Bréf heilags Ignatíusar frá Antíokkíu til Efesusmanna

Frá Ignatíusi, sem heitir öðru nafni Þeófórus, til kirkjunnar í Efesus í Asíu, sem nýtur mikilleika fyrir auðsýnilega blessun Guðs Föður í fullnustu náðar hans; og sem frá upphafi tíma hefur verið útvalin til ævarandi og óbreytanlegrar dýrðar; og sem býr við einingu og náð hinnar einu og sönnu píslargöngu fyrir vilja Föðurins og Jesú Krists Guðs okkar. Megi ykkur auðnast fullkomin hamingja í Jesú Kristi og flekklausum fögnuði hans.

 

1. Heimsókn ykkar til mín var himnasending. Sá hlýhugur sem einkennir nafn ykkar er ykkur eðlisbundinn og kemur einnig fyrir dyggð trúar ykkar og kærleika til frelsara okkar Jesúm Krist. Með því að hafa Guð til eftirbreytni hafið þið uppfyllt fullkomlega skyldur bróðurkærleikans af þeim brennandi áhuga sem hið dýrmæta blóð hans hefur tendrað. Því svo skjótt sem þið heyrðuð af för minni frá Sýrlandi sem fangi í þágu nafnsins og vonarinnar sem við deilum allir saman (og í trausti þess að fyrir bænir ykkar verði mér gefið að berjast við villidýr í Róm - blessun sem mun gera mér fært að verða að sönnum lærisveini), létuð þið ekkert aftra ykkur frá því að hitta mig. Þannig fékk ég í Guðs nafni tækifæri til að taka á móti öllu samfélagi ykkar í persónu biskups ykkar Onesímusar. 2 Ekkert fær lýst hjartfólginni góðvild hans; ég bið þess einlæglega að þið styðjið hann í sönnum anda Jesú Krists og að allir megið þið feta í fótspor hans. Þakkir séu honum sem gaf ykkur þau forréttindi að eiga slíkan biskup sem þið raunar eigið fyllilega skilið.

 

2. Nú vík ég að samþjónustumanni mínum, Búrrhusi, sem Guð gerði að djákna ykkar og gæddi mikilli blessun. Gæti ég farið fram á það að hann yrði hjá mér lengur? Það yrði bæði ykkur og biskupi ykkar til sóma. Krókus (sem einnig á skilið allt gott frá Guði og ykkur og ég fagnaði sem lýsandi dæmi um kærleika ykkar) hefur verið mér huggun á allan hátt. Megi Faðir Jesú Krists vera honum það á sama hátt. Onesímus og Búrrhus hafa einnig verið mér það sem og þeir Evplus og Fronto. Í þeim hef ég fengið fagra spegilmynd af ykkur öllum. Megi þið ávallt færa mér fögnuð og megi ég verðskulda hann.

 

Nú þegar Jesús Kristur hefur gefið ykkur slíka dýrð er það einungis rétt að þið færið honum dýrð; og það þýðir að ef þið eigið að njóta fullrar blessunar verðið þið að sameinast einum rómi í hlýðni og viðurkenningu á valdi biskups ykkar og presta.

 

3. Ekki má skilja þetta sem svo að ég sé að gefa ykkur tilskipun eins og ég sé einhver mikilvægur maður. Það er rétt að ég er fangi í þágu nafns Guðs en því fer fjarri að ég sé enn fullkominn í Jesú Kristi; ég er einungis rétt að byrja feril minn sem lærisveinn og ég tala til ykkar sem námsfélaga minna. Raunar eru það þið sem ættuð að taka mig í kennslustund - kennslustund í trú og umvöndun, langlyndi og umburðarlyndi. Hvað sem því líður, hvað ykkur varðar, nægir mér ekki kærleikur til að mér verði rótt. Þess vegna voga ég mér að leggja það til að gripið verði til þeirra ráða sem eru í samræmi við vilja Guðs. Því ekkert líf getum við átt aðskilið frá Jesú Kristi; og eins og hann talar vilja Föðurins, svo tala biskupar okkar vilja Jesú Krists, jafnvel þeir sem eru á ystu endimörkum heimsbyggðarinnar.

 

4. Því er það við hæfi að þið lagið venjur ykkar og siði náið að vilja biskupsins. Og það gera þeir sannarlega prestar ykkar sem réttilega njóta sannmælis. Þeir eru Guði til sóma því samstilltir biskupinum, eins og strengurinn hörpunni, færa þeir Jesú Kristi lofgjörð einum huga og af fullri ástúð. Komið til liðs við þennan kór sérhver ykkar; stillið huga ykkar saman í eina hljómkviðu; leitið samhljómsins alfarið hjá Guði og syngið hátt til Föðurins með einni röddu fyrir Jesúm Krist til að hann heyri til ykkar og fái vitað af góðverkum ykkar að þið séuð sannarlega limir á líkama Sonar hans. Með því að mynda eina samfylkingu verður eining ykkar við Guð stöðug.

 

5. Fyrst náið samband tókst með mér og biskupi ykkar á svo skömmum tíma - samband sem var frekar andlegt en þessa heims - hlýt ég að telja gæfu ykkar mikla að vera í órjúfanlegri einingu við hann eins og kirkjan er við Jesúm Krist og Jesús Kristur er við Föðurinn; og mynda með því eitt samstíga einingarafl út í gegn. Eitt er það sem enginn skal draga í efa. sá sem útilokar sjálfan sig frá helgidóminum sviptir sjálfan sig brauði Guðs. Því að ef bænir eins eða tveggja einstaklinga hafa áhrif, hversu máttugri er ekki bæn biskups og allrar kirkju hans. Hver sá sem heldur sig fjarri söfnuðinum dæmir sjálfan sig samstundis sakir hroka og kallar yfir sig bannfæringu. Og þar sem skrifað stendur "Guð stendur gegn dramblátum" skulum við gæta þess að sýna biskupi enga ótryggð og tilheyra þannig Guði fyrir hlýðni okkar.

 

6. Því grandvarari sem biskup virðist vera, því meiri virðingar ætti hann að njóta. Þegar húsráðandinn sendir einhvern til að hafa yfirumsjón með heimilishaldi hans er það skylda okkar að sýna honum sömu virðingu og við ætlum þeim sem sendir hann. Það er því augljóst að við verðum að líta á biskupinn sem Drottin sjálfan. Onesímus talaði sjálfur mjög vel um hegðun ykkar í þessu sambandi, sem hann taldi bæði rétta og Guði sæmandi. Hann sagði að þið hefðuð sannleikann til grundvallar lífi ykkar og að villutrú væri svo langt frá því að skjóta rótum á meðal ykkar að sérhver ræðumaður sem færi á skjön við hinn einfalda sannleika um Jesúm Krist fær engar undirtektir.

 

7. Engu að síður eru þeir til sem stöðugt taka sér í munn nafn Guðs af mikilli hræsni fyrir utan að haga sér með þeim hætti að það er Guði til lítils sóma. Þið verðið að halda ykkur fjarri slíkum mönnum eins og þið mynduð gera ef þar færu hópar blóðþyrstra varga; þeir eru óðir rakkar sem glefsa í fólk þegar það á síst von og þið verðið að varast bit þeirra vegna þess að þau gróa seint. Einn er hann læknirinn, sem er hvort tveggja hold og andi, fæddur og ófæddur, Guð í manni, að sönnu líf í dauða; fæddur af Maríu og Guði, þjáðist fyrst og síðan ei meir - Jesús Kristur Drottinn okkar. 3

 

8. Látið því engan afvegaleiða ykkur - en ég er þó þess fullviss að þið sem fylgið Guði í hvívetna hafið ekki verið afvegaleiddir. Svo framarlega sem það er ekki djúpstæður ágreiningur meðal ykkar, þess konar sem getur valdið verulegum skaða, er líferni ykkar Guði þóknanlegt; og mitt lítilfjörlega hjarta 4 fylgir ykkur Efesusmönnum og hinni margfrægu kirkju ykkar. Ekki eru verk trúleysis möguleg hinum trúuðu eða verk trúar hinum trúlausu, ekki frekar en þeir sem holdlegir eru í ástundun geta verið andlegir, eða þeir andlegu holdlegir í ástundun. En hvað ykkur varðar er jafnvel það sem þið gerið í holdi andlegt því allt sem þið gerið er gert í Jesú Kristi.

 

9. Hvað sem því líður frétti ég af vissum mönnum sem heimsóttu ykkur langt að og fluttu ykkur skaðlegan boðskap. Þið hafið hins vegar neitað að láta hann breiðast út meðal ykkar og hafið daufheyrst við því sem þeir hafa reynt að innblása ykkur. Þið voruð daufdumbir sem steinar; já steinar í musteri Föðurins, steinar gerðir fyrir Guð að byggja með og sem dregnir eru upp af lyftiarmi Jesú Krists (krossinum) og hefur Heilagan Anda fyrir vírstreng; trú ykkar er togvindan sem dregur ykkur til Guðs, upp kærleiksslóðann. Allir eruð þið pílagrímar í sömu helgigöngu þar sem þið berið á herðum Guð ykkar og helgidóm ykkar og Krist ykkar og hina helgu muni ykkar; og þið búið ykkur allir í hátíðarbúninga boðorða Jesú Krists. 5 Og ég tek einnig þátt í fögnuði ykkar þar sem í krafti bréfs þessa tel sjálfan mig einn ykkar og get glaðst með ykkur yfir því að í kærleika ykkar sækist þið ekki eftir jarðneskum hlutum heldur Guði einum.

 

10. Hvað varðar aðra íbúa jarðarinnar skuluð þið biðja fyrir þeim án afláts, því við skulum ávallt lifa í þeirri von að iðrun þeirra leiði þá til Guðs. Gefið þeim tækifæri til að læra af ykkur, að minnsta kosti af breytni ykkar. Mætið fjandskap þeirra með mildi, gífuryrðum með auðmýkt og lastmæli með bænum. En standið fastir fyrir gegn villu þeirra. Og sýnið blíðu í stað þess að gjalda þeim í sömu mynt ef þeir gerast ofbeldisfullir. Sýnum þeim með umburðarlyndi okkar að við séum bræður þeirra og reynum að breyta eftir Drottni með því að láta reyna á það hver okkar getur liðið lengst harðræði, skort eða lítilsvirðingu - en með þeim hætti skýtur eitrað illgresi djöfulsins ekki rótum á meðal ykkar heldur dveljið þið í öllum heilagleika og ögun á líkama og sál í Jesú Kristi.

 

11. Endalok alls er nærri. Héðan í frá verðum við því að tileinka okkur auðmýkt og skjálfa fyrir langlyndi Guðs í ótta þess að það snúist til dóms gegn okkur. Við skulum annað hvort flýja væntanlega reiði hans eða umfaðma þá náð sem hann gefur okkur nú; veljum annað hvort svo lengi sem við verðum fundin í Kristi Jesú á vegi okkar til sanns lífernis. Ekkert annað en hann ætti að hafa nokkurt gildi í okkar augum; en í honum eru jafnvel þessir hlekkir sem ég klæðist mér sem festi andlegra perla sem ég vona að ég beri þegar ég rís upp aftur fyrir hjálp árnaðar ykkar. Megi mér ávallt vera ætlaður staður í árnaðarbænum ykkar til að ég megi einnig hafa gæfu og gengi Efesusmanna - þeirra kristnu manna sem í mætti Jesú Krists hafa ávallt verið sama hugar og sjálfir postularnir.

 

12. Mér er það að fullu ljóst hver ég er og hverjir þið eruð sem ég skrifa til. Ég er hinn fordæmdi, þið njótið náðar. Mín bíður voðinn, þið búið við öryggi. Þið eruð hliðið sem dauðinn leiðir okkur í gegn til návistar við Guð. 6 Þið hafið reynst hæfir að lifa þeim sama leyndardómi og okkar sæli og nafntogaði Páll sællar minningar (megi það koma í ljós að ég hef fetað í fótspor hans þegar ég kem til Guðs), sem hefur minnst ykkar í Kristi Jesú í hverju bréfi sínu.

 

13. Gerið því ykkar besta til að koma oftar saman og færa Guði þakkir og dýrð. Tíðar samkomur ykkar gera Satan örvinglaðan í verkum sínum og það dregur úr skaðsemi hans ef þið eruð sameinaðir í trú. Enginn friður er betri en sá sem gerir allan andlegan og jarðneskan fjandskap útlægan.

 

14. Þar sem alger trú og elska til Jesú Krists er ykkur gefin er ekkert í öllu þessu sem ykkur er ekki augljóst; því líf byrjar og endar með tveimur eiginleikum. Trúin er upphafið og kærleikurinn er endirinn og eining beggja er Guð. Það sem gerir sálina fullkomna er að temja sér þetta því enginn sem játar trú mun drýgja synd og enginn sem geymir með sér kærleika getur fundið til haturs. Eins og tréð þekkist af ávöxtum þess þannig þekkjast þeir af verkum sínum sem telja sig Krists; því nú nægir ekki að játa trúna, heldur að maðurinn sé varanlegur í mætti trúarinnar.

 

15. Það er betra fyrir manninn að þegja og vera sannur, heldur en að tala og vera það ekki. Göfugt er að kenna öðrum ef sá sem talar iðkar það sem hann segir. Einn kennarinn "talaði og það varð"; og það sem hann fékk áorkað, jafnvel með þögn sinni, var vel verðugt Föðurnum. Sá maður sem hefur sannarlega numið til fulls tjáningar Jesú mun einnig verða fær um að skilja þögn hans og ná með því fullum andlegum þroska til að hans eigin orð verði afl til verka og þögn hans ígildi orðfæris. Ekkert er hulið Drottni, jafnvel allra innstu hugsanir okkar eru honum ávallt ljósar. Því ætti það hvaðeina sem við gerum að vera gert eins og hann sjálfur dveldi innra með okkur; við værum musteri hans og þar hið innra væri Guð. Því staðreyndin er sú að þannig er það í raun og veru og að svo miklu leyti sem við elskum hann rétt verður okkur þetta ljóst.

 

16. Ekki efast um neitt í þessu sambandi, kæru bræður. Enginn maður sem gerst hefur sekur um að saurga heimili getur átt von á að erfa Guðs ríki. Ef þeir verða að deyja sem það gera samkvæmt holdinu er þá jafnvel ekki enn meiri ástæða að bregðast við niðurrifsstarfsemi þess sem saurgar trúna sem Guð hefur gefið okkur og Jesús Kristur var krossfestur fyrir? Slíkur óþokki mun í óhreinleika sínum verða hinum óslökkvandi eldi að bráð og það á einnig við þá sem ljá honum eyra.

 

17. Sökum þessa tók Drottinn við smyrslum 7 á höfuð sér til að hann gæti andað yfir kirkjuna óforgengileika. Þannig megið þið aldrei láta smyrja ykkur með daunillu smyrsli samkvæmt uppskrift höfðingja þessa heims því þá gæti hann hrifsað ykkur í fjötra sína og rænt ykkur lífinu sem þið eigið fyrir höndum. (Hvers vegna getum við ekki allir beitt heilbrigðri skynsemi og meðtekið þá þekkingu á Guði sem okkur hefur verið gefin í persónu Jesú Krists? Hvers vegna þurfum við að farast í heimsku okkar og virða að vettugi þessa náðargjöf sem Drottinn hefur sent okkur?)

 

18. Hvað mig varðar þá lýtur nú allur andi minn auðmjúkur8 krossinum: krossinum sem misbýður svo mjög hinum óguðlegu en er okkur hjálpræði og eilíft líf. "Hvar er nú vitringurinn eða orðkappi ykkar?" Hvar eru fögru orðin hinna svokölluðu gáfumanna okkar? Fyrir guðlega ráðstöfun var getnaður Guðs okkar, Jesú Krists, í Maríu af kyni Davíðs sem og af Heilögum Anda; hann var fæddur og hann gekkst undir skírn til að hann gæti með þjáningu sinni helgað vatnið.

 

19. Meydómur Maríu var hulinn höfðingja þessa heims; það var einnig barnsfæðing hennar, og það var einnig dauði Drottins. Þessir þrír skerandi leyndardómar fundu leið sína í djúpri þögn Guðs. Hvernig voru þeir þá kunngjörðir heiminum? Á himnum skein stjarna, hún skein skærar en allar hinar; engin orð gátu skýrt dýrðarljóma hennar og ókunn einkenni hennar gerðu menn ráðvillta. Hinar stjörnurnar og sólin og máninn röðuðust í kringum hana í þyrpingu en skin hennar bar af þeim öllum. Þetta var öllum mikil ráðgáta; hvaðan kom þessi aðkomustjarna, sem var svo ólík öllum öðrum? Alls staðar sundraði ljómi hennar göldrum; 9 álögum fjölkynngi var eytt og hjátrú fékk náðarhögg sitt. Endi var bundinn á hið ævaforna ríki, því nú var Guð að birtast í mannlegri mynd til að koma á nýrri skipan, jafnvel lífi án enda. Nú hófst það sem fullkomnað hafði verið í guðlegu ráði; og öll sköpunin komst í uppnám vegna þessarar fyrirætlunar um algera eyðingu dauðans.

 

20. Ég vonast til að skrifa ykkur annað bréf 10 - ef Jesús Kristur svarar bænum ykkar og leyfir það og sé það Guðs vilji - þar sem ég mun halda áfram að kynna ykkur fyrirætlun Guðs um hinn nýja mann Jesúm Krist. Sú fyrirætlun eflir trú á hann og kærleika til hans og opnar augun fyrir píslum hans og upprisu. Ég mun vissulega gera það ef Drottinn opinberar mér að þegar þið komið allir saman til fundar, séuð þið sem einn maður og eitt nafn í náðarástandi og sameinaðir í trú og í Jesú Kristi (sem var af ætt Davíðs að holdi og er Manssonurinn og Sonur Guðs). Og ef þið eruð nú reiðubúnir einum huga að hlýða biskupi ykkar og prestum og brjóta eitt brauð sem er lyf ódauðleikans og algild lækning til varnar dauða og til lífs í Jesú Kristi um aldir alda.

 

21. Ég færi fram líf mitt til fórnar fyrir ykkur og einnig fyrir þá sem þið senduð Guði til heiðurs hér til Smýrnu þaðan sem ég skrifa þetta bréf. Það hefur að geyma þakklæti mitt til Guðs svo og kærleika minn til Pólýkarpusar sem og til ykkar sjálfra. Minnist mín eins og Jesús Kristur minnist ykkar. Biðjið fyrir kirkjunni í Sýrlandi þaðan sem þeir leiða mig í hlekkjum til Rómar. Ég var sístur og minnstur þeirra trúuðu þar og þrátt fyrir það er ég talinn verðugur þess að ganga fram til heiðurs Guði.

 

Bið að heilsa ykkur í nafni Guðs Föður og Jesú Krists sem er sameiginleg von okkar.

 

...................................................

 

(1) Heilagur Ignatíus kirkjufaðir, sem var biskup í Antíokkíu, var dæmdur til dauða þegar hann var kominn á efri ár og skrifaði hann þetta bréf og sex önnur á leið sinni til Rómar, þar sem hans beið dauðinn í hringleikahúsi. Bréfið er talið vera frá árinu 107.

 

(2) Sumir hafa leitt að því getum að hér sé kominn þrællinn sem heilagur Páll postuli minnist á í bréfi sínu til Fílemons en aðrir telja það heldur ólíklegt þar sem hann hefði varla getað verið enn á lífi þegar heilagur Ígnatíus skrifaði bréfið.

 

(3) Talið er að hér sé vitnað í nokkrar ljóðlínur forns sálms kristinna manna.

 

(4) Í frumtexta notar heilagur Ignatíus sömu orð og heilagur Páll postuli í fyrra Korintubréfinu (4.13): "sorp heimsins". Eins og merking þessara orða þróaðist í pistlum kristinna manna standa þau í merkingu "hins auðmjúka þjóns".

 

(5) Hérna breytir heilagur Ignatíus skyndilega um tón í samlíkingu sinni og vísar til trúarathafna heiðingja. Skrúðgöngur þeirra voru ekki óalgengar í Efesus og var það sem borið var íklætt alls kyns skrauti.

 

(6) Líklega tilvísun til þess að Efesus var endastöð margra píslarvotta í Litlu-Asíu áður en haldið var til Rómar.

 

(7) Sjá Mt. 26.6 o. áfr.; Mk. 14.3 o. áfr.; Jh. 12.1 o. áfr.

 

(8) Sama orðalag er hér notað og er útskýrt í nr. 4.

 

(9) Það var almenn trú manna að galdrar, sem voru stór hluti heiðinna trúarbragða, hefðu að engu verið gerðir með holdtekjunni og að heimsókn vitringanna þriggja hafi verið táknræn fyrir endalok þeirra.

 

(10) Ekki er vitað hvort heilögum Ignatíusi gafst nokkurn tíma tækifæri til að skrifa það bréf.

 

Þýðing © Reynir Guðmundsson 1999

Kaþólska kirkjan á Íslandi. Biskupsstofa Hávallagötu 14-16, 101 Reykjavík, Ísland. Netfang: catholica@catholica.is

Kaþólska kirkjan á Íslandi © 2014