

1. Embætti biskups ykkar er til heilla fyrir allt samfélagið. En ekki situr biskup ykkar í embætti sínu fyrir eigin rammleik, eins og mér er fullkunnugt um, eða að aðrir mannlegir þættir eigi þar hlut að máli. Því síður situr hann þar í eins konar anda sjálfsdýrkunar. Honum er það gefið fyrir kærleika Guðs Föður og Drottins Jesú Krists. Ég var djúpt snortinn af mildi hans; rólyndi hans kemur meiru til leiðar en mælgi annarra. Hin guðlegu boð eru honum jafn eðlileg og strengirnir hörpunni og í hjarta mínu bið ég blessunar huga hans sem á allan hátt er Guðs. Í honum kenni ég dyggð og fullkomnun og látlaust líf hans einkennist af æðruleysi og guðlegri mildi.

 

2. Þið sem eruð börn ljóss sannleikans eigið því að forðast óeiningu og villukenningar; og hvar sem biskup ykkar situr, þá verið honum fylgin sem lömb. Margir úlfar sýnast trúverðugir en þeir leita færis að hremma þá sem eru á Guðs vegum með háskalegum freistingum, en ef eining ríkir meðal ykkar verða þeir afskiptir.

 

3. Haldið ykkur fjarri slíku dauðans illgresi; hvorki er það gróðursett af Föðurnum né hlúir Jesús Kristur að því. (Ég er þó ekki að halda því fram að ég hafi fundið neinn raunverulegan klofning meðal ykkar; það þurfti einungis að hreinsa burt nokkrar dreggjar.) Sérhver maður sem tilheyrir Guði og Jesú Kristi stendur með biskupi sínum. Hinir sem iðrast og koma aftur til einingar við kirkjuna munu einnig tilheyra Guði og laga líf sitt til hlýðni við Jesúm Krist. En velkist ekki í vafa um það, kæru bræður, að fylgjendur hvers þess sem klofningi veldur geta aldrei erft ríki Guðs. Þeir sem taka framandi hliðarspor í kenningu fyrirgera allri þátttöku í þjáningu Drottins.

 

4. Gangið því úr skugga um að þið haldið í heiðri eina evkaristíu2 því það er einungis eitt hold Drottins okkar Jesú Krists og ekki nema einn bikar einingar blóðs hans og eitt einasta fórnaraltari - og einn er einnig biskup ásamt prestum sínum og samþjónustumönnum mínum, djáknunum. Þetta mun tryggja það að allt sem þið gerið verði í fullu samræmi við vilja Guðs.

 

5. Bræður, elska mín til ykkar er mikil og það er mér mikil ánægja að ganga í ábyrgð fyrir ykkur eins og ég geri - þótt það sé ekki ég sjálfur í raun og veru heldur Jesús Kristur. Það er hans vegna sem ég er í hlekkjum. En þessi forréttindi auka einungis í mér óttann þar sem ég er enn svo langt frá fullkomnun. Samt sem áður munu bænir ykkar setja mark sitt á þroska minn í Guði og hjálpa mér að fá það að erfðum sem hin góða guðlega forsjón hefur heitið mér. Ég leita mér athvarfs í erindi guðspjallsins sem þar væri hinn holdi klæddi Kristur og í postulunum eins og þeir birtast í prestþjónustu kirkjunnar. Ekki svo að skilja að spámennirnir eigi ekki sinn sess í hjörtum okkar, en þeir boðuðu einnig guðspjallið í predikunum sínum og settu von sína á hann. Þeir biðu hans í eftirvæntingu og fyrir trú sína á hann hafa þeir öðlast hjálpræði í einingu Jesú Krists. Slíkir helgir menn verðskulda elsku okkar og aðdáun. Jesús Kristur hefur gefið þeim vitnisburð sinn og þeir hafa verið gerðir hluttakendur í hinni algildu von guðspjallsins.

 

6. En hvað sem því líður, ef einhver reynir að koma á framfæri við ykkur gyðingdómi, ættuð þið ekki leggja við hlustir. Betra er að heyra um kristindóm frá manni sem er umskorinn heldur en um gyðingdóm frá manni sem það er ekki - þótt að mínu áliti séu þeir báðir, ef þeir boða ekki Jesúm Krist, lítið meira en sem gröf og grafsteinn hinna dauðu, sem geymir einungis áletrun dauðlegra manna. Forðist slíkar snörur og brögðótta klæki höfðingja þessa heims, að öðrum kosti mun kænska hans lama þrótt ykkar og veikja elsku ykkar. Komið því allir hver og einn til fundar sem einn maður og alið ekki á óeiningu í hjörtum ykkar.

 

Mér er léttir að segja að hvað ykkur varðar þá er samviska mín hrein. Enginn getur gengið svo langt að halda því fram að ég hafi nokkru sinni beitt einhvern ykkar harðræði í neinu máli, stóru eða smáu. Ég get einungis vonað að enginn þeirra sem ég talaði til, finni að þau orð sem ég sagði verði notuð til sönnunar gegn þeim.

 

7. Það er rétt að sumir tóku eitt sinn upp á því að blekkja mig á veraldlegum vettvangi. En andi minn verður hins vegar ekki blekktur, því frá Guði er hann og hann veit hvaðan hann kemur og hvert hann fer. Hann varpar ljósi á það sem hulið er. Því var það þegar ég var kominn til ykkar, að ég hrópaði upp hárri röddu - sjálfri röddu Guðs: "Verið trúir biskupi ykkar og prestum og djáknum." Sumir viðstaddra grunuðu mig um að segja þetta vegna þess að ég átti þá að búa yfir vitneskju um vissa sundurþykkju meðal ykkar. En hann sem ég er í hlekkjum fyrir er til vitnis um að engar slíkar upplýsingar bárust mér eftir mennskum leiðum. Nei, þar talaði Andinn sjálfur og sagði ykkur að sniðganga aldrei biskup ykkar í gerðum ykkar, að viðhalda líkömum ykkar sem musteri Guðs, að hlúa að einingu og forðast sundrungu og breyta eftir Jesú Kristi eins og hann breytti eftir Föður sínum.

 

8. Hvað mig varðar, þá lagði ég mitt af mörkum til að viðhalda einingu, því þar sem óeining er og slæmt blóð rennur getur Guð hvergi verið nærri. Því er það að Drottinn fyrirgefur öllum þeim sem iðrast ef iðrun þeirra leiðir þá aftur til einingar við Guð og prestaráð biskups. Ég ber fyllsta traust til náðar Jesú Krists og hann mun leysa hvern þann hlekk sem bindur ykkur. Það er bón mín til ykkar að það sem þið ástundið verði ekki gert í nafni neins flokksanda heldur grundvallað á kenningu Krists.

 

Sumt fólk hefur lýst yfir svo ég heyrði: "Nema ég finni það í fornum heimildum neita ég að trúa guðspjallinu." En þegar ég fullvissa fólkið að það sé í raun og veru í Ritningunum, hreytir það út úr sér: "Það á eftir að sanna." En hvað mig varðar er Jesús Kristur mín heimild; hinar háhelgu heimildir eru kross hans, dauði, upprisa og trúin sem kemur fyrir hann. Og með þessu og með hjálp bæna ykkar vonast ég til að verða réttlættur.

 

9. Ég viðurkenni að prestar fyrri tíma nutu mikils álits en okkar eigin æðsti prestur er meiri því honum hefur verið falið það allrahelgasta3og honum einum hefur verið trúað fyrir hinum leyndu hlutum Guðs. Hann er inngangurinn til Föðurins og þar ganga þeir inn Abraham, Ísak og Jakob og spámennirnir engu síður en postularnir og öll kirkjan. Því allir eiga þeir sinn þátt í einingu Guðs. Engu að síður hefur guðspjallið eigin sérstöðu við að boða komu frelsara okkar Jesú Krists, þjáningu hans og upprisu. Okkur þykir vænt um spámennina og sannarlega benda þeir til hans í predikunum sínum. En það er samt sem áður guðspjallið sem rekur smiðshöggið á ódauðleika mannsins. Það er í öllum þessum mismunandi atriðum sameiginlega sem góðvildin býr ef maðurinn hefur elskandi trú.

 

10. Mér hafa borist þær fregnir að fyrir bænir og elskulegs hlýhugar ykkar í Kristi Jesú ríkir nú friður í kirkjunni í Antíokkíu í Sýrlandi. Það yrði því viðeigandi fyrir ykkur, sem kirkju Guðs, að útnefna einn djákna ykkar til að fara þangað sem erindreki Guðs og færa þeim heillaóskir ykkar, þegar þeir eru allir saman komnir og færa fram lofgjörð til dýrðar nafni Guðs. Sá maður sem þið teljið heppilegastan til slíkrar farar mun njóta blessunar Jesú Krists og mun hann samtímis stuðla að dýrð ykkar. Að því gefnu að velvilji sé fyrir hendi er þetta það minnsta sem þið getið gert fyrir nafn Guðs - það hafa kirkjur nærri þeim þegar gert með því að senda biskupa sína, fyrir utan aðrar kirkjur sem hafa sent presta og djákna.

 

11. Fílo, djákninn frá Kilikíu sem nýtur mikillar virðingar, er núna að aðstoða mig við að predika orð Guðs. Það gerir einnig Reus Agaþopous, einn hinna útvöldu, sem hefur fylgt mér frá Sýrlandi og hefur einarðlega afneitað þessu jarðneska líferni. Báðir bera þeir móttöku ykkar vitni og við það bæti ég mínu þakklæti til Guðs fyrir ykkur. Megi þið sjálfir fá engu síðri móttöku hjá Drottni. Hvað varðar vissar persónur sem komu ókurteislega fram við þá, er óskandi að þeir öðlist endurlausn fyrir náð Jesú Krists.

 

Bræður okkar hér í Tróas senda ykkur kærleikskveðjur sínar. Þaðan skrifa ég þetta og kemur það til ykkar borið höndum Burrhúsar sem Efesusmenn og Smýrnumenn sendu til að halda mér félagsskap í heiðursskyni. Megi þeir sjálfir njóta heiðurs Drottins Jesú Krists sem þeir vona á af líkama, sál og anda einum huga í trú og kærleika.

 

Ykkur kveð ég í Jesú Kristi, sem er von okkar allra.

 

.............................

 

(1) Heilagur Ignatíus kirkjufaðir, sem var biskup í Antíokkíu, var dæmdur til dauða þegar hann var kominn á efri ár og skrifaði hann þetta bréf og sex önnur á leið sinni til Rómar, þar sem hans beið dauðinn í hringleikahúsi. Bréfið er talið vera frá árinu 107.

 

(2) Sönn evkaristía er grundvöllur einingar. Hér er komin fyrsta vísbendingin um notkun orðsins "evkaristía" fyrir hið heilaga sakramenti. Sjá Bettenson, Henry The Early Christian Fathers, Oxford 1987 (1. pr.) s. 47.

 

(3) Inn í það allrahelgasta máttu einungis prestar Gyðinga fara. Leyndir hlutir Guðs er óbein tilvitnun til leyndra fjársjóða sem einungis prestar höfðu aðgang að (sáttmálsörkin, lögmálstöflurnar, kerið sem geymdi manna og stafur Arons).

 

Þýðing © Reynir Guðmundsson 1999

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014